Norrænt samstarfsverkefni varðandi börn í fóstri! 

Skoða á vinnslu mála útfrá heilsufari og skólagöngu barnanna ásamt því hvað tekur við þegar heim er komið.

6. janúar 2014

Norræna velferðamiðstöðin (NVC) sem fæst við rannsóknir á sviði velferðar á Norðurlöndum hefur sett þau markmið með rannsóknarverkefnum á þess vegum að kortleggja og safna hugmyndum og upplýsingum um gagnreyndar aðferðir á þessu sviði (sjá heimasíðu stofnunarinnar http://www.nordicwelfare.org/). Eitt þeirra verkefna er um snemmbæra íhlutun til að aðstoða fjölskyldur og börn. Því lauk 2012 og voru niðurstöður kynntar á öllum Norðurlöndunum á árinu 2013 þ.m.t. á Íslandi sjá nánar hér.

Nú hefur velferðarmiðstöðin hleypt af stokkunum verkefni varðandi börn sem ráðstafað er í fóstur og skipað vinnuhóp með fulltrúum hvers lands, auk tveggja verkefnastjóra.Fyrsti fundur hópsins var haldinn 28. október 2013 þar sem fjallað var um eftirtalin svið:
·    það sem unnið er að áður en til ráðstöfunar kemur
·    það sem unnið er að á meðan ráðstöfun stendur
·    það sem gert er eftir að ráðstöfun lýkur
·    að kalla eftir tillögum  og hugmyndum barna sem ráðstafanir hafa beinst að

Fyrirliggjandi kannanir benda til þess að brotalamir kunni að vera hvað heilsufar og heilbrigði fósturbarna, þ.e. að þessi atriði séu ekki nægilega vel þekkt/metin áður en til ráðstöfunar barns kemur.
Annað atriði snýr að skólagöngu barnanna en viðamikil sænsk rannsókn leiðir í ljós að menntun og starfsþjálfun vegi þyngst um velferð fósturbarna á fullorðinsárum. Fósturbörnum vegnar almennt mun ver á þessu sviði en börnum almennt, eru ver undirbúin þegar út í lífið er komið o.s.frv. Tvö framangreind svið verða í brennidepli í starfi vinnuhópsins.

Þriðja viðfangsefnið varðar þær ráðstafanir sem gerðar eru þegar barn snýr til sína heima að nýju  (þegar og ef um tímabundna ráðstöfun er að ræða).

Ofangreind áhersluatriði gætu þó tekið á sig víðtækari mynd. Forsenda þess er ákvörðun Norðurlandaráðs í þeim efnum en ráðið hefur í skoðun að útvíkka verkefnið frekar.

Hér má sjá  upplýsingar um starfshóp um börn sem ráðstafað er í fóstur.

Til baka


Language