Hér getur þú fengið nánari upplýsingar um að gerast fósturforeldri

Og náð í umsóknargögn til að sækja um leyfi eða endurnýja leyfi til að vera með barn í fóstri

26. janúar 2018

Þeir sem áhuga hafa á að gerast fósturforeldrar geta leitað upplýsinga hjá Barnaverndarstofu þ. á m. fengið viðtal þar sem veittar eru grundvallarupplýsingar um hvað fósturráðstöfun felur í sér, annað hvort símleiðis í 530-2600 eða með því að senda fyrirspurn.

Hér getur þú fundið nánari upplýsingar og umsóknargögn til að sækja um leyfi eða endurnýja leyfi

Hér getur þú séð heimasíðu Félags fósturforeldra

Er þörf fyrir fósturforeldra?
Aðstæður og þarfir þeirra barna sem eru í þörf fyrir fósturforeldra eru afar mismunandi. Af því leiðir að á hverjum tíma þurfa að vera mun fleiri til að sinna því hlutverki  en fjöldi barna segir til um. Á ári hverju kunna 70-80 börn að vera í þörf fyrir tímabundið fóstur en mun færri, um 10-15 fyrir varanlegt fóstur.

Að gerast fósturforeldri
Allir sem óska eftir því að gerast fósturforeldrar þurfa að sækja formlega um það til Barnaverndarstofu og skila inn tilskyldum gögnum. Barnaverndarstofa óskar að því búnu eftir umsögn barnaverndarnefndar í heimilisumdæmi umsækjenda um hæfni og getu þeirra til að gerast fósturforeldrar. Sú umsögn er gerð eftir fyrirfram ákveðnu verkferli og byggir á öllum  umsóknargögnum, sjálfstæðri könnun og mati barnaverndarnefndar. Starfsmenn Barnaverndarstofu fara síðan á heimili umsækjenda til að staðreyna þær upplýsingar og gögn sem fyrir liggja og taka  viðtal við umsækjendur.
Á grundvelli allra fyrirliggjandi gagna og upplýsinga leggur svo Barnaverndarstofa sjálfstætt mat á það hvort umsækjendur uppfylli skilyrði til að gerast fósturforeldrar. (sjá einnig námskeið fyrir fósturforeldra hér fyrir neðan).

Skilyrði og gögn
Við mat á hæfni væntanlegra fósturforeldra skulu könnuð almenn atriði svo sem hvaða væntingar og kröfur fósturforeldrar hafa um töku barns í fóstur, aldur barns, kyn o.s.frv. Jafnframt skulu heimilishagir og aðstæður væntanlegra fósturforeldra kannaðar. Umsækjendum ber að veita Barnaverndarstofu heimild til að afla fulls sakavottorðs allra heimilismanna eldri en 15 ára. Einnig ber að skila heilbrigðisvottorði, hjúskapar- eða sambúðarvottorði, ásamt upplýsingum um efnahag, svo sem skattframtal eða vottorð um tekjur. Barnaverndarstofa óskar einnig eftir meðmælum frá vinnuveitanda og umsögn ættingja. Það er m.a. gert í ljósi þess að fósturbarn mun tilheyra stórfjölskyldu fósturforeldranna.

Námskeið fyrir fósturforeldra
Samkvæmt 9. gr. reglugerðar um fóstur nr. 804/2004  ber umsækjendum að sækja námskeið á vegum Barnaverndarstofu (PRIDE) áður en leyfi er veitt. Annað markmiða námskeiðsins er að gera  umsækjendum kleift að meta hvort þeir í reynd vilja og geta gerst fósturforeldrar. Leiðbeinendur eru á  námskeiðinu fyrir sitt leyti að meta hæfni og möguleika þeirra sem það sitja til að gerast fósturforeldrar. Hitt meginmarkmið þess er að veita þátttakendum nauðsynlega lágmarksþjálfun undir komandi hlutverk sitt. Foster- Pride - námskeið fyrir fósturforeldra

Til baka


Language