Málstofur um málefni barna og fjölskyldna

14. janúar 2009

Rannsóknasetur í barna- og fjölskylduvernd (RBF) og félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands standa að reglulegum málstofum um málefni barna og fjölskyldna. Eftirtaldar málstofur eru áhugaverðar fyrir alla sem láta sig varða málefni barna:

„Frá lömun til virkni“ - Bataferli fjölskyldu alkóhólista
Erla Björg Sigurðardóttir félagsráðgjafi MA og forstöðumaður heimila fyrir karla með vímuefnavanda á vegum Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, fjallar um vanda í fjölskyldum vegna alkóhólisma/vímuefnasýki og mikilvægi þess að batinn berist til allra fjölskyldumeðlima. Erindi hennar verður þriðjudaginn 20. janúar kl. 12-13 í Odda stofu 201.

Velferð barna í Finnlandi
Dr. Katja Forssén prófessor í félagsráðgjöf við háskólann í Turku, Finnlandi verður með erindi um velferð barna og hvaða áhrif kreppa og fátækt getur haft á líf þeirra. Erindið verður þriðjudaginn 24. febrúar kl. 12-13 í Odda stofu 201.

Frá „barninu í mér“ að „mínu barni“
Hrefna Ólafsdóttir yfirfélagsráðgjafi MSW á Barna- og unglingageðdeild Landsspítala Háskólasjúkrahúss mun fjalla um möguleika foreldra sem eiga við sálfélagslega erfiðleika að etja að vera góðir foreldrar þrátt fyrir það. Erindi Hrefnu verður þriðjudaginn 17. mars kl. 12-13 í Odda stofu 201.

Endurhæfing eftir krabbamein. Aðstæður foreldra og barna
Dr. Sævar Berg Guðbergsson félagsráðgjafi við Department of Clinical Cancer Research, the Norwegian Radium Hospital háskólanum í Osló verður með erindi um endurhæfingu og hæfingu eftir krabbamein, afleiðingar á lífskjör sjúklinga og aðstandenda og möguleika barna. Dr. Sævar verður með erindi sitt fimmtudaginn 26. mars kl. 12.30-13.30 í Öskju N-132.

Atvinnuleysi og fjárhagserfiðleikar
Hugrún Jóhannesdóttir forstöðumaður Vinnumálastofnunar höfuðborgarsvæðisins fjallar um áhrif aukins atvinnuleysis á aðstæður barnafjölskyldna og hvaða úrræði Vinnumálastofnun býður þeim. Erindi hennar verður þriðjudaginn 21. apríl kl. 12-13 í Odda stofu 201.

Velferð barna í Eistlandi
Dr. Riina Kiik, dósent í félagsráðgjöf við háskólann í Þrándheimi mun fjalla um aðstæður og velferð barna í Eistlandi. Riina hefur gert rannsóknir á velferð barna og fjölskyldna, s.s. skoðað fátækt, velferðakerfið og þróun þess. Hún verður með erindi þriðjudaginn 19. maí kl. 12-13 í Odda stofu 201.

Málstofurnar eru öllum opnar og aðgangur er ókeypis.

Rannsóknasetur í barna- og fjölskylduvernd (RBF) er rannsókna- og fræðslustofnun sem er starfrækt við félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands í samstarfi við Reykjavíkurborg – Velferðasvið, Barnaverndarstofu, Biskupsstofu, Eflingu - Stéttarfélag, Félags– og tryggingamálaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið, Reykjanesbæ og Umboðsmann barna. RBF hefur aðsetur hjá Félagsvísindastofnun í Gimli, sími: 525-5200, heimas: www.rbf.is
Til baka


Language