NÝTT MST TEYMI: STÖRF ÞERAPISTA LAUS TIL UMSÓKNAR

7. desember 2009

Barnaverndarstofa hefur starfrækt svokallaða fjölkerfameðferð (Multisystemic Therapy – MST) sem er gagnreynd meðferð með fjölskyldum unglinga með alvarlegan hegðunarvanda sem annars þyrftu vistun utan heimilis. MST miðar að því að efla foreldrahæfni og bæta samheldni og samskipti í fjölskyldu. Meðferðin fer fram á heimili fjölskyldunnar og í nærsamfélagi í samstarfi við skóla og aðra lykilaðila. Aðgengi er að ákveðnum meðferðaraðilum (þerapistum) í síma allan sólarhringinn.

Óskað er eftir einstaklingum með háskólapróf á sviði heilbrigðis- eða félagsgreina og góða faglega þekkingu og reynslu af meðferðarvinnu í 3 stöður þerapista sem mynda saman 3ja manna teymi undir stjórn handleiðara/teymisstjóra. Teymið er til viðbótar við það teymi sem nú starfar. Um er að ræða fullt starf og er unnið eftir meðferðarreglum og aðferðum MST í samstarfi við erlendan MST sérfræðing. Nánari upplýsingar um störfin og ráðningarskilyrði er að finna á Starfatorgi www.starfatorg.is

Við úrvinnslu umsókna um störfin gildir mat Barnaverndarstofu á hæfni og eiginleikum umsækjenda. Launakjör eru samkvæmt kjarasamningum Barnverndarstofu við viðkomandi stéttarfélög. Í byrjun fá starfsmenn 5 daga grunnþjálfun í MST og reglulega þjálfun í framhaldi.

Umsóknarfrestur er til 21. desember nk. Viðkomandi þurfa að geta hafið störf eigi síðar en 1.apríl 2010. Allar umsóknir gilda í sex mánuði frá lokum umsóknarfrests ef starf losnar að nýju. Nánari upplýsingar veitir Halldór Hauksson á Barnaverndarstofu í síma 530 2600 (www.bvs.is). Umsóknum má einnig skila rafrænt til halldor@bvs.is.
Til baka


Language