Stuðlar

Meðferðarstöð ríkisins

Studlar
Fossaleyni 17
Póstfang: 112 Reykjavík
Sími: 530 8800530 8800 - Bréfsími 530 8801530 8801
Netfang: mru@studlar.is
Heimasíða www.studlar.is
Forstöðumaður: Funi Sigurðsson, sálfræðingur
Fjöldi rýma: 8 á meðferðardeild og að hámarki 5 í neyðarvistun/lokaðri deild. Alls 13 rými
Skóli: Kennsla er á vegum Brúarskóla

Starfsemin á Stuðlum skiptist í tvennt: Meðferðardeild þar sem fram fer greining og meðferð og lokaða deild (neyðarvistun) þar sem fram fer gæsla og mat.

Á meðferðardeild eru rými fyrir átta börn í senn. Í meðferðinni er stuðst við reglubundna dagskrá og atferlismótandi þrepa- og stigakerfi. Að öðru leiti er meðferðin löguð að þörfum hvers og eins. Greining og meðferð haldast í hendur í einstaklings- og fjölskylduviðtölum, sálfræðiathugunum og úrvinnslu upplýsinga frá meðferðaraðilum og skóla. Skoðaðar eru aðferðir barns í samskiptum, líðan og viðhorf til eigin stöðu sem og bjargráð í fjölskyldu. Í meðferðinni er reynt að auka félagsfærni, sjálfstjórn og hæfni til að nýta eigin styrkleika. Daglega er farið í útivist, tómstundir eða íþróttir. Skólanám er á vegum Brúarskóla og fer fram á Stuðlum. Foreldrar eru í samskiptum við börn sín í meðferðarviðtölum, á heimsóknartímum og í helgarleyfum þar sem reynir á að yfirfæra meðferðarárangur á heimaslóðir. Áður en unglingur útskrifast af meðferðardeild byrjar hann að aðlagast sínu fyrra umhverfi og stunda heimaskóla ef hægt er. Gefnar eru ráðleggingar til skóla og vistunaraðila. Í samráði við vistunaraðila og foreldra er metið hvort þörf er á langtímameðferð á meðferðarheimili eða vistun í fóstri eftir útskrift. Þetta á við ef ekki er talið útlit fyrir að barn og foreldrar geti nýtt sér stuðning á heimaslóðum eftir að vistun á meðferðardeild líkur. Eftirmeðferð Stuðla felst í fjölskylduviðtölum hjá sálfræðingi á Stuðlum.

Barnaverndarnefndir geta vistað ungling á lokaðri deild vegna alvarlegra hegðunarerfiðleika, óupplýstra afbrota, ofbeldis eða stjórnleysis vegna neyslu. Markmiðið er að stöðva skaðlega hegðun og að starfsfólk barnaverndarnefnda hafi svigrúm til að greiða úr málum. Starfsmenn lokaðrar deildar aðstoða vistunaraðila og foreldra við að meta stöðuna en ekki er gert ráð fyrir greiningu og meðferð. Deildin er ekki refsiúrræði heldur staður til að auka jafnvægi unglings með því að veita honum húsaskjól, fæði, afþreyingu og samneyti við fullorðna. Þar er hvorki aðstaða til afeitrunar né fyrir sjúka einstaklinga. Forstöðumenn langtímameðferðarheimila geta vistað ungling á lokaðri deild ef þörf krefur.
Starfsmenn Stuðla fylgja verklagsreglum sem settar eru af forstöðumanni Stuðla í samráði við Barnaverndarstofu.

Helsti vandi barna á meðferðardeild Stuðla
Þau börn sem koma á Stuðla eiga við margvísleg vandamál að stríða, á heimili, í skóla og í samskiptum. Sum hafa orðið fyrir kynferðislegri misnotkun, einelti, ofbeldi eða verið í útigangi. Sum hafa lagt aðra í einelti, beitt ofbeldi eða framið afbrot. Mörg stríða við þunglyndi og ofvirkni, önnur við kvíðavanda svo sem áfallastreitu (tafla 6). Hvert barn á að jafnaði við fjölþættan vanda að stríða og fellur því undir fleiri en einn flokk (að meðaltali þrjá). Hegðunarröskun, þunglyndi/óyndi og ofvirkni/athyglisbrestur eru greind samkvæmt skilmerkjum DSM-IV greiningarkerfisins. Ef tölur eru bornar saman milli ára skal hafa í huga að þær byggja að hluta á gæðum aðsendra upplýsinga. Einnig hafa greiningaraðferðir Stuðla þróast og ber þar helst að nefna að í ársbyrjun 2003 var í samvinnu við Barna- og unglingageðdeild Landspítala tekið upp nákvæmara greiningarviðtal (K-SADS) sem vísar þó eftir sem áður í skilmerki DSM IV. Flokkurinn skólaerfiðleika tekur til náms- og hegðunarvanda en í þessari töflu er ekki tilgreindur sérstaklega fjöldi þeirra sem stríða við almenna eða sértæka námserfiðleika. Talning í flokknum vímuefnaneysla miðast við að barn hefur notað löglegt eða ólöglegt vímuefni, eitt eða fleiri, oftar en tvisvar. Miðað er við upplýsingar barns í vímuefnakönnun á Stuðlum. Athugið að með þessari aðferð er ekki metin misnotkun eða ánetjun vímuefna.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica