Málstofur hjá Barnaverndarstofu um barnaverndarstarf og þjónustu við foreldra með fíkniefnavanda

8. september 2008

Barnaverndarstofa mun halda málstofur á föstudögum í október um þjónustu við foreldra sem glíma við fíknisjúkdóma og samstarf við barnaverndarnefndir auk málstofa síðasta mánudag í september, október og nóvember með áherslu á barnaverndarstarf og foreldra með fíkniefnavanda.

Málstofur á föstudögum í október
Í kjölfar umfjöllunar fjölmiðla undanfarna mánuði þar sem fjallað var um aðstæður barna í kjölfar andláts forsjáraðila sem glímt hafa við fíknisjúkdóma hefur Barnaverndarstofa verið að skoða leiðir til að styrkja starf barnaverndarnefnda í þessum vandasömu störfum. Af því tilefni er boðið upp á málstofur í október nk. þar sem SÁÁ, Landspítalinn og Hlaðgerðarkot kynna þjónustu/úrræði fyrir foreldra með fíkniefnavanda og samstarf við barnaverndarnefndir.

Málstofurnar verða milli 11 og 12 á föstudögum í október í fundarsal Barnaverndarstofu en þann 3. október mæta fulltrúar frá SÁÁ, 10. október koma fulltrúar frá Landspítala og 24. október fáum við fulltrúa frá Hlaðgerðarkoti.

Málstofur síðasta mánudag í september, október og nóvember
Þá hefur Barnaverndarstofa undanfarin ár staðið fyrir málstofum um barnavernd í samstarfi við Barnavernd Reykjavíkur og félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands. Að þessu sinni verður þema málstofanna "barnaverndarstarf og foreldrar með fíkniefnavanda" og verður fyrsta málstofan þann 29. september nk. en þá mun Geir Gunnlaugsson, læknir og forstöðumaður Miðstöðvar heilsuverndar barna halda erindi sem ber yfirskriftina "Þroski barna á meðgöngu og fyrstu æviárin". Málstofurnar verða haldnar sem fyrr á mánudögum kl. 12.15 - 13.15 í fundarsal Barnaverndarstofu. Þann 27. október mun síðan Erla B. Sigurðardóttir, félagsráðgjafi og forstöðumaður heimilis fyrir fíkniefnaneytendur, flytja erindi um meðvirkni í vinnu með foreldrum sem glíma við fíknisjúkdóma.
Til baka


Language