Samtöl við börn og unglinga í barnaverndarstarfi

10. febrúar 2011

Barnaverndarstofa hefur gefið út fræðslurit og myndband TALAÐU VIÐ MIG, leiðbeiningar fyrir barnaverndarstafsmenn í samtölum við börn, en um er að ræða efni útbúið að frumkvæði Barna- og jafnréttisráðuneytisins í Noregi sem Barnaverndarstofa hefur látið texta og þýða á íslensku. Myndin og leiðbeiningaheftið gagnast þeim sem hafa það að starfi að tala við börn, en efnið er sérstaklega ætlað barnaverndarstarfsmönnum. Í leikinni mynd hittum við fyrir systurnar Matthildi og Benediktu í þann mund er barnaverndarstarfsmenn grípa inn í líf fjölskyldunnar.

Í tilefni af útgáfunni bíður Barnaverndarstofa til morgunverðarfundar þann 11. febrúar nk. kl. 9:00-11:00 að Grand Hotel Reykjavík.

Viðfangsefni morgunverðarfundarins eru samtöl við börn og unglinga í barnaverndarstarfi. Dagskráin hefst með ávarpi Braga Guðbrandssonar forstjóra Barnaverndarstofu en síðan mun Karl Marinósson félagsráðgjafi, sem þýddi efnið, fjalla um hvernig hægt er að nýta sér gögnin í starfi. Þá mun Ólöf Ásta Farestveit forstöðumaður Barnahúss ræða um þær aðferðir sem notaðar eru í könnunarviðtali og skýrslutöku í Barnahúsi.

Eftir hádegi þennan dag frá kl 13:00 til 16:00 í fundarsal Barnaverndarstofu mun Karl Marinósson félagsráðgjafi halda stutt námkeið fyrir barnaverndarstarfsmenn um efni fræðsluritsins. Á námskeiðinu verður lögð áhersla á:
• Hvað einkennir gott samtal við börn, og hvað gerir gott samtal fyrir börn í vanda.
• Fimm grundvallaratriði samtalsins og fræðilegur grunnur þessara atriða
• Hvernig gott er að bera sig að í samtölum við börn
• Sá mikilvægi „hinn“ þ.e. forsjáraðili eða umönnunaraðili og mikilvægi hans í samtalinu, hvort sem hann er viðstaddur eða ekki.

Lokað hefur verið fyrir skráningu á námskeiðið en mögulegt er að endurtaka það síðar.
Til baka


Language