Trappan - Loksins á Íslandi

Námskeið fyrir fagfólk um börn og heimilisofbeldi

31. mars 2015

Dagana 16 og 17. mars sl. hélt Inger Ekbom, félagsráðgjafi frá Svíþjóð, námskeið í Fjölskyldusetri Reykjanesbæjar fyrir fagfólk sem vinnur með börnum sem búa við eða hafa búið við heimilisofbeldi. Inger Ekbom er annar höfunda meðferðarúrræðisins Trappan en það er notað af fagaðilum félagsþjónustunnar víðs vegar í Svíþjóð og Finnlandi auk þess sem Trappan hefur verið kennd á háskólastigi í Svíþjóð til margra ára. Námskeiðið var styrkt af Velferðarvakt ríkisins fyrir tilstilli Velferðarvaktar Suðurnesja.

Áhrif heimilisofbeldis á börn

Að verða fyrir heimilisofbeldi er mjög ógnandi lífsreynsla sem getur haft áhrif á þroska barna. Börn sem búa við heimilisofbeldi þróa oft með sér ákveðin einkenni eins og depurð, lágt sjálfsmat, verkkvíða, skerta félagsfærni, samskiptavanda og margvíslegan tilfinninga- og hegðunarvanda. Það er mikilvægt að mæta þeim börnum sem búa við heimilisofbeldi og veita þeim viðeigandi meðferð svo þau geti unnið úr reynslu sinni.

Leið til hjálpar

Alls tóku 22 fagaðilar þátt í námskeiðinu Trappan en þeir komu frá félagsþjónustunum á Suðurnesjum, barnavernd Kópavogs, Mosfellsbæjar og Reykjavíkur. Einnig frá fræðslusviði Reykjanesbæjar og Kvennaathvarfinu.

Námskeiðið var mjög áhugavert og fræðandi en þar var kennd aðferð til að vinna með börnum sem hafa upplifað heimilisofbeldi.  Um er að ræða vikuleg viðtöl í 6-10 vikur og hægt er að taka börn frá fjögurra ára aldri í meðferð. Meðferðin er þrepaskipt og byggist á þremur þrepum.  Í þrepi eitt er lögð áhersla á að mynda tengsl við barnið, því þarf að líða vel og upplifa sig öruggt svo að það geti greint frá erfiðri lífsreynslu. Í þrepi tvö er lögð áhersla á uppbyggingu þar sem börnin vinna úr lífsreynslu sinni og setja orð á tilfinningarnar. Einnig er fjallað um eðlileg og óeðlileg samskipti.  Í þrepi þrjú er unnið með þekkinguna sem hefur skapast í þrepi tvö, farið í tengslakort barnanna og börnin  fá aðstoð við að búa til ákveðið hjálparkort. Einnig er rætt um framtíðina og hvað tekur við að lokinni meðferð.  Lagt er mat á það hvort að börnin þurfa á sérhæfðari meðferð að halda en það sem Trappan býður upp á svo hægt sé að vísa þeim í viðeigandi úrræði.

Fyrsta skrefið í átt til sérhæfðrar meðferðar

Með þessu námskeiði er fjölskyldu-og félagsþjónusta Reykjanesbæjar að taka fyrsta skrefið til að mæta þeim börnum sem búa við heimilisofbeldi, því ekki hefur verið mikið um sérhæfða meðferð fyrir börn í þessum aðstæðum á Íslandi. Mikilvægt er að fagaðilar sem vinna með börnum sem búa við heimilisofbeldi fái svigrúm innan sinnar stofnunar til að vinna með börnin því aðstæður og líðan þeirra eru ekki góðar. Heimilisofbeldi er samfélagslegt vandamál og við verðum öll að taka höndum saman til að uppræta þetta samfélagslega mein.

Innsend grein: María Gunnarsdóttir forstöðumaður barnaverndar Reykjanesbæjar.

Til baka


Language