Að lesa í merki barnsins

Námskeið fyrir fagfólk þar sem kennd verður aðferð til að hjálpa foreldrum að lesa í merki barns frá 0-3ja mánaða.

21. febrúar 2013

Miðstöð foreldra og barna standa fyrir námskeiði dagana 4. og 5. apríl nk. frá kl. 9-16 sem ætlað er öllum þeim sem starfa með foreldrum og ungbörnum yngri en þriggja mánaða, þ.e. ljósmæðrum, hjúkrunarfræðingum, læknum, sálfræðingum, iðjuþjálfum, félagsráðgjöfum, starfsfólki barnaverndarnefnda og öðrum meðferðaraðilum. Námskeiðið er það fyrsta sinnar tegundar hér á landi en um er að ræða námskeið frá Brazelton Institute í Boston. Kennd verður aðferð til að hjálpa foreldrum að lesa í merki barns frá 0-3ja mánaða. Leiðbeinendur  verða Dr. Lise C. Johnson og Dr. Joanna Hawthorne.
 
Markmiðið er að þjálfa fagfólk í að lesa í atferli og merkjamál nýfæddra barna og efla sömu hæfni hjá nýorðnum foreldrum. Með því eru foreldrar styrktir í að bregðast við þörfum barna sinna á næman og þroskavænlegan hátt. Rannsóknir sýna að þessi samskiptaleið sem er framkvæmd með foreldrum sé til þess fallin að draga úr þunglyndi eftir fæðingu og stuðla að jákvæðum samskiptum foreldra og ungbarns.

Eftir námskeiðið eru þátttakendur hvattir til að reyna þessa leið hjá fimm fjölskyldum í eigin starfsumhverfi. Handleiðsla og stuðningur er veittur á meðan á þeirri vinnu stendur.

Miðstöð foreldra og barna hefur hlotið styrk frá Velferðasjóði barna til að halda námskeiðið en námskeiðsgjald er 45.000 kr. (námskeiðið uppfyllir skilyrði stéttarfélaga varðandi styrki fyrir félagsmenn). Innifalið í námskeiðsgjaldi er bókin Understanding Newborn Behavior& Early Relationships (2007) The Newborn Behavioral Observations (NBO) System Handbook  eftir J. Kevin Nugent, Constance H. Keefer, Susan Minear og Lise C. Johnson.  Nánari upplýsingar er að finna hér.

Til baka


Language