Viðhorfskannanir á meðferðarheimilum Barnaverndarstofu 2002-2010

26. mars 2012

Samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002 er ríkinu gert að hafa tiltækar stofnanir og heimili fyrir börn sem hafa verið í afbrotum, sýna alvarlegan hegðunarvanda og/eða talin vera í vímuefnaneyslu. Meðferðarheimili, sem taka börn í langtímameðferð á vegum Barnaverndarstofu eru í dag alls þrjú og öll staðsett á landsbyggðinni, Háholt er í Skagafirði, Laugaland er í Eyjafjarðarsveit og Lækjarbakki er á Rangárvöllum. Á tímabilinu 2002-2010 störfuðu alls átta meðferðarheimili á landsbyggðinni þ.e. Árbót, Berg, Geldingalækur, Götusmiðjan, Háholt, Hvítárbakki, Laugaland og Torfastaðir. Barnaverndarstofa hefur yfirumsjón og eftirlit með heimilum og stofnunum sem ríkið rekur fyrir börn en um er að ræða bæði faglegt og fjárhagslegt eftirlit. Sem liður í innra eftirliti Barnaverndarstofu eru reglulega lagðar viðhorfskannanir fyrir börn sem eru vistuð á meðferðarheimilum Stofunnar. Barnaverndarstofa hefur nú látið taka saman niðurstöður 611 viðhorfskannana sem 287 börn svöruðu á árunum 2002 - 2010.

Börnin dvöldu á meðferðarheimilunum Árbót, Bergi, Geldingalæk, Götusmiðjunni, Háholti, Hvítárbakka, Laugalandi og Torfastöðum. Hér má því heyra raddir barnanna sjálfra á meðan þau voru vistuð, þ.e. hvernig þau mátu líðan sína, framfarir og ýmsa þætti er snéru að aðbúnaði þeirra og aðstoðinni sem þeim stóð til boða á viðkomandi heimili. Við lestur þessarar skýrslu þarf að gæta þess að meðferðarheimilin voru að ýmsu leyti ekki sambærileg og var ætlað að vinna með ólíkan vanda barna, sitthvort kynið, mismunandi aldur og mismunandi forsendur vistunar. Í viðhorfskönnunum var gefin einkunn frá 1 upp í 10 þar sem 1 er lægsta einkunn og 10 er hæsta einkunn. Almenn líðan barns virtist lakari hjá yngri börnum og þá sérstaklega stúlkum 14 ára og yngri. Skólinn fékk almennt góða einkunn og átti það einnig við um aðstoðina sem veitt var, matinn, tómstundir og ráðgjöf. Líðan barnanna í krakkahópnum virðist einnig almennt hafa verið góð en nokkur munur var á því hverig börnin mátu sinn eigin árangur í meðferinni. Hér má nálgast skýrsluna í heild.
Til baka


Language