Lækjarbakki

Meðferðarheimilið Lækjarbakki

Meðferðar- og skólaheimilið LækjarbakkiLaekjarbakki
Póstfang: 851 Hella
Sími: 487-5163487-5163
Forstöðumaður: Yngvi Karl Jónsson
Netfang: yngvi@bvs.is

Staðsetning: 120 km frá Reykjavík
Fjöldi barna: sex til sjö
Aldur: 14 til 18 ára
Starfsmenn: 13
Skóli: Kennsla er á vegum Laugalandsskóla

Meðferðar- og skólaheimilið Lækjarbakki tók til starfa í ágúst 2010. Heimilið er á Rangárvöllum.

Markhópur og umsóknir um meðferð
Meðferðin á Lækjarbakka er ætluð unglingum sem glíma við alvarlegan hegðunarvanda þegar önnur og vægari úrræði á vegum barnaverndaryfirvalda hafa ekki skilað tilætluðum árangri. Að öllu jöfnu er gert ráð fyrir að unglingur hafi áður lokið meðferð á Stuðlum. Hegðunarvandinn getur falist í vímuefnaneyslu, ofbeldi, afbrotum, skóla- og námserfiðleikum og öðrum sálfélagslegum vanda. Viðkomandi barnaverndarnefnd metur í samvinnu við foreldra (forsjáraðila) hvort forsendur eru fyrir vistun og meðferð og sækir um til Barnaverndarstofu. Við mat á vistunarþörf og við mat umsókna er m.a. horft til þess hvort meðalhófs er gætt. Unglingur sem hefur náð 15 ára aldri þarf að samþykkja umsókn en viðkomandi barnaverndarnefnd getur að öðrum kosti úrskurðað ungling í meðferð.

Meðferðartími og -markmið
Vistun og meðferð á Lækjarbakka getur varað í allt að sex mánuði en þá tekur við eftirmeðferð í allt að þrjá mánuði. Lengd meðferðar er einstaklingsbundin og tekur mið af stöðu meðferðarmarkmiða hvers og eins og annarra aðstæðna. Áhersla er lögð á þátttöku foreldra í meðferðinni og leitast við að unglingur dvelji í sem skemmstan tíma á sjálfu meðferðarheimilinu enda auðveldi það aðlögun að heimahögum og auki líkur á jákvæðum árangri. Sérfræðingur á vegum Lækjarbakka og tengill unglings sinna eftirmeðferðinni sem er einstaklingsbundin og felst í stuðningi og meðferðarfundum með unglingi og foreldrum.
Meðferðin er einstaklingsbundin en meginmarkmiðin eru að:

  • Efla félagsfærni, sjálfstjórn, jákvæða eiginleika og hæfileika unglings
  • Draga úr og stöðva vímuefnaneyslu, ofbeldi og afbrot
  • Bæta möguleika unglings til að stunda skóla og/eða vinnu við hæfi
  • Auka líkur á að unglingur geti búið heima eða í öðrum viðurkenndum heimilisaðstæðum að vistun lokinni
  • Auka hæfni og bjargráð foreldra (forsjáraðila) til að takast á við aðsteðjandi vandamál
  • Styrkja tengsl og bæta samskipti milli unglings, foreldra (forsjáraðila), fjölskyldu og í nærumhverfi


Innihald meðferðar og leiðir að markmiðum
Meðferðinni er beint að þekktum áhættuþáttum í hegðunarvanda og vímuefnaneyslu barna og unglinga, svo sem samskiptum og hugsanlegum vanda í fjölskyldu, neikvæðum viðhorfum og fyrirmyndum sem og námserfiðleikum eða öðrum erfiðleikum á sviði hugarstarfs og hæfni. Í meðferðinni er stuðst við viðurkenndar aðferðir sem meðal annars byggja á atferlismótun, hugrænni atferlismeðferð og leiðbeinandi fjölskyldumeðferð.
Áhersla er á þjálfun í félagsfærni og sjálfstjórn, meðal annars með ART-þjálfun (Aggression Replacement Training). Þjálfunin og meðferðin miða m.a. að því að auka hæfni og áhuga á að finna betri lausnir í samskiptum, að hugsa um og takast á við aðstæður sem geta leitt til vandræða og átta sig á hvaða tilfinningar fylgja því. Notað er umbunar- og þrepakerfi sem styður við atferlismótun og árangur í að fylgja ákveðnum reglum, standa við samninga og að vanda sig í samskiptum.

Foreldrar (forsjáraðilar) eru mjög mikilvægir þátttakendur í meðferðinni og fá stuðning og fræðslu meðan á vistun barnsins stendur sem og í eftirmeðferð. Lögð er áhersla á samvinnu foreldra og barnaverndarstarfsmanna við starfsfólk Lækjarbakka í formi funda, vinnslu meðferðaráætlana, reglulegra heimsókna og gagnkvæmu upplýsingaflæði. Mikilvæg forsenda meðferðar er að fullorðnir standi saman um meðferð barns. Lögð áhersla á jákvæða umbun og styrkleika foreldra og unglings. Reynt er að virkja jákvæðar fyrirmyndir í fjölskyldu, vinahópi og tómstundum og unnið í samstarfi við aðra aðila í nærumhverfi eins og heimaskóla ef þess er kostur. Í samráði við foreldra og í takti við stöðu unglings í meðferðinni er lögð áhersla á reglulegar heimferðir og dvöl unglings þar nokkra daga í senn (oft nefnt helgarleyfi). Þetta er mikilvæg forsenda fyrir yfirfærslu og alhæfingu meðferðarárangurs í heimahögum og til að vinna jafnóðum úr bakslögum.

Skólastarf og tómstundir
Kennsla fer fram á meðferðarheimilinu. Skólastarfið tekur mið af einstaklingsþörfum og getur því hvoru tveggja verið hefðbundið grunn- eða framhaldsskólanám eða sérsniðið nám sem miðar oftast að því að gera nemandanum kleift að setjast á skólabekk á nýjan leik. Allir nemendur á Lækjarbakka taka á einhvern hátt þátt í skólastarfinu, hvort sem þeir hafa lokið grunnskólaprófi eða ekki. Skólinn og námið eru samtvinnuð meðferðarstarfinu og taka kennarar fullan þátt í því með öðrum starfsmönnum meðferðarheimilisins.
Á Lækjarbakka er til að mynda smíðaverkstæði, aðstaða til tónlistariðkunar, billjardborð, fjárhús með nokkrum kindum og miklir möguleikar á alls kyns útivist svo sem gönguferðum, veiðiferðum, hjólreiðum, hestaferðum, sundi og kajakferðum svo eitthvað sé nefnt.

Starfsfólk
Meðferðarheimilið er rekið samkvæmt vaktakerfi. Þar starfa níu einstaklingar á dag-og kvöldvöktum og fjórir starfsmenn á næturvöktum. Starfsfólk kemur víða að og hefur margs konar reynslu og menntun sem nýtist vel í starfi. Á Lækjarbakka starfa til að mynda tónlistarkennari, íþróttakennari, sérfræðingur í félagslegri sálfræði, afbrotafræðingur, þroskaþjálfi, fjölskylduráðgjafi, fólk með almenna sálfræðimenntun og sérhæfðir ráðgjafar.

Til baka


Language