112-dagurinn er að venju haldinn í dag 11. febrúar.

Að þessu sinni er sjónum beint að öryggi í vetrarferðum í víðu samhengi. Sjónum almennings er beint að mörgum þáttum sem snerta málefnið.

11. febrúar 2014

Að þessu sinni er sjónum beint að öryggi í vetrarferðum í víðu samhengi, í þéttbýli, á vegum og utan alfaraleiða. Sjónum almennings er beint að mörgum þáttum sem snerta málefnið, svo sem undirbúningi ferða, búnaði, staðsetningu og viðbrögðum við slysum og óhöppum. Meðal annars verða kynntar víðtækar aðgerðir Vegagerðarinnar og viðbragðsaðila til að stemma stigu við að fólk leggi í tvísýn ferðalög þrátt fyrir ófærð og viðvaranir.

Samstarfsaðilar dagsins hafa undirbúið ýmsar aðgerðir til þess að vekja athygli á deginum og efni hans:

·         112-blaðið fylgir Fréttablaðinu 11. febrúar. Þar er að finna ítarlegar leiðbeiningar og góð ráð um hvernig auka má öryggi í ferðum að vetri til.

·         Fjallað er um málið á vefsíðum og samfélagsmiðlum.

·         Fræðsla um slysavarnir og skyndihjálp fer fram í skólum.

·         Móttaka verður í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð í tilefni dagsins.

112-dagurinn er haldinn um allt land 11. febrúar. Hann er einnig haldinn víða um Evrópu en 112 er samræmt neyðarnúmer í Evrópu. Markmið dagsins er að kynna neyðarnúmerið og þá margvíslegu aðstoð sem almenningur hefur aðgang að í gegnum það.

Í ljósi þess að 112 er neyðarnúmer barnaverndarnefnda landsins er kærkomið tækifæri til að vekja athygli á tilkynningaskyldunni og upplýsa almenning um það hvert er hægt að leita þegar velferð barns er í húfi. Hér má sjá grein félagsmálastjóra Fljótsdalshéraðs fyrir Austurgluggann þar sem farið er yfir tilkynningaskylduna og hvernig staðið er að vinnslu mála í Fljótsdalshéraði.

Við sérstaka dagskrá í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð 11. febrúar kl. 16 verða veitt verðlaun í Eldvarnagetrauninni 2013 og neyðarverði ársins verður veitt viðurkenning. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra flytur ávarp við athöfnina.

112-dagurinn er samstarfsverkefni stofnana og félagasamtaka sem annast margvíslega neyðarþjónustu, almannavarnir og barnavernd í landinu. Þau eru: 112, Barnaverndarstofa, Embætti landlæknis, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Landhelgisgæslan, Landspítalinn, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Mannvirkjastofnun, Rauði krossinn, Ríkislögreglustjórinn, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Vegagerðin og samstarfsaðilar um allt land.

 

Til baka


Language