Fóstur!

Almennt um fósturmál

Fóstur
Um fóstur er ræða þegar barnaverndarnefnd felur fósturforeldrum umsjá barns. Ástæður þess geta hvort sem er verið erfiðleikar barns, að uppeldisaðstæðum þess sé áfátt, eða hvoru tveggja. Þær fósturráðstafanir sem um getur verið að ræða eru tímabundið fóstur, varanlegt fóstur og styrkt fóstur.

Tímabundið fóstur
Barni er komi í tímabundið fóstur þegar ætla má að unnt verði að bæta úr því ástandi sem var tilefni fóstursins innan takmarkaðs tíma þannig að það geti snúið heim að nýju. Þannig eru markmið ráðstöfunarinnar ólík því sem við á um varanlegt fóstur. Reglugerð um fóstur segir til um að tímabundið fóstur geti staðið að einu ári en lengur í undantekningartilvikum.

Varanlegt fóstur
Um varanlegt fóstur er að ræða þegar barni er komið í fóstur þar til það verður sjálfráða. Barni skal komið í varanlegt fóstur þegar aðstæður þess kalla á að það alist upp hjá öðrum en foreldrum sínum. Markmiðið með slíkri ráðstöfun er að tryggja fósturbarni viðeigandi uppeldisaðstæður og gefa því tækifæri á að mynda varanleg tengsl við fósturforeldra. Í  aðdraganda að varanlegu fóstri er mælt fyrir um reynslutíma sem nefnt er ,,reynslufóstur" í reglugerð um fóstur.

Styrkt fóstur
Með styrktu fóstri er átt við sérstaka umönnun og þjálfun barns á fósturheimili í takmarkaðan tíma, að hámarki í tvö ár. Þessi ráðstöfun gerir ráð fyrir því að annað fósturforeldra a.m.k. sé í ,,fullu starfi" við að sinna því verkefni.  Barni skal komið í styrkt fóstur þegar það stríðir við verulega hegðunarerfiðleika vegna geðrænna, tilfinningarlegra og annarra vandamál af því tagi og nauðsynlegt þykir að koma barninu í fóstur í stað þess að vista það á meðferðarheimili eða stofnun. Umgjörð styrkts fósturs skal gera fósturforeldrum kleift að vinna að því að mæta sérstökum þörfum barns. Tilgangur þess er að aðstoða barn við að ná tökum á vanda sínum og auka hæfni þess á sem flestum sviðum.

Í barnaverndarlögum kemur m.a. eftirfarandi fram um fóstur
 

65. gr. Fóstur.
Með fóstri er í lögum þessum átt við að barnaverndarnefnd feli sérstökum fósturforeldrum umsjá barns í a.m.k. þrjá mánuði þegar fyrir liggur að
  a. foreldrar hafa afsalað sér forsjá eða umsjá og samþykkt fósturráðstöfun,
  b. kveðinn hefur verið upp úrskurður um heimild til að fóstra barn utan   heimilis þegar samþykki foreldra og barns eftir atvikum liggur ekki fyrir,
  c. foreldrar hafa verið sviptir forsjá með dómi, d. barn er forsjárlaust vegna andláts forsjáraðila eða
  e. barn sem komið hefur til landsins án forsjáraðila sinna er í umsjá barnaverndarnefndar eða fær hæli eða dvalarleyfi á Íslandi.

Fóstur getur verið tvenns konar, varanlegt eða tímabundið. Með varanlegu fóstri er átt við að það haldist þar til forsjárskyldur falla niður samkvæmt lögum. Fara fósturforeldrar þá að jafnaði með forsjárskyldur nema annað þyki betur henta þörfum barns og hagsmunum að mati barnaverndarnefndar. Að jafnaði skal ekki gerður samningur um varanlegt fóstur fyrr en að liðnum reynslutíma sem skal ekki vera lengri en eitt ár. Með tímabundnu fóstri er átt við að fóstur vari í afmarkaðan tíma þegar ætla má að unnt verði að bæta aðstæður þannig að barnið muni geta snúið aftur til foreldra sinna án verulegrar röskunar á högum þess eða þegar áætlað er að annað úrræði taki við innan afmarkaðs tíma. Tímabundið fóstur skal ekki vara samanlagt lengur en tvö ár nema í algerum undantekningartilvikum þegar það þjónar hagsmunum barns.

Markmið fósturs skv. 1. mgr. er að tryggja barni uppeldi og umönnun innan fjölskyldu svo sem best hentar þörfum þess. Barni skal tryggður góður aðbúnaður hjá fósturforeldrum og þeir skulu sýna fósturbarni umhyggju og nærfærni og leitast við að efla andlegan og líkamlegan þroska þess. Nánar skal kveðið á um réttindi og skyldur fósturforeldris í fóstursamningi. Ef barn, sem ráðstafað er í fóstur, á við að stríða verulega hegðunarerfiðleika vegna geðrænna, tilfinningalegra og annarra vandamála af því tagi er enn fremur heimilt að mæla fyrir um sérstaka umönnun og þjálfun á fósturheimili í stað þess að vista það á stofnun.

Reglugerð um fóstur.
Sjá frekari upplýsingar um vistun utan heimilis

Til baka


Language