Danska ríkisstjórnin vill barnahús

17. nóvember 2011

Danska ríkisstjórnin ákvað þann 14. október sl. að hrinda í framkvæmd áætlun um uppbyggingu 10 til 12 barnahúsa í Danmörku á næstu árum og hefur veitt til þess fé sem nemur hátt í milljarði ísl. króna. Dönsku félagasamtökin „Red Barnet“ (Save the Children, Barnaheill) hafa barist ötullega fyrir þessu máli í fleiri ár eða allt frá því að íslenska Barnahúsið fékk viðurkenningu Save the Children/Europe árið 2003 sem fyrirmyndarfyrirkomulag í rannsókn og meðferð kynferðisbrota í skýrslunni „Child Abuse and Adult Justice“ sem tók til tíu Evrópuríkja. Hér má sjá umfjöllun um viðurkenninguna á heimasíðu Barnaverndarstofu árið 2003.

Fyrir nokkrum árum var komið á fót barnvænlegri aðstöðu í tengslum við Háskólasjúkrahúsið í Árósum þar sem læknum, fulltrúum réttarvörslukerfisins og barnaverndar var gert kleift að vinna saman undir einu þaki til að forða börnum frá ítrekuðum viðtölum á mörgum stöðum. Reynslan af þessu tilraunarverkefni hefur þótt góð. Í skýrslu sem samin var af sérfræðingahópi og gefin var út fyrir 2 árum var lagt til að koma á fót 4 slíkum barnahúsum í ólíkum landshlutum og allt að 8 húsum til viðbótar þar sem færi fram rannsóknarviðtöl og meðferðarþjónusta.

Með þessari ákvörðun dönsku ríkisstjórnarinnar má segja að mörkuð hafi verið sama stefna og ríkisstjórnir í Svíþjóð og Noregi að tilhögun við rannsókn og meðferð kynferðisbrota gegn börnum verði skapaður rammi með starfsemi barnahúsa. Fyrr á þessu ári opnaði barnahús í Grænlandi og undirbúningur að fyrsta barnahúsinu í Finnlandi er vel á veg komin. Eins og kunnugt er tók íslenska barnahúsið til starfa haustið 1998 en á 13 ára starfstíma hefur það veitt um 2.600 börnum þjónustu.

Frétt Ríkisútvarpsins um málið má sjá hér
Frétt af heimasíðu Red barnet má sjá hér
Til baka


Language