Tilkynningum til barnaverndarnefnda fjölgar áfram

Þetta er meðal annars þess sem kemur fram í samantekt á fjölda tilkynninga til barnaverndarnefna fyrstu níu mánuði áranna 2017 - 2019

15. janúar 2020

Í þessari samantekt er að finna samanburð á fjölda tilkynninga til barnaverndarnefnda skv. sískráningu þeirra fyrstu níu mánuði 2017, 2018 og 2019. Einnig er hér að finna upplýsingar um fjölda umsókna um þjónustu til Barnaverndarstofu á þessum sama tíma 

Tilkynningar til barnaverndarnefnda. 

Tilkynningum til barnaverndarnefnda fjölgaði um 9,8% á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 miðað við árið á undan. Hins vegar fjölgar tilkynningum um 12,8% ef miðað er við fyrstu níu mánuði ársins 2017. Fjöldi tilkynninga á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 var 8.242 tilkynningar. Tilkynningum fjölgaði bæði í Reykjavík og á landsbyggðinni, en fækkaði lítillega á höfuðborgarsvæðinu miðar við árið á undan. 

Flestar tilkynningar á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 voru vegna vanrækslu líkt og árin á undan eða 42,4% tilkynninga. Þetta hlutfall var einnig 42,2% á fyrstu níu mánuðum ársins 2018 og 38,7% á fyrstu níu mánuðum ársins 2017. Hlutfall tilkynninga vegna ofbeldis á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 var 26,1%, 24,5% fyrir sama tímabil árið á undan og 27,2% á fyrstu níu mánuðum ársins 2017. Hlutfall tilkynninga vegna áhættuhegðunar barna var 30,7% á fyrstu níu mánuðum ársins 2019, 31,9% fyrir sama tímabil árið á undan og 33,2% á fyrstu níu mánuðum ársins 2017. Hlutfall tilkynninga þar sem að heilsu eða lífi ófædds barns var stefnt í hættu var um 1% öll árin. Hlutfall tilkynninga þar sem tilkynnt var um vanrækslu og fram kom að foreldrar voru í áfengis-og/eða fíkniefnaneyslu var 14,6% á fyrstu níu mánuðum ársins 2019, 14,2% fyrir sama tímabil árið á undan og 11,4% á fyrstu níu mánuðum ársins 2017. En í tilkynningum um ofbeldi var hlutfall tilkynninga þar sem um heimilisofbeldi var að ræða 8,5% á fyrstu níu mánuðum ársins 2019, 7,3% fyrir sama tímabil árið á undan og 8,0% á fyrstu níu mánuðum ársins 2017.

Flestar tilkynningar bárust frá lögreglu, eða 44,1% tilkynninga á fyrstu níu mánuðum ársins 2019, hlutfallið var 43,7% fyrir sama tímabil árið á undan og 44,1% á fyrstu níu mánuðum ársins 2017. Samanlagður fjöldi barna sem tilkynnt var um á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 var 6.567 börn, en sambærileg tala fyrir árið á undan var 5.860 börn og 5.786 börn á fyrstu níu mánuðum ársins 2017.

Umsóknir til Barnaverndarstofu.

Umsóknum um meðferðarúrræði á vegum Barnaverndarstofu fækkaði á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 miðað við sama tímabil árið á undan úr 129 umsóknum í 103. Umsóknir voru 107 á fyrstu níu mánuðum ársins 2017 og voru flestar þeirra um MST (fjölkerfameðferð). Flestar umsóknir um meðferð bárust frá Reykjavík eða 40,8%.

Beiðnum til Barnaverndarstofu um fósturheimili fjölgaði á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 úr 91 beiðni í 121 miðað við sama tímabil árið á undan. Beiðnir um fósturheimili voru 137 á fyrstu níu mánuðum ársins 2017. Beiðnum um tímabundið fóstur fjölgaði mest og flestar beiðnir bárust frá Reykjavík eða 38,8% á fyrstu níu mánuðum ársins 2019. 

Rannsóknarviðtöl í Barnahúsi fækkaði úr 173 á fyrstu níu mánuðum ársins 2018 í 163 fyrir sama tímabil á árinu 2019, en þau voru 181 á fyrstu níu mánuðum ársins 2017. Skýrslutökur fyrir dómi voru 88 á fyrstu níu mánuðum ársins 2019, 91 fyrir sama tímabil árið á undan en 82 á fyrstu níu mánuðum ársins 2017. Könnunarviðtölum fyrir barnaverndarnefndir fækkaði úr 82 á fyrstu níu mánuðum ársins 2018 í 75 fyrir sama tímabil á árinu 2019, en þau voru 99 á fyrstu níu mánuðum ársins 2017. Fjöldi barna sem fór í greiningar- og meðferðarviðtöl á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 var 84 börn, en þau voru 85 fyrir sama tímabil árið og undan og 103 á fyrstu níu mánuðum ársins 2017. 

Vistunum á lokaðri deild Stuðla fækkaði úr 182 í 159 á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 miðað við sama tímabil árið á undan. Vistanir voru 166 á fyrstu níu mánuðum ársins 2017. Alls komu 65 börn á lokaða deild á fyrstu níu mánuðum ársins 2019, en þau voru 69 fyrir sama tímabil á árinu 2018 og 77 á fyrstu níu mánuðum ársins 2017.

Umsóknum til Barnaverndarstofu um leyfi til að gerast fósturforeldrar fækkaði miðað við árin á undan, voru 37 á fyrstu níu mánuðum ársins 2019, 54 fyrir sama tímabil á árinu 2018 og 43 á fyrstu níu mánuðum ársins 2017.

Hér er hægt að skoða samanburðarskýrsluna í heild sinni.

Til baka


Language