Hvernig hafa börn það á meðferðarheimilum?

28. janúar 2008

Barnaverndarstofa hefur um langt skeið lagt fyrir öll börn sem vistast á meðferðarheimilum viðhorfakönnun þar sem spurt er út í ýmsa þætti vistunarinnar, m.a. líðan barnanna, skólann, sálfræðiaðstoð og árangur. Viðhorfakönnunin er lögð fyrir tvisvar til þrisvar sinnum á ári. Hér að neðan má sjá einkunnagjöf þeirra barna sem dvöldu á meðferðarheimilum Barnaverndarstofu frá janúar fram í október árið 2007. Hvert atriði er metið á kvarðanum 1-10. Alls svöruðu 64 börn og var meðaldur þeirra 15,3 ár.

Líðan - 7,3
Skólinn - 8,0
Aðstoðin - 8,0
Maturinn - 7,9
Tómstundir - 7,1
Sálfræði/ráðgjafaaðstoðin - 8,0
Árangurinn - 7,0
Líðan í krakkahópnum - 7,6

Í könnuninni kom í ljós að flest börnin töldu starfsmenn og ráðgjafa heimilisins það besta við heimilið. Þá voru börnin ánægð með að fá að umgangast dýr, ánægð með matinn, með hin börnin á heimilinu og að fá að spila tónlist. Hér má sjá nokkur dæmi frá svörum barnanna:

"Maður fær alltaf nýtt tækifæri þegar maður gerir eitthvað rangt"
"Veit nú ekki...kannski digital Ísland-tækið"
"Hlýjan og umhyggjan, mér finnst ég skipta máli"
"Hvað allt er gert í samráði við mig og foreldra mína"
"Betra en ég hélt og mér líður mjög vel"
"Það að manni sé sýnd kurteisi og hvað það hjálpar líka mikið að þeir starfsmenn sem eru hér hafi trú á manni"

Börnin voru spurð að því hvað þau töldu sig hafa lært í meðferðinni sögðust flest hafa lært stjórn á skapinu, séu orðin edrú, kurteis og beri virðingu fyrir öðrum. Einnig segjast þau hafa lært að vinna, dýrahald, keyra, spila tónlist og vera í skóla. Hér má sjá nokkur dæmi frá svörum barnanna:

"Það er ekki allt foreldrum að kenna"
"Það er gaman að lifa"
"Það er betra að vera edrú og borða á morgnana"
"Allt snýst ekki um mig"

Einnig var spurt til hverra þau leita ef þeim líður illa og kom í ljós að um helmingur barnanna leitar fyrst til starfsmanna heimilisins eða foreldra. Hinir leita til sálfræðinga heimilisins, ráðgjafa eða annarra (vinir, BUGL, amma, systkini, kærasti). Tvö þeirra segjast leita fyrst til starfsmanna barnaverndarnefnda.

Börnin voru beðin um að tilgreina hvort þau vildu hafa eitthvað öðruvísi á heimilinu ef þau væru sjálf forstöðumenn. Það sem oftast var nefnt var:
- meiri útivist
- oftar frí
- mega spila tónlist
- fjölbreyttari tómstundir
- betri íþróttaaðstöðu
- minna eftirlit
- leyfa reykingar
- hringja oftar

Börnunum gafst kostur á því að fá aðstoð við að koma einhverju á framfæri. Um þriðjungur barnanna vildi fá aðstoð til þess. Dæmi um slíkt var

"Bara þakkir fyrir yndislegan stuðning"
"Já takk fyrir að gefast ekki upp á mér"
"Félagsráðgjafinn minn hefur ekki sinnt mér"
"Já ég vil fara oftar til pabba"
"Að vera ekki að banna manni allt"
"Já starfsmenn. Mér þykir vænt um þá hjálp sem þeir veita mér, þó svo að ég vilji hana ekki alltaf"
"Vill ekki fara á fósturheimili eftir dvölina á meðferðarheimili"
Til baka


Language