Aðgerðir vegna heimilisofbeldis

14. febrúar 2011

Börn sem búa við þær aðstæður að ofbeldi er þáttur í heimilislífi þeirra ganga í gegnum röð áfalla sem geta haft margvíslegar afleiðingar. Þrátt fyrir að rannsóknir sýni fram á langtíma afleiðingar heimilisofbeldis fyrir börn þá virðast barnaverndaryfirvöld sem og aðrir ekki gefa þeim börnum sem búa við þær aðstæður nægjanlegan gaum. Niðurstöður nýlegrar breskrar rannsóknar sýna fram á þetta og er athyglisvert að í 40% tilvika höfðu barnaverndaryfirvöld ekki haft afskipti af umræddum fjölskyldum og í 26% tilvika voru takmörkuð afskipti. Þá virtist íhlutun vera tilviljunarkennd og skorti samfellu í vinnslu mála, sjá nánar skýrslu um rannsóknina.

Barnavendarstofa hefur skoðað verklag lögreglu og barnaverndar hér á landi og virðist það með svipuðum hætti og í Bretlandi, þ.e. tilkynningar berast barnaverndaryfirvöldum en lítið er um aðgerðir. Þá kemur fram í skýrslu um heimilisofbeldi sem unnin var á vegum lögreglunnar að formleg íhlutun lögreglu felst oftast í því að aðstoða þolanda á slysadeild (13%), á Kvennaathvarf (3%) eða barnaverndarnefnd kölluð á vettvang (1%) sjá nánar á vef lögreglunnar. Í könnun Freydísar J. Freysteinsdóttur frá árinu 2004 á tilkynningum um heimilisofbeldi var einungis veitt þjónusta í þriðjungi mála og í einungis þremur tilvikum beindist slíkur stuðningur beint að barninu.

Í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga mun Barnaverndarstofa leita eftir samstarfi við lögreglu og barnaverndarnefndir á höfuðborgarsvæðinu um tilraunaverkefni til eins árs. Markmið stofunnar með slíku tilraunarverkefni er fyrst og fremst að leggja mat á líðan, hugsanir og óskir barnanna með það fyrir augum að veita þeim áfallahjálp og annan viðeigandi stuðning strax í kjölfar atburða af þessu tagi. Felst verkefnið í því að ráða sérhæfða starfsmenn á bakvakt sem hafa það hlutverk að fara á heimili í þeim tilvikum sem lögregla fer í útköll vegna heimisofbeldis og börn eru á staðnum. Verkefni starfsmanns á bakvakt verður að huga að barninu sérstaklega og tryggja því stuðning innan 48 tíma.

Talið er að árlega verði 1100 konur, hér á landi, fyrir ofbeldi af hendi maka eða fyrrverandi maka. Samtök um Kvennaathvarf voru stofnuð árið 1982 en markmið samtakana er að reka athvarf fyrir konur og börn þeirra, veita ráðgjöf og upplýsingar auk þess að efla fræðslu og umræðu um kynbundið ofbeldi sjá nánar hér. Frá árinu 1998 hefur körlum sem vilja losna úr viðjum ofbeldisbeitingar boðist aðstoð sjá nánar hér. Börnum, sem búa við þær aðstæður að ofbeldi hefur verið þáttur í heimilislífi þeirra, hefur verið boðið upp á hópmeðferð á vegum Barnaverndarstofu frá árinu 2010.

Velferðarráðuneytið hefur staðið fyrir viðamikilli upplýsingaöflun um ofbeldi karla gegn konum en ráðist var í gerð sex rannsókna og kannana á umfangi ofbeldis, ýmsum þáttum sem tengjast því hvernig tekið er á slíkum málum og hvaða úrræði eru fyrir hendi. Rúm 22% kvenna sem svöruðu símakönnun sögðust hafa verið beittar ofbeldi í nánu sambandi einhvern tíma frá 16 ára aldri. Um 17% þessara tilvika komu til lögreglu og í 75% tilvika bjuggu börn á heimilinu við síðasta ofbeldisatvik. Skýrslur vegna þessara rannsókna má nálgast á vef ráðuneytisins.
Til baka


Language