Vel heppnaður starfsdagur með félagsmálastjórum

6. apríl 2010

Árviss starfsdagur Barnaverndarstofu með félagsmálastjórum og yfirmönnum barnaverndarstarfs á vegum barnaverndarnefnda var haldinn föstudaginn 19. mars sl. Fundurinn var haldinn að Kríunesi við Elliðavatn og tókst afar vel. Alls mættu 30 félagsmálastjórar og starfsmenn barnaverndarnefnda víðsvegar af landinu.

Forstjóri Barnaverndarstofu fór yfir stöðu barnaverndarmála en aldrei hefur verið jafn mikil aukning tilkynninga milli ára og varð millli áranna 2008 og 2009. Vísbendingar eru um þyngri mál sem koma til meðferðar hjá barnaverndarnefndum. Þá er aukinn eftirspurn eftir þjónustu Barnaverndarstofu en vöxturinn hefur verið mestur varðandi Götusmiðjuna og Stuðla. Farið var yfir meðferðarúrræði á vegum Barnaverndarstofu en annað MST teymi hóf störf nú í mars auk þess sem samið hefur verið við sálfræðinga um tvö ný úrræði, annars vegar þjónustu við unglinga sem sýna af sér óæskilega kynferðishegðun og hins vegar þjónustu fyrir börn sem búa við heimilisofbeldi. Gerður hefur verið samningur um rekstur vistheimilis fyrir unglinga sem ekki eiga afturkvæmt á heimili sitt að lokinni meðferð. Þá tekur til starfa nýtt meðferðarheimili að Geldingarlæk um mitt ár. Rætt var um tímabundið fóstur og farið yfir dæmi um samstarf kerfa við beitingu úrræðsins styrkt fóstur.

Skráning og skil á tölulegum upplýsingum barnaverndarnefnda til Barnaverndarstofu voru til umræðu og vakin athygli á tölvukerfinu „Gróska“ sem er heildsætt kerfi um félagsþjónustu sveitarfélaga og til þess fallið að bæta skráningu og skil á tölulegum upplýsingum.

Rætt var um tækifæri og áskoranir í barnaverndarstarfi í höfuðborginni sem fer með um helming allra barnaverndarmála á landinu og á landsbyggðinni þar sem nálægð við íbúa er mikil og landfræðileg fjarlægð kallar á nýjar lausnir.

Fjallað var álit umboðsmanns Alþingis hvað varðar aðild forsjárlausra foreldra í barnaverndarmálum og heimildir barnaverndarnefnda til að fela starfsmönnum verkefni og vald til að taka ákvarðanir í barnaverndarmálum.

Að endingu voru kynntar verklagsreglur um meðferð tilkynninga er varða líkamlegt ofbeldi gagnvart börnum en reglurnar voru unnar af vinnuhópi sem skipaður var á starfsdegi barnaverndarstarfsmanna í október 2009.

Dagskrá fundarins má sjá hér.
Til baka


Language