Barnahús í Skotlandi

Um síðustu mánaðamót kom sendinefnd frá Skotlandi undir forystu tveggja ráðherra, dómsmála- og barnamálaráðherra, í heimsókn til Íslands til að kynna sér Barnahús.

20. september 2017

Barnaverndarstofa skipulagði vettvangsheimsókn fyrir skosku sendinefndina í Barnahús og að auki tveggja daga fræðslu fyrir hópinn um hugmyndafræðina að baki Barnahúss, framrás þess í Evrópu og þau áhrif sem sú framrás hefur haft á alþjóðavettvangi m.a. á samþykktir Evrópuráðsins.  Að fræðslunni komu fulltrúar embættis Héraðssaksóknara, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, réttargæslumanna, Landspítala og Barnaverndar Reykjavíkur auk þess sem dómari greindi frá reynslu sinni af Barnahúsi.


Sem hluta af áætlun Skota um innleiðingu Barnahúsa var forstjóra Barnaverndarstofu í kjölfar heimsóknarinnar boðið að halda erindi á ráðstefnu í Edinborg auk þess sem hann sat þar fund með yfirmönnum heilbrigðisþjónustu, löggæslu og barnaverndar.  Á ráðstefnunni kom fram gríðarlegur áhugi af hálfu ólíkra fagstétta í barnavernd um að koma á fót Barnahúsum í Skotlandi. Áform eru nú uppi um að starfrækt verði Barnahús á þremur svæðum þar í landi til að tryggja öllum börnum aðgengi að þeim.
Barnahus-fundur-Skota

Auk forstjóra stofunnar flutti fulltrúi frá Kings College Hospital Havens erindi um innleiðingu Barnahúsa í London sem vakti mikla athygli. Eins og kunnugt er hafa undanfarin tvö ár, komið tvær sendinefndir frá Englandi til Íslands í því skyni að undirbúa þá innleiðingu sem komin er vel á veg.

Barnahus-England


Til baka


Language