Refsingar sem fela í sér andlegt og/eða líkamlegt ofbeldi gagnvart börnum óheimilar skv. íslenskum lögum

22. apríl 2009

Alþingi samþykkti breytingu á barnaverndarlögum nr. 80/2002 hinn 16. apríl sl. Með breytingunni er tryggt að allar refsingar sem fela í sér andlegt eða líkamlegt ofbeldi gagnvart börnum er óheimilar samkvæmt íslenskum lögum og þær séu jafnframt refsiverðar. Breytingin er í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem fullgiltur var á íslandi árið 1992. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur skilgreint líkamlegar refsingar sem allar þær refsingar þar sem beitt er líkamlegu valdi með það að markmiði að valda einhverjum sársauka eða óþægindum. Nefndin hefur einnig undirstrikað að það þurfi ekki líkamlega snertingu til að háttsemi teljist grimmileg og/eða vanvirðandi, heldur geti hótanir, hræðsla og það að gera lítið úr barni og niðurlægja það fallið þar undir. Rétt er að taka fram í þessu samhengi að barnaréttarnefndin gerir greinarmun á annars vegar refsingu eða vanvirðandi háttsemi og hins vegar nauðsynlegum líkamlegum viðbrögðum til að forða barni frá því að skaða sjálft sig eða aðra og gerir lagabreytingin einnig ráð fyrir að gerður sé greinarmunur á þessu. Er lagabreytingin í samræmi við þessa afstöðu barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna.

Í lagabreytingunni er einnig tryggður réttur fulltrúa barnaverndarnefndar á að vera viðstaddur skýrslutöku af barni sem sakborningi í samræmi við ákvæði laga um meðferð sakamála, og skýrslutöku af barni sem brotaþola og sem vitni.

Barnaverndarstofa fagnar lagabreytingunni sem hefur það að markmiði að tryggja öryggi barna og felur í sér bætta réttarstöðu barna hér á landi.
Til baka


Language