Starfsdagur Barnaverndarstofu með félagsmálastjórum

24. mars 2011

Barnaverndarstofa hélt árlegan fund með félagsmálastjórum og yfirmönnum barnaverndarstarfs á vegum sveitarfélaga, föstudaginn 18. febrúar 2011 í Nauthól við Nauthólsvík. Alls mættu 34 félagsmálastjórar og starfsmenn frá 27 barnaverndarnefndum víðsvegar af landinu.

Dagurinn hófst með yfirliti forstjóra Barnaverndarstofu yfir stöðu barnaverndarmála, þar kom m.a. fram að tilkynningum til barnaverndarnefnda fjölgaði árlega um 10-20% sl. áratug en fækkaði milli áranna 2007 og 2008, þeim fjölgaði síðan aftur milli áranna 2008 og 2009. Fjöldi barna til meðferðar hjá nefndunum hefur hins vegar nánast staðið í stað. Tilkynningum til barnaverndarnefnda er nánast sá sami árin 2009 og 2010, (fækkaði um 1%) en eðli tilkynninga breyttist þar sem börnum í neyslu fjölgar svo og þeim sem verða vitni að heimilisofbeldi. Eftirspurn eftir stofnanameðferð skrapp saman milli áranna 2009-10 en eftirspurn eftir MST-meðferð jókst.

Farið var yfir breytingar á meðferðarstarfi, stöðuna í dag, spurningar og verkefni framundan. Fjallað var um stöðu meðferðar- og fósturmála og þróun milli ára varðandi fjölda barna á meðferðarheimilum og vistunartíma. Í dag eru 17-20 pláss á langtímameðferðarheimilum auk 8 plássa á Stuðlum en stækkun MST-teyma gefur möguleikan á að þjónusta 65-80 fjölskyldur á ári. Fjallað var um kerfin í kringum barnið og hvað viðheldur árangri MST-meðferðar. Staða landsmarkmiða koma vel út við 12 mánaða eftirfylgd að lokinni meðferð þar sem árangur er um 80%. Rætt var um reynslu barnaverndarstarfsmanna af MST-meðferðinni en foreldrar eru oft á tíðum uppgefnir og krafa um að unglingurinn fari af heimilinu þegar sótt er um MST-meðferð. Fjallað var um hvernig meðferðarheimilin nýtast börnum sem eru til meðferðar hjá þeim en staðsetningar meðferðarheimila hafa þar áhrif. Kom m.a. fram að starfsmenn telji þörf á lokuðu meðferðarheimili sem býður upp á vímuefnameðferð.

Þjónusta barnaverndar við börn með fötlun og annan flókin vanda kom til umfjöllunar og var lögð áhersla á réttindi barna við vinnslu barnaverndarmála. Kom fram að gæta þurfi meðalhófs og beita vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að s.s. að beita úrræðum á grundvelli laga um málefni fatlaða áður en til álita kemur að vista barn utan heimilis. Aukin ásókn hefur verið eftir vistunum í barnaverndarkerfinu fyrir börn með flókin vanda, þ.m.t. börn sem eiga rétt á þjónustu á grundvelli laga um málefni fatlaðra. Rætt var um áskoranir og tækifæri við yfirfærslu þjónustu á grundvelli laga um málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.

Farið var yfir mikilvægi þess að sískráning og aðrar tölulegar upplýsingar berist Barnaverndarstofu á tilskildum tíma en tölulegar upplýsingar gefa vísbendingar um þróun mála. Fram kom að árangur virðist vera af meðferðarstarfi barnaverndar ef tekið er mið af upplýsingum um að neysla og alvarlegum afbrotum unglinga hefur fækkað undanfarin áratug á sama tíma og tilkynningum til barnaverndarnefnda og vistunum á meðferðarheimilum Barnaverndarstofu fjölgaði.

Hér má sjá dagskrá fundarins.

Til baka


Language