Réttindi barna á stofnunum - skýrsla um framkvæmd tilmæla Evrópuráðsins

22. október 2009

Evrópuráðið hefur nú gefið út skýrslu um framkvæmd tilmæla ráðsins um réttindi barna á stofnunum (Rec(2005)5 on the rights of children living in residential institutions). Skýrsluhöfundur er Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, en hann sat í sérfræðingahópi sem samdi tilmælin. Tilgangur skýrslunnar er sá að varpa ljósi á framkvæmd aðildarríkjana er varðar grundvallarréttindi barna sem vistuð eru á stofnunum til lengri eða skemmri tíma, en talið er að það sé hlutskipti yfir milljón barna í Evrópu. Skýrslan byggir á niðurstöðum spurningalistakönnunar sem lögð var fyrir aðildarríkin sem tók til helstu þátta tilmæla ráðsins. Helstu niðurstöður skýrslunnar felast í ábendingum til aðildarríkjanna um þrennt sem betur megi fara. Í fyrsta lagi þurfi að treysta eftirlit með starfsemi stofnana, einkum með því að aðskilja betur ábyrgð vegna framkvæmdar og eftirlits. Í öðru lagi er víða skortur á að gæði umönnunar-/meðferðarstarfs séu tryggð með því að skilgreina lágmarks gæðastaðla. Loks er bent á að mikið skorti á að stuðningur og eftirmeðferð eftir að stofnanadvöl lýkur sé viðunandi og í samræmi við tilmælin. Skýrsluna má lesa hér.
Til baka


Language