Ársskýrsla Barnaverndarstofu fyrir árin 2012 - 2013 er komin út:
Fleiri barnaverndarmál, fleiri kynferðisbrot og fjölgun í MST.

22. september 2014

Þróun undanfarinna ára gefur vísbendingar um breytingar í barnaverndarmálum. 
Eru barnaverndarmál að verða alvarlegri?  Árið 2013 var metár í kynferðisbrotum gegn börnum.
Undanfarin ár hafa sífellt fleiri tilkynningar um börn leitt til könnunar barnaverndar og  barnaverndarmálum hefur fjölgað. Einnig hefur börnum í MST meðferð fjölgað en dregið úr stofnanavistun.

Skýrsla sú sem hér er birt tekur til tölulegra upplýsinga úr ársskýrslum barnaverndarnefnda á Íslandi vegna áranna 2012 og 2013 svo og starfsemi Barnaverndarstofu á sama tímabili.

Upplýsingar sem koma fram í ársskýrslum barnaverndarnefnda og Barnaverndarstofu fela í sér mikilvægar vísbendingar um stöðu barnaverndarmála á hverjum tíma auk þess sem þær geta lagt grunn að því að greina þróun mála frá einum tíma til annars. Í fyrri hluta ársskýrslunnar er fjallað um starfssemi Barnaverndarstofu, en í þeim síðari koma fram upplýsingar frá barnaverndarnefndunum á Íslandi.

Fjöldi tilkynninga til barnaverndarnefnda gefur annars vegar hugmynd um umfang þess vanda sem við er að glíma og hins vegar vitundarstig samfélagsins um rétt barna til verndar. Á árinu 2013 fjölgaði tilkynningum um rúmlega 8% frá árinu á undan og voru alls 8.615. Þetta er öndvert við þróun undanfarinna ára ef árið 2009 er undanskilið. Tilkynningum fjölgar mest í Reykjavík eða um 12% , fækkar hins vegar aðeins í nágrenni Reykjavíkur en fjölgaði um tæplega 10% á landsbyggðinni. Fjöldi tilkynninga náði hámarki á árinu 2009, en þá bárust 9.353 tilkynningar til barnaverndarnefnda á Íslandi. Fram til ársins 2012 fækkaði tilkynningum og voru tilkynningar 7.953 á árinu 2012. Munaði þar mestu um fækkun tilkynninga í Reykjavík það árið.

Ástæður tilkynninga skiptust þannig árið 2013 að 36,2% tilkynninga var vegna vanrækslu gagnvart börnum, 26,1% vegna ofbeldis gagnvart börnum, 37,0% vegna áhættuhegðunar barna og loks 0,7% vegna þess að heilsa eða líf ófædds barns var í hættu. Á síðustu árum hefur orðið hlutfallsleg fækkun tilkynninga vegna áhættuhegðunar barns en fjölgun tilkynninga vegna ofbeldis og vanrækslu barna. Flestar tilkynningar bárust frá lögreglu sem fyrr þó nokkuð hafi dregið úr þeim undanfarin ár í hlutfalli við aðra tilkynnendur.

Oft berast fleiri en ein tilkynning vegna sama barns og því gefur fjöldi barna að baki tilkynningunum annað sjónarhorn við mat á stöðu mála. Alls vörðuðu tilkynningar 4.880 börn á árinu 2013 sem er smávægileg fjölgun frá árinu á undan og svipaður fjöldi og var árið 2011. Algengara er að tilkynningar berist um drengi en stúlkur og enn fremur hefur hlutfall barna yngri en 10 ára aukist síðustu ár.

Tilkynning til barnaverndarnefndar verður að barnaverndarmáli þegar ákveðið er að hefja könnun máls. Þróun undanfarinna ára hefur verið sú að barnaverndarmálum hefur fjölgað jafnt og þétt, þ.e.a.s. sífellt fleiri tilkynningar leiða til könnunar máls. Mál 69% barna sem tilkynnt var um á árinu 2013 fóru í könnun eða voru opin barnaverndarmál.  Þetta hlutfall hefur farið vaxandi á síðustu árum, t.d. var það 60% árið 2011. Getur þetta bent til þess að barnaverndarnefndir hafi meira svigrúm til að kanna mál en áður var og/eða að málin séu nú alvarlegri en fyrr. Heildarfjöldi barnaverndarmála árið 2013 var 4.622 börn sem er fjölgun um 2,5% frá árinu áður.

Innleiðing fjölkerfameðferðarinnar MST í lok árs 2008 hefur breytt miklu í meðferð barna með hegðunarerfiðleika og neysluvanda. Í fyrri ársskýrslum stofunnar hefur verið fjallað um dvínandi eftirspurn eftir stofnanameðferð á síðustu árum og fækkaði umsóknum enn frekar á árunum 2012 og 2013. Þannig hefur börnum á Stuðlum og öðrum meðferðarheimilum fækkað í kjölfar aukinnar meðferðar barna í þeirra nærumhverfi. Ugglaust skýrist þessi þróun af aukinni þekkingu fagfólks sem og foreldra á takmörkunum stofnanameðferðar þótt vissulega mæti góðar meðferðarstofnanir best þörfum afmarkaðs hóps barna tímabundið. Börnum sem hafa fengið meðferð í MST hefur fjölgað jafnt og þétt ár frá ári og voru fleiri börn sem fengu meðferð í MST á árunum 2012 og 2013 en á meðferðarheimilum og Stuðlum. Þá hefur komum og einstaklingum á lokaðri deild Stuðla fækkað jafnt og þétt frá árinu 2009. Ekki urðu teljandi breytingar á fjölda fósturráðstafana á árunum 2012 og 2013 þótt heldur hafi dregið úr styrktu fóstri. Alls voru 327 börn í fóstri á árinu 2013, litlu færri en árið 2012 en svipaður fjöldi og árin þar á undan.

Í Barnahúsi voru rannsóknarviðtöl 253 árið 2013, en þau hafa aldrei verið fleiri frá stofnun Barnahúss. Aukning á rannsóknarviðtölum skýrist fyrst og fremst af mjög mikilli fjölmiðlaumfjöllun í upphafi ársins um ítrekuð kynferðisbrot tiltekins brotamanns sem spönnuðu áratugi, en reynslan kennir að opinber umræða um þessi mál leiðir gjarnan til fjölgunar tilvísana í Barnahús. Athyglisvert er að rannsóknarviðtölum fjölgar vegna fjölgunar á skýrslutökum fyrir dómi, en nærri lætur að þær hafi tvöfaldast árið 2013 miðað við árið á undan. Bendir þetta til að Barnahúsið hafi fest sig í sessi sem ákjósanlegur vettvangur fyrir dómara til að fá fram frásögn barns. Börnum sem fengu greiningar–og meðferðarviðtöl fækkaði nokkuð á árinu 2013 skýrist það af því skyndilega álagi sem varð á starfsfólk vegna skýrslutöku af börnum svo ekki reyndist unnt að sinna þessum þætti eins og best var á kosið.

Á árinu 2013 tóku stjórnvöld ákvörðun um að veita fé til kaupa á nýju húsi fyrir starfsemi Barnahúss og fjölga sérfræðingum til þess að mæta auknu álagi. Jafnframt stendur vilji til þess að starfsemi Barnahúss veiti börnum sem orðið hafa fyrir áföllum af öðru tilefni, t.d. heimilisofbeldi meðferð og stuðning. Segja má að þetta sé kærkomin afmælisgjöf því á árinu 2013 voru 15 ár síðan starfsemin hófst. Það hefur verið gleðilegt að fylgjast með framrás barnahúsa erlendis. Svíar og Norðmenn hafa fjölgað barnahúsum og eru þau nú í um 30 borgum í Svíþjóð og 10 í Noregi. Á árinu 2013 tóku barnahús til starfa í 5 borgum í Danmörku og samhliða var gerð breyting á barnaverndarlögum sem felur í sér að nú er skylt að taka rannsóknarviðtöl við börn í þeim. Þá hefur Barnaverndarstofa orðið við beiðnum á árunum 2012 og 2013 um að veita liðsinni sitt við að koma á fót barnahúsum í Færeyjum og í Litháen. Loks má geta þess að eitt fyrsta verk Lanzarote nefndar Evrópuráðsins, sem fer með eftirlit með framkvæmd Evrópusamningsins um vernd barna gegn kynferðisofbeldi, var að heimsækja íslenska Barnahúsið vorið 2012. Í kjölfarið kom nefndin ábendingum á framfæri við aðildarríki ráðsins að Barnahús væri ákjósanleg fyrirmynd til að hrinda markmiðum samningsins í framkvæmd.

Bragi Guðbrandsson

Hér er hægt að skoða ársskýrslu Barnaverndarstofu 2012 - 2013     
Til baka


Language