Kerfið ræður ekki við álagið!

25. mars 2013

Um 130 mál hafa borist á borð Barnahúss það sem af er þessu ári. Fjölgunin er gríðarleg, en á undanförnum árum hafa borist að meðaltali 270-290 mál til Barnahúss á ári. Forstöðumaður Barnahúss segir ljóst að kerfið sé sprungið og að fjölmörg börn séu á biðlista. Þetta kemur fram á mbl.is.

Ólöf Ásta Farestveit, forstöðumaður Barnahúss, greindi frá þessu á málþingi sem fór fram í Háskólanum í Reykjavík í dag. Á málþinginu var sérstaklega fjallað um kynferðisbrot gegn drengjum. Það skal þó tekið fram að málafjöldinn í heild varðar bæði kynin.

Barnahús sinnir málefnum barna sem grunur leikur á að hafi sætt kynferðislegri áreitni eða ofbeldi. Nýverið greindi Barnaverndarstofa frá því að um 50 börn séu á biðlista hjá Barnahúsi og að aukið álag hefti bataferli barna sem komist ekki að.

Ólöf segir að umfjallanir fjölmiðla á þessu ári um kynferðisbrot gegn börnum, m.a. í Kastljósi og í Málinu, hafi leitt til þess að fleiri þolendur stígi fram til að segja frá kynferðisofbeldi sem þeir hafa orðið fyrir. Um leið og hún fagnar því að fleiri segi frá ofbeldingu þá bendir hún á þá staðreynd að kerfið ráði ekki við allan þennan fjölda miðað við núverandi ástand.

Svala Ísfeld Ólafsdóttir, dósent við lagadeild HR, tekur í sama streng og Ólöf og segir að kerfið sé bæði undirmannað og fjársvelt.

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, sem var fundarstjóri á málþinginu, tók undir þessi orð. Hann sagði að vegna þessara mála þá væru menn að glíma við allt að almannavarnarástand. Hann benti á að stjórnvöld séu fljót að bregðast við með aukinni fjárveitingu ef um náttúruhamfarir sé að ræða, t.d. eldgos eða jarðskjálfta, en annað sé uppi á teningum varðandi þessi mál.

Til baka


Language