Bragi Guðbrandsson forstjóri Barnaverndarstofu kjörinn formaður Lanzarote – nefndar Evrópuráðsins.

Meginhlutverk nefndarinnar er að hafa eftirlit með framkvæmd samnings Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegu ofbeldi

10. apríl 2014

Bragi Guðbrandsson forstjóri Barnaverndarstofu var í dag einróma kjörinn formaður Lanzarote – nefndar Evrópuráðsins.  Meginhlutverk nefndarinnar er að hafa eftirlit með framkvæmd samnings Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegu ofbeldi en samningurinn er jafnan kenndur við spænsku borgina Lanzarote þar sem hann var opnaður til undirritunar. Auk eftirlits með samningnum skal nefndin eiga frumkvæði að eflingu vitundar og miðlun bestu þekkingar á þessu sviði á meðal aðildarríkjanna. Alls hafa 30 aðildarríkja ráðsins fullgilt samninginn en hann tók gildi á Íslandi í byrjun árs 2013 en öll ríki ráðsins utan eitt hefur undirritað samninginn, 46 að tölu. Frekari upplýsingar um samninginn má finna á heimasíðu Evrópuráðsins. 

Lanzarote samningurinn er eini alþjóðasamningurinn sem tekur til hvers kyns kynferðisbrota gegn börnum. Hann þykir afar víðtækur og tekur til forvarna, viðbragða barnaverndar- og réttarvörslukerfis,  meðferðar og stuðnings fyrir þolendur, refsiréttarlegra atriða og samstarfs þjóða á millum.

Bragi hefur um árabil sinnt ýmsum sérfræðistörfum á vettvangi Evrópuráðsins. Hann er einn höfunda Lanzarote samningsins sem og margra tilmæla og leiðbeinandi reglna sem samþykktar hafa verið í málefnum barna á undanförnum áratug. Má þar nefna tilmæli um réttindi barna á stofnunum (2005); tilmæli um jákvæða foreldrafærni (2006), leiðbeinandi reglur um barnvinsamlegt réttarkerfi (2010) og um barnvænlega félagsþjónustu (2011).

Til baka


Language