Nýtt nám á sviði barnaverndar í Háskóla Íslands

14. maí 2008

Haustið 2008 mun félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands bjóða uppá diplómanám í barnavernd (30e), sem er ætlað fagfólki sem lokið hefur námi í félags- eða heilbrigðisvísindum og hefur starfsreynslu á sviði barnaverndar. Námið er skipulagt í samstarfi við Barnaverndarstofu sem jafnframt veitir veglegan styrk til kennslu og rannsókna í tengslum við hina nýju námsleið og var samningur þar að lútandi nýlega undirritaður.
Mikil áhersla er á barnavernd í allri kennslu í félagsráðgjöf við HÍ, bæði í BA námi og í stafsréttindanámi. Þetta er þó í fyrsta sinn sem boðið er uppá sérstaka námsleið í barnavernd en talsverð eftirspurn hefur verið eftir slíku námi. Ástæðan er m.a. sú að á undanförnum árum hefur álag í barnavernd aukist mikið, bæði vegna fjölgunar mála, en einnig vegna þess að málin verða stöðugt flóknari. Á sama tíma eru gerðar auknar kröfur til barnaverndarstarfsmanna um sérfræðiþekkingu á sviðinu auk þess sem málaflokkurinn krefst vandaðrar og trúverðugrar málsmeðferðar.
Diplómanámið sem er á framhaldsstigi er skipulagt með það í huga að nemendur geti sinnt náminu með starfi og áhersla er lögð á að taka tillit til þarfa nemenda sem búa utan höfuðborgarsvæðisins. Námið er þriggja missera nám og verða kennarar bæði innlendir og erlendir. Umsóknarfrestur er til og með 5. júní nk.
Í undirbúningsnefnd diplómanáms í barnavernd eru: Steinunn Bergmann, fulltrúi Barnaverndarstofu, Dóra Júlíusen, fulltrúi frá Barnavernd Reykjavíkur, Gunnar M. Sandholt, fulltrúi félagsmálastjóra og Anni G. Haugen, frá Háskóla Íslands. Verkefnastjóri námsins er Halldór S. Guðmundsson.
Til baka


Language