Samningur um nýtt meðferðarúrræði í Eyjafirði fyrir unglinga í hegðunarvanda

4. maí 2009

Þann 22. apríl 2009 var undirritaður samningur milli Barnaverndarstofu og Akureyrarbæjar um nýtt meðferðarúrræði fyrir unglinga í hegðunarvanda. Á þessu ári eru liðin 10 ár frá því 8 sveitarfélög við Eyjafjörð gerðu með sér samning um stofnun sameiginlegrar barnaverndarnefndar. Af þessum tímamótum ákvað nefndin að 100. fundurinn yrði hátíðarfundur og var boðið til hans fulltrúum stofnaðila. Auk þess sem athygli fjölmiðla var vakin á fundinum.

Á fundinum var kynning á nýju meðferðarúrræði fyrir unglinga í hegðunarvanda í Eyjafirði og undirritaður þjónustusamningur Barnaverndarstofu og Akureyrarbæjar. Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri Akureyrar og Bragi Guðbrandsson forstjóri Barnaverndarstofu undirrituðu samninginn en um er að ræða sérhæfða þjónustu fyrir börn. Akureyrarbær mun koma á fót og starfrækja meðferðarúrræði fyrir unglinga með hegðunarerfiðleika og fjölskyldur þeirra.

Um er að ræða tilraunaverkefni til tveggja ára í samvinnu við Barnaverndarstofu, sem mun leggja til verkefnisins 10 milljónir króna árið 2009 og sömu upphæð á næsta ári, með fyrirvara um samþykkt þess í fjárlögum. Akureyrarbær mun ráða starfsfólk til verkefnisins og útvega því starfsaðstöðu. Ráðgert er að þjónustan geti byrjað næsta haust og að starfinu komi þrír starfsmenn í einu og hálfu stöðugildi.

Akureyrarbær skipar verkefnisstjórn sem hefur umsjón með úrræðinu, ber ábyrgð á handleiðslu og þjálfun starfsfólks og tekur afstöðu til umsókna um meðferð. Meðferðin stendur einkum til boða unglingum með hegðunarerfiðleika og neysluvanda og fjölskyldum þeirra. Þjónustusvæði verkefnsins nær til umdæmis barnaverndarnefndar Eyjafjarðar en heimilt er að taka til meðferðar fjölskyldur utan svæðis.
Til baka


Language