Endurnýjaður samningur um meðferðarúrræði fyrir unglinga í Eyjafirði

1. júní 2011

Þann 31. maí sl. undirrituðu bæjarstjórinn á Akureyri, Eiríkur Björn Björgvinsson, og Bragi Guðbrandsson forstjóri Barnaverndarstofu samning um tveggja ára framlengingu á samstarfi um meðferðarúrræði fyrir unglinga með hegðunarerfiðleika og fjölskyldur þeirra. Akureyrarbær mun sjá um framkvæmd úrræðisins og skipa verkefnisstjórn en Barnaverndarstofa leggja árlega til verkefnisins 11 milljónir króna með fyrirvara um samþykkt þess í fjárlögum.

Akureyrarbær hefur starfrækt slík meðferðarúrræði í samvinnu við Barnaverndarstofu frá 1. september 2009 og urðu aðilar sammála um að halda áfram samstarfi sínu með þeim skilmálum sem tilgreindir voru í fyrri samningi. Akureyrarbær skipar verkefnisstjórn sem hefur umsjón með úrræðinu, ber ábyrgð á handleiðslu og þjálfun starfsfólks og tekur afstöðu til umsókna um meðferð.

Akureyrarbær ræður starfsfólk til verkefnisins og útvegar því starfsaðstöðu. Meðferðin er byggð á grunni PMT-uppeldisráðgjafar og veitt í formi einstaklings- og fjölskylduráðgjafar með samhæfingu bjargráða í umhverfi fjölskyldunnar skv. nánari útfærslu verkefnisstjórnar. Meðferðin stendur einkum til boða unglingum með hegðunarerfiðleika og neysluvanda og fjölskyldum þeirra. Þjónustusvæði verkefnsins nær til umdæmis barnaverndarnefndar Eyjafjarðar en heimilt er að taka til meðferðar fjölskyldur utan svæðis, sé það gerlegt að mati verkefnisstjórnar.

Þegar hafa 18 fjölskyldur fengið meðferð á grundvelli samningsins.
Til baka


Language