Barnaverndarstofa í 15 ár

1. júní 2010

Í dag 1. júní 2010 eru fimmtán ár frá stofnun Barnaverndarstofu. Barnaverndarstofa er stjórnsýslustofnun sem fer með daglega stjórn barnaverndarmála í umboði félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Á vegum sveitarfélaga starfa barnaverndarnefndir sem sinna meðferð einstakra barnaverndarmála í sínu umdæmi en alls starfa 30 barnaverndarnefndir hér á landi. Meginverkefni Barnaverndarstofu greinast í tvö svið. Annars vegar margvísleg viðfangsefni sem lúta að starfsemi barnaverndarnefnda sveitarfélaga. Hins vegar yfirumsjón og eftirlit með rekstri sérhæfðra meðferðarheimila fyrir börn.

Forstjóri Barnaverndarstofu, Bragi Guðbrandsson hefur gengt starfinu frá upphafi en auk hans hafa tveir starfsmenn stofunnar starfað frá árinu 1995, þau Guðjón Bjarnason og Hildur Sveinsdóttir. Í dag starfa alls 10 starfsmenn hjá Barnaverndarstofu, fimm í Barnahúsi, átta við Fjölkerfameðferð (MST) og 25 á Stuðlum. Þá eru sérhæfð meðferðarheimili rekin samkvæmt þjónustusamningi við Barnaverndarstofu. Um tíma voru þau alls átta en eru í dag fjögur talsins þ.e. Árbót í Aðaldal, Laugaland í Eyjafjarðarsveit, Háholt í Skagafirði og Götusmiðjan Brúarholti. Breytingar eru fyrirhugaðar varðandi rekstur meðferðarheimila þar sem Árbót lokar 1. júlí nk. en nýtt meðferðarheimili, Lækjarbakki að Geldingalæk á Rangárvöllum tekur til starfa í ágúst nk.

Barnaverndarstofa er með á skrá aðila sem hafa hlotið leyfi til að starfa sem fósturforeldrar en barnaverndarnefndir leita til Barnaverndarstofu þegar þörf er á því að ráðstafa barni í fóstur. Frá árinu 2004 hefur verið boðið upp á Foster Pride námskeið fyrir fósturforeldra.

Á síðustu árum hefur orðið ör framþróun á sviði barnaverndar á Íslandi og með tilkomu Barnaverndarstofu var hafið markvisst umbótastarf í barnavernd á þeim sviðum sem ríkið ber ábyrgð á. Barnaverndarstofa hefur orðið fyrirmynd annarra þjóða varðandi skipan barnaverndarmála og má í því efni nefna Norðmenn og Færeyinga sem komið hafa á fót stofnunum sem gegna sambærilegu hlutverki. Þá hefur eins og kunnugt er Barnahúsið íslenska orðið fyrirmynd annarra þjóða en alls eru starfandi 30 Barnahús á Norðurlöndunum auk þess íslenska.

Á vettvangi sveitarfélaga hafa jafnframt orðið mikilvægar framfarir. Sveitarfélög hafa þróað ýmiss úrræði á vegum félags- og/eða skólaþjónustu sem barnaverndarnefndir geta virkjað, s.s. foreldrafræðslu og hópastarf fyrir börn. Þá hafa sveitarfélög þróað fjölbreytt úrræði í barnavernd út frá aðstæðum á hverjum stað. Barnaverndarstofa hefur gert samning við Akureyrarbæ um sérhæfða þjónustu fyrir unglinga í Eyjafirði á grundvelli PMT aðferðafræðarinnar og við Árborg um þjónustu við unglinga á Suðurlandi á grundvelli ART þjálfunar.

Úrræði á vegum Barnaverndarstofu sem barnaverndarnefndir geta sótt um án þess að vista born utan heimilis eru:
•Barnahús, frá nóvember 1998
•Fjölkerfameðferð (MST), frá nóvember 2008
•Sálfræðiþjónusta fyrir börn sem sýna af sér óviðeigandi kynferðislega hegðun, frá september 2009
•Hópmeðferð fyrir börn sem hafa búið við ofbeldi á heimili, frá janúar 2010

Nánari upplýsingar um hlutverk Barnaverndarstofu, meðferð barnaverndarmála og úrræði á grundvelli barnaverndarlaga er að finna á heimasíðu Barnaverndarstofu bvs.is
Til baka


Language