Nýjar kannanir á heimilisofbeldi

23. október 2009

Þann 15. október sl. kynnti félags- og tryggingamálaráðuneytið niðurstöður tveggja nýrra kannana sem gerðar hafa verið í samræmi við aðgerðaáætlun stjórnvalda til að sporna við ofbeldi á heimilum og kynferðislegu ofbeldi.

Aðgerðaáætlun stjórnvalda tekur til áranna 2006–2011. Einn liður í henni er framkvæmd viðamikillar rannsóknar á ofbeldi karla gegn konum og ber félags- og tryggingamálaráðuneytið ábyrgð á þessum þætti.

Rannsóknin skiptist í fimm hluta og lauk fyrsta hluta hennar síðastliðið vor. Í henni var rætt við konur á aldrinum 18–80 ára og leiddu niðurstöður meðal annars í ljós að um 22% kvenna hafa einhvern tíma á ævinni verið beittar ofbeldi af maka eða fyrrverandi maka. Niðurstöðurnar bentu einnig til þess að um fjórðungur barna þar sem ofbeldi á sér stað í nánum samböndum hafi vitneskju um eða hafi orðið vitni að ofbeldi gegn móður.

Þeir hlutar rannsóknarinnar sem kynntir voru lúta annars vegar að félagsþjónustu og barnavernd og hins vegar að grunnskólunum. Fram kom að þörf er á aukinni þekkingu og fræðslu um heimilisofbeldi bæði til starfsmanna sem sinna ráðgjöf hjá félagsþjónustu og barnavernd auk samstarfsaðila s.s. starfsmanna leikskóla og lögreglu. Þá kom fram að sérþekkingu á sviði persónulegrar ráðgjafar skorti innan skóla og að tryggja þurfi þjónustu við nemendur þegar kemur að persónulegri ráðgjöf. Helstu niðurstöður og skýrslurnar í heild er að finna á heimasíðu ráðuneytisins.
Til baka


Language