Vitundarvakning um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum

7. febrúar 2013

Í samræmi við samning Evrópuráðsins um varnir gegn kynferðislegri misnotkun og kynferðislegri misneytingu gegn börnum fól ríkisstjórn Íslands þremur ráðuneytum, þ.e. innanríkisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og velferðarráðuneyti að undirbúa vitundarvakningu um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum.
Vitundarvakningin tengist þremur grunnþáttum nýrrar aðalnámskrár fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Markmiðið er m.a. að fræða börn og starfsfólk grunnskóla um eðli og afleiðingar kynferðislegs ofbeldis.
Beina á fræðslu til nemenda í 10. bekk grunnskóla og var stuttmyndin ,,Fáðu já" frumsýnd 29. janúar sl. og hefur henni verið dreift í alla grunnskóla landsins. Með stuttmyndinni fylgir leiðarvísir fyrir starfsfólk grunnskóla þar sem fram kemur hvernig best er að standa að sýningu myndarinnar, s.s. hver á að stýra umræðum í kjölfar sýningar og bent á mikilvægi þess að hafa fagaðila viðstaddan við umræður eftir myndina, sé þess kostur. Hér er hægt að fara á heimasíðu "Fáðu já" 
Sjónum er einnig beint að 2. bekk grunnskóla og hefur verið gert samkomulag við Brúðuleikhús Blátt áfram um sýningar á verkinu Krakkarnir í hverfinu, skólum að kostnaðarlausu. Þá verður fræðslu beint að kennurum og öðru starfsfólki grunnskóla.
Á vefsíðu velferðarráðuneytisins er að finna nánari upplýsingar um verkefnið og fræðsluefni.
Til baka


Language