Fjörtíu prósent tilkynningar fyrstu níu mánuði ársins 2014 voru vegna vanrækslu á börnum, 37% vegna áhættuhegðunar barna og 22%  vegna gruns um ofbeldi foreldra gagnvart börnum sínum.   

18. nóvember 2014

Barnaverndarstofa birtir samanburð á fjölda tilkynninga til barnaverndarnefnda fyrstu níu mánuði áranna 2013 og 2014. Einnig  upplýsingar um fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu fyrir þessi tímabil.

Í þessari samantekt er að finna samanburð á fjölda tilkynninga til barnaverndarnefnda skv. sískráningu nefndanna fyrir fyrstu níu mánuði áranna 2013 og 2014. Endanlegar upplýsingar um fjölda tilkynninga koma fram í samtölublöðum barnaverndarnefndanna sem birtast í ársskýrslu Barnaverndarstofu. Einnig er hér að finna upplýsingar um fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu fyrir fyrstu níu mánuði áranna  2013 og 2014.

Tilkynningar til barnaverndarnefnda

Tilkynningum til barnaverndarnefnda fjölgaði um 6,6% á fyrstu 9 mánuðum ársins 2014 miðað við sama tímabil árið á undan. Fjöldi tilkynninga var 6.796 á fyrstu níu mánuðum ársins 2014, en 6.373 fyrir sama tímabil árið á undan. Tilkynningum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um 7,2% en fjölgunin var 5,5% á landsbyggðinni. Þess ber að geta að tilkynning til barnaverndarnefndar verður að barnaverndarmáli ef tekin er ákvörðun um könnun máls í kjölfar tilkynningarinnar.

Flestar tilkynningar fyrstu níu mánuði ársins 2014 voru vegna vanrækslu eða 40,1% tilkynninga. Hlutfall tilkynningar vegna vanrækslu fyrir sama tímabil árið á undan var 36,5% af heildarfjölda tilkynninga. Hlutfall tilkynninga vegna ofbeldis var 22,2% á fyrstu níu mánuðum ársins 2014, en  26,6% fyrir sama tímabil árið á undan.  Hlutfall tilkynninga vegna áhættuhegðunar var 37,1% á fyrstu níu mánuðum ársins 2014, en 36,2% fyrir sama tímabil árið á undan. Hlutfall tilkynninga þar sem að heilsu eða lífi ófædds barns var stefnt í hættu lækkaði úr 0,6% á fyrstu níu mánuðum ársins 2014 í 0,7% á fyrstu níu mánuðum ársins 2013.

Hlutfall tilkynninga þar sem tilkynnt var um vanrækslu og fram kom að foreldrar voru í áfengis-og/eða fíkniefnaneyslu var 10,7% á fyrstu níu mánuðum ársins 2014, en 9,2% á fyrstu níu mánuðum ársins 2013. Í tilkynningum um ofbeldi var hlutfall tilkynninga þar sem um heimilisofbeldi var að ræða 5,3%  á fyrstu níu mánuðum bæði árin.

Umsóknir til Barnaverndarstofu

Umsóknum um meðferð fjölgaði á fyrstu níu mánuðum ársins 2014 miðað við sama tímabil árið á undan. Umsóknir um Stuðla voru 33 fyrstu níu mánuði ársins 2014, en 27 fyrstu níu mánuði árið á undan. Umsóknir um meðferðarheimili voru 24 fyrstu níu mánuði ársins 2014, en 19 fyrir sama tímabil árið á undan. Alls bárust 64 umsókn um MST fyrstu níu mánuði ársins 2014, en 57 fyrir sama tímabil árið á undan. Beiðnir til Barnaverndarstofu um fósturheimili fækkaði úr 98 í 92 á umræddu tímabili.

Í Barnahúsi fækkaði rannsóknarviðtölum úr 198 fyrstu níu mánuði ársins 2013 í 151 fyrstu níu mánuði ársins 2014. Skýrslutökum fækkaði úr 78 á fyrstu níu mánuðum ársins 2013 í 48 fyrir sama tímabil árið 2014 en könnunarviðtölum fækkaði úr 120 í 103 milli ára. Stúlkur voru í meirihluta þeirra barna sem komu í rannsóknarviðtöl, 67,5% fyrstu níu mánuði ársins 2014, en 72,7 fyrir sama tímabil árið á undan.

Í eftirfarandi skýrslu má sjá frekari sundurliðun á þessum samanburði.

Til baka


Language