Nýtt meðferðarúrræði fyrir unga gerendur í kynferðisbrotamálum

21. september 2009

Félagsmálaráðuneytið hefur skrifað undir samning við faghóp þriggja sálfræðinga um þjónustu við börn sem sýna af sér óæskilega eða skaðlega kynferðislega hegðun. Þjónustan felst í að gera áhættumat og veita meðferð með viðurkenndum matstækjum og aðferðum á borð við hugræna atferlismeðferð. Mikilvægur hluti af meðferðinni er fagleg ráðgjöf til foreldra gerandans og er leitast við að draga úr þörf fyrir vistun viðkomandi geranda utan heimilis. Ráðgjöf nær einnig til starfsmanna barnaverndarnefnda og Barnaverndarstofu. Gerendur eru metnir með áhættumatstækjum og sálfræðilegum prófum. Einnig byggir matið á ítarlegum bakgrunnsupplýsingum frá foreldrum og þeim sérfræðingum sem komið hafa að málum barns áður.

Meðferðarvinnan snýr ávallt að því að draga úr líkum á frekari óæskilegri kynferðishegðun og að gerandinn öðlist aukna færni til að sýna viðeigandi og félagsvæna hegðun. Þetta er m.a. gert með fræðslu um kynferðisleg mörk, áhrif og afleiðingar óviðeigandi kynferðishegðunar á geranda og þolanda, fræðslu til forráðamanna um viðeigandi og óviðeigandi kynferðishegðun barna sem og aðra þætti er koma fram við mat á áhættu. Umfang meðferðarvinnunar er háð útkomu úr áhættumatinu (lágt, miðlungs eða hátt). Umfangið eykst eftir því sem áhættan telst meiri og snýr þá í auknum mæli að tilteknum áhættuþáttum sem fram koma í viðkomandi áhættumati.

Barnaverndarnefndir geta vísað börnum í áhættumat í gegnum Barnaverndarstofu sem metur umsóknir um úrræðið í samráði við barnaverndarstarfsmann. Þess ber að geta að samkvæmt upplýsingum Barnahúss koma 40-50 mál á ári þar sem gerandinn er á aldrinum 10-18 ára.
Til baka


Language