Störf þerapista og handleiðara í MST auglýst á næstunni

6. júní 2008

Vonir standa til að störf þerapista og handleiðara í fjölkerfameðferð (MST) verði auglýst á næstu vikum. Undanfarið hafa staðið yfir viðræður Barnaverndarstofu við nokkur aðildarfélög Bandalags háskólamanna þar sem leitað hefur verið leiða til að aðlaga vinnutímafyrirkomulag MST sem best að íslenskum aðstæðum. Ráðnir verða sálfræðingar í störf handleiðara og fólk með masterspróf úr heilbrigðis- eða félagsgreinum (eða BA próf og sérmenntun) í störf þerapista. MST er vel rannsökuð (gagnreynd) meðferð sem miðar að því að bæta samheldni og samskipti í fjölskyldu og auka þannig líkur á því að unglingar með alvarlegan hegðunarvanda og tilfinningalega erfiðleika geti búið heima hjá sér. Meðferðin fer fram á heimili og í nærsamfélagi fjölskyldunnar.

Þerapistinn sem sinnir fjölskyldunni hefur mikinn sveigjanleika með skipulag vinnunnar en skipulagður vinnutími þarf stundum að vera seinnipart dags og á kvöldin til að mæta þörfum fjölskyldunnar. Jafnframt þurfa þerapistar að vera aðgengilegir fjölskyldunum í síma allan sólarhringinn. Mismunandi útfærslur eru til á þessu aðgengi í síma, allt frá því að sami þerapisti sé aðgengilegur (þeim fjölskyldum sem hann sinnir) allan sólarhringinn sjö daga vikunnar, yfir í það að þerapistar teymisins sinni þessu aðgengi hvor fyrir annan á bakvöktum eina viku í mánuði (þar sem þeir sinna þá öllum fjölskyldum teymisins). Í hverju teymi eru fjórir þerapistar og sinnir hver þeirra að jafnaði ca.. 4 fjölskyldum í senn. Teyminu er stýrt af handleiðara/teymisstjóra sem er faglegur handleiðari og yfirmaður þerapistanna. Handleiðarinn þarf einnig að vera aðgengilegur þerapistunum í síma til ráðgjafar.

Með aðgengi fjölskyldna að þerapistum í síma er fyrst og fremst átt við tilefni þar sem verið er að styðja við og hvetja fjölskylduna á grundvelli áætlunar sem þegar hefur verið gerð á meðferðarfundi. Þerapistinn er því ekki algjörlega bundinn og getur farið á íþróttaæfingar, á fund o.s.frv. og hringt til baka. Reglan með aðgengi í síma er að þerapisti fer ekki á staðinn nema handleiðarinn biðji sérstaklega um það. Þerapistar fara með öðrum orðum ekki í hlutverk lögreglu eða barnaverndarstarfsmanns.
Þerapisti þarf vikulega að skila skriflegum upplýsingum um vinnu sína og sitja faghandleiðslu teymisins með handleiðaranum, sem og í framhaldi að sitja símakonsúlt við MST sérfræðingi. Þerapistar og handleiðarar fá reglulega MST þjálfun og endurmenntun.

Áhugasamir eru hvattir til að kynna sér upplýsingar um MST sem er að finna hér á heimasíðu Barnaverndarstofu og á www.mstservices.com. Einnig að fylgjast með auglýsingum starfanna í dagblöðum á næstu vikum og hér á heimasíðu BVS. Fá má nánari upplýsingar hjá Halldóri Haukssyni sálfræðingi á Barnaverndarstofu í síma 5302600 eða halldor@bvs.is

Til baka


Language