Ársskýrsla Barnaverndarstofu 2006-2007

10. júní 2008

Ársskýrsla Barnaverndarstofu 2006-2007 er nú í prentun og verður henni dreift á næstunni til allra samstarfsaðila stofunnar. Hægt er að nálgast skýrsluna hér og einnig á heimasíðunni undir útgefið efni.

Þessi skýrsla tekur til starfsemi Barnaverndarstofu árin 2006 og 2007 og starfsemi barnaverndarnefnda árið 2006. Þó gerir sískráning tilkynninga til barnaverndarnefnda kleift að birta töluleg gögn um tilkynningar í barnaverndarmálum árið 2007.

Í formála skýrslunnar er umfang starfsins tekið saman. Heildarfjöldi tilkynninga árið 2006 var 6.893 og hafði þeim þá fjölgað um 15% frá árinu á undan. Tilkynningar skv. sískráningu voru árið 2007 samtals 8.410 sem nemur 22% fjölgun á milli ára. Jafngildir það því að á hverjum degi hafi barnaverndarnefndum landsins borist 23 tilkynningar að jafnaði. Rúmlega helmingur þeirrar er vegna áhættuhegðunar barnanna sjálfra, tæplega 30% vegna vanrækslu foreldra og nærri ein af hverjum fimm vegna ofbeldis foreldra, tilfinningalegs, líkamlegs eða kynferðislegs. Á árinu 2006 vörðuðu þessar tilkynningar tæplega 4.700 börn sem er fjölgun um 7% frá árinu á undan.

Í skýrslunni er nú í fyrsta skipti unnt að birta tölur yfir fjölda mála sem nefndirnar ákveða að kanna skv. ákvæðum barnaverndarlaga. Athyglisvert er að þrátt fyrir gríðarlega fjölgun tilkynninga á undanförnum árum er ekki teljandi breyting á fjölda þeirra mála sem barnaverndarnefndir taka til rannsóknar ef miðað er við undangengin þrjú ár. Eru þetta að jafnaði mál er varða 2.100 – 2.200 börn. Í þessu felst að sífellt lægra hlutfall mála sem tilkynnt eru til barnaverndarnefnda leiðir til könnunar og hugsanlegra afskipta af hálfu nefndanna. Þannig var þetta hlutfall 45.2% á árinu 2006 en var 52.5% fjórum árum áður. Tvær skýringar kunna að vera á þessari þróun. Önnur er sú að tilkynningar sem berast nefndum eru sífellt að verða léttvægari, m.ö.o. að „þröskuldur” tilkynninga hafi lækkað. Hin skýringin er sú að barnaverndarnefndir komast ekki yfir að kanna fleiri mál en raun ber vitni vegna skorts á mannafla.

Athyglisverð þróun í barnavernd á síðustu árum er fjölgun fósturráðstafana. Ráðstöfun barna í fóstur hefur farið jafnt og þétt vaxandi og árin 2006 -2007 náðu þær hámarki en þá fóru hátt í hundrað börn í fóstur hvort ár um sig. Mestu munar um fjölgun tímabundinna fósturráðstafana sem endurspeglar vinsældir þessa úrræðis sem stuðningsúrræðis. Alls voru 357 börn í fóstri á árinu 2007 sem er um 15% fjölgun á síðustu fimm árum.

Eftirspurn eftir meðferðarvistun jókst nokkuð á árinu 2006 en veruleg fækkun umsókna varð hins vegar á árinu 2007 en þá var fjöldi umsókna 164. Þegar litið er yfir lengra tímabil má segja að á síðustu fimm árum hafi dregið úr eftirspurn eftir meðferðardvöl á stofnunum Barnaverndarstofu, ef árið 2006 er undanskilið. Margar skýringar kunna að vera á þessari þróun, m.a. sú að dregið hefur úr óraunsæjum hugmyndum um árangur stofnanameðferðar fyrir börn. Hins vegar er ekki útilokað að neikvæð umræða um stofnanir í fjölmiðlum í kjölfar Breiðavíkur- og Byrgismála eigi sinn þátt í hinni miklu fækkun umsókna á milli áranna 2006 og 2007. Þá hefur dvalarlengd barna í meðferð styst, sem auðveldar að anna eftirspurn. Þegar líða tók á árið 2007 var nýting rýma á nokkrum heimilum orðin slök af þessum ástæðum og því sterkar vísbendingar um að tími breytinga var að renna upp.

Barnahús starfaði með hefðbundnu sniði árin 2006 og 2007 og var umfang rannsóknaviðtala, meðferðarmála og læknisskoðana svipað og árin á undan. Hlutfall skýrslutaka fyrir dómi hækkaði þó lítillega. Því miður eru þó skýrslur teknar af börnum úr Reykjavík í húsakynnum Héraðsdóms Reykjavíkur eins og verið hefur. Barnahúsið hlaut hins vegar mikla alþjóðlega viðurkenningu. Forstjóri Barnaverndarstofu tók á móti Multidiciplinary Award sem veitt voru Barnahúsi af virtustu barnaverndarsamtökum heims, ISPCAN, „The International Society for the Prevention of Child Abuse and Neglect” á heimsráðstefnu þeirra í York á Englandi í september 2006. Þá urðu þau tímamót í Noregi árið 2007 að tvö Barnahús að íslenskri fyrirmynd tóku til starfa, í Bergen og Hamar. Þá fjölgaði Barnahúsum í Svíþjóð og voru þau starfrækt í 10 borgum undir lok árs 2007. Að sjálfsögðu er það Barnaverndarstofu mikið gleðiefni að starfsemi á hennar vegum sé fyrirmynd annarra þjóða.
Til baka


Language