Norrænu samtökin gegn illri meðferð á börnum: Barnahúsin eru framtíðin - nú orðin 31 á Norðurlöndum

25. maí 2010

Sjötta ráðstefna Norrænu samtakana gegn illri meðferð á börnum nfbo.com var haldin í Kaupmannahöfn dagana 10.-12. maí. Vel á fimmta hundrað fagfólks sótti ráðstefnuna, þar af um 10 íslendingar sem flestir starfa við barnavernd. Ráðstefnurnar eru samráðsvettvangur ólíkra faghópa sem koma að barnavernd í víðri merkingu þess orðs, félagsráðgjafar, sálfræðingar, barnalæknar osvfrv. Formaður samtakanna er nú Gunnar Sandholt, félagsmálastjóri í Skagafirði.

Ýmsir merkir fyrirlestrar voru haldnir á ráðstefnunni, m.a. Björn Hjálmarsson barnalæknir, sem fjallaði um siðferðileg álitamál um lyfjagjöf vegna frávikshegðunar barna. Heiða Björg Pálmadóttir, lögfræðingur og Ólöf Ásta Farestveit , forstöðumaður Barnahúss greindu frá vinnslu einstaks máls í Barnahúsi og í réttarvörslukerfinu og Bragi Guðbrandsson fjallaði um þróun barnahúsa í Evrópu jafnframt því að stýra umræðum um barnahús á Norðurlöndum á eftir panelumræðum.

Einn ráðstefnudagurinn var helgaður Barnahúsum en þar kom fram að fjöldi þeirra er nú orðinn 31 á Norðurlöndum, 22 í Svíþjóð, 7 í Noregi og eitt í Danmörku og Íslandi. Greint var m.a. frá skýrslu sérfræðingahóps í Danmörku sem nú er til umfjöllunar hjá stjónvöldum þar sem lagt er til að 8 til 12 barnahúsum verði komið á fót á næstu árum. Grænlenski félagsmálaráðherran greindi frá því að fyrsta barnahúsið muni verða opnað í Nuuk fyrir lok ársins en áætlað er að þremur verði bætt við í framhaldinu. Þá var upplýst að fyrsta barnahúsið í Finnlandi taki líklega til starfa fyrir árslok.

Þá ályktun má draga af því sem fram kom á ráðstefnunni að nú eigi sér stað hljóðlát bylting í vinnslu og meðferð kynferðisbrotamála gegn börnum á Norðurlöndunum sem við Íslendingar eigum drjúgan þátt í enda íslenska Barnahúsið fyrirmynd þeirra norrænu.
Til baka


Language