Yfirlýsing frá Barnaverndarstofu

Meginmarkmið í barnavernd eru að börn búi við viðunandi uppeldisaðstæður og fái þá umönnun og vernd sem þau þarfnast og eiga rétt á.

28. mars 2018


Málin eru í eðli sínu viðkvæm og varða framtíð og heilsu þeirra barna sem um ræðir og mikilvægt er að nálgast málin af auðmýkt. Þess vegna er nauðsynlegt að börnum sé sýnd sú virðing að mál þeirra séu unnin í samræmi við lög og fullrannsökuð svo hægt sé að veita viðeigandi stuðning og að aðgerðir barnaverndarnefnda séu framkvæmdar með eins mildum hætti og hægt er hverju sinni. 

Niðurstöður í eftirlitsmálum hjá Barnaverndarstofu gegna fyrst og fremst því hlutverki að leiðbeina barnaverndarnefndum svo bæta megi verklag og koma í veg fyrir að mistök endurtaki sig. Allar ákvarðanir Barnaverndarstofu gagnvart einstaka barnaverndarnefndum og viðbrögð í kjölfar eftirlitsmála miðast við að tryggja réttindi barna án þess að ganga þurfi lengra en nauðsyn krefur gagnvart barnaverndarnefnd hverju sinni. Af þeim 20 málum barnaverndarnefndar Reykjavíkur sem stofan hefur skoðað efnislega frá ársbyrjun 2014 hefur þurft að gera athugasemdir við málsmeðferð í 19 þeirra. Bæði eftirlit stofunnar og aðrar upplýsingar sem hún hefur um vinnslu mála hjá barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafa þannig leitt í ljós að mikilvægt er að efla enn frekar vinnslu mála hjá nefndinni. 

Greindi Barnaverndarstofa nefndinni frá áhyggjum sínum af stöðu mála í Reykjavík á fundi nefndarinnar þann 12. september sl. Á fundinum var jafnframt upplýst að verið væri að skoða hvort áminna þyrfti nefndina. Einnig bauð stofan fram aðstoð sína við að efla vinnslu mála hjá nefndinni svo ekki þyrfti að koma til áminningar. Barnaverndarstofa hefur nú á vormánuðum átt í óformlegum samræðum við Barnavernd Reykjavíkur varðandi það hvernig styrkja megi barnaverndarstarf í Reykjavík, þar sem um 40% allra barnaverndarmála á landinu eru unnin. Ákvörðun um áminningu verður tekin þegar fyrir liggur hvort barnaverndarnefnd Reykjavíkur vilji taka þátt í þeirri vinnu og nýta til hagsbótar fyrir þau börn sem þeim er falið að vernda.

Til baka


Language