Rannsóknir á vegum Barnaverndarstofu

Rannsóknum er raðað eftir útgáfuári.

2020 

Staða þekkingar á barnavernd á Íslandi. Höf: Rósa Huld Sigurðardóttir.

Markmið þessa verkefnis var að taka saman yfirlit yfir stöðu þekkingar á barnavernd á Íslandi og þannig veita starfsfólki í barnavernd greiðari aðgang að rannsóknarniðurstöðum sem þeir geta nýtt í starfi sínu. Verkefnið var unnið með styrkt frá Rannís.

Hér má nálgast verkefnið


2016

Mæling á vinnu málastjóra í barnavernd. Höf. Valgerður Rún Haraldsdóttir. MA verkefni í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands unnið fyrir Barnaverndarstofu.


Markmiðið með meistaraverkefni þessu var að kortleggja vinnuumhverfi og upplifun barnaverndarstarfsmanna á vinnuálagi í íslenskum sveitarfélögum. Verkefnið var gert í samstarfi við Barnaverndarstofu og sá hún um að senda matstækið út ásamt kynningarbréfi. Notuð var megindleg rannsóknaraðferð og það mælitæki sem notast var við var þróað í Gautaborg í Svíþjóð til þess að mæla vinnuálag í barnavernd. Rannsóknarspurningar voru eftirfarandi: Hversu mikið vinnuálag upplifa félagsráðgjafar og aðrir ráðgjafar í starfi sínu? Hver er meðalstigafjöldi barnaverndarstarfsmanna samkvæmt matstækinu? Hver er meðalmálafjöldi barnaverndarstarfsmanna á Íslandi?
Mikilvægi rannsóknarinnar felst í því að ekki hafa áður verið aðgengilegar upplýsingar um vinnuálag á barnaverndarstarfsmenn á landsvísu. Sýna niðurstöðurnar að þörf er á umbótum í barnavernd í íslenskum sveitarfélögum svo hægt sé að draga úr vinnuálagi á þá starfsmenn sem þar starfa. Alls tóku níu barnaverndarnefndir þátt í rannsókninni en þær samanstóðu af 61 þátttakanda. Meginniðurstöður voru þær að barnaverndarstarfsmenn finna fyrir vinnuálagi í starfi sínu, eða tæplega 90% þátttakenda sögðu að of mikið væri að gera hjá sér í starfinu. Einnig kom í ljós að málafjöldi endurspeglar ekki alltaf vinnuálag þar sem meðalmálafjöldi starfsmannanna var 32 mál, en viðmið Barnaverndarstofu um æskilegan málafjölda er um 25-30 mál á hvern starfsmann.


2015

Um nýja nálgun í heimilisofbeldismálum. Samstarf barnaverndar og lögreglu. Höf: Elísabet Karlsdóttir og Sólveig Sigurðardóttir. Gefin út af Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd 2015


Í þessari skýrslu eru kynntar niðurstöður mats á tilraunaverkefni Barnaverndarstofu vegna heimilisofbeldis. Um er að ræða tímabundna þjónustu sem veitt var um tveggja ára skeið, frá september 2011 til maí 2013, þar sem sérfræðingur á vegum Barnaverndarstofu og lögregla störfuðu saman eftir fyrirfram ákveðnu vinnulagi „Þjónusta við börn sem búa við heimilisofbeldi“. Verkefnið var samstarf Barnaverndarstofu,  barnaverndarnefnda og lögreglu á höfuðborgarsvæðinu og miðaði að því að tryggja barnvæna nálgun í heimilisofbeldismálum þar sem börn komu við sögu. Kveikjan að verkefninu var bresk rannsókn sem sýndi að í þeim tilvikum sem lögregla hefur afskipti af heimilisofbeldi fengu börn litla hlutdeild í þeirri þjónustu sem veitt var á staðnum (Stanley, Miller, Richardson, Thomson og Britain, 2010). Rannsókn meðal kvennaathvarfa í Noregi sýndi einnig að oftast var engin formleg áfallahjálp í boði fyrir börn, né áframhaldandi aðstoð (Overline, 2010).2012
Afdrif barna sem dvöldu á meðferðarheimilum Barnaverndarstofu á árunum 2000-2007. Ritsjtjóri: Elísabet Karlsdóttir.  Gefin var út af Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd 2012

Barnaverndarstofa gerði samning við Rannsóknarstofnun í barna- og fjölskylduvernd um framkvæmd rannsóknar á afdrifum barna sem dvöldu á meðferðarheimilunum Hvítárbakka, Árbót, Bergi, Laugalandi og Geldingalæk á árunum 2000–2007. Um er að ræða megindlega rannsókn þar sem notast er við símakönnun sem lauk á árinu 2010 auk þess var unnið að skýrslugerð á árinu 2011. Ákveðið var að framkvæma sambærilega könnun meðal barna sem dvöldu á öðrum heimilum Barnaverndarstofu á sama tímabili og var gerður samningur við Rannsóknarstofnun í barna- og fjölskylduvernd um framkvæmd hennar. Um er að ræða meðferðarheimilin Háholt, Torfastaði, Jökuldal og Götusmiðjuna auk meðferðarstöðvar ríkisins Stuðlar.

 

Niðurstöður viðhorfskannana á meðferðarheimilum Barnaverndarstofu 2002 - 2010. Höf: Bryndís S. Guðmundsdóttir MA kennslufræði og Ragnar K Jóhannsson Ms mannauðsstjórnun.  

Sem liður í innra eftirliti Barnaverndarstofu eru reglulega lagðar viðhorfskannanir fyrir börn sem eru vistuð á meðferðarheimilum stofunnar. Barnaverndarstofa lét taka saman niðurstöður 611 viðhorfskannana sem 287 börn svöruðu á árunum 2002 - 2010. Börnin dvöldu á meðferðarheimilunum Árbót, Bergi, Geldingalæk, Götusmiðjunni, Háholti, Hvítárbakka, Laugalandi og Torfastöðum. Hér má því heyra raddir barnanna sjálfra á meðan þau voru vistuð, þ.e. hvernig þau mátu líðan sína, framfarir og ýmsa þætti er snéru að aðbúnaði þeirra og aðstoðinni sem þeim stóð til boða á viðkomandi heimili. Við lestur þessarar skýrslu þarf að gæta þess að meðferðarheimilin voru að ýmsu leyti ekki sambærileg og var ætlað að vinna með ólíkan vanda barna, sitthvort kynið, mismunandi aldur og mismunandi forsendur vistunar. Í viðhorfskönnunum var gefin einkunn frá 1 upp í 10 þar sem 1 er lægsta einkunn og 10 er hæsta einkunn. Almenn líðan barns virtist lakari hjá yngri börnum og þá sérstaklega stúlkum 14 ára og yngri. Skólinn fékk almennt góða einkunn og átti það einnig við um aðstoðina sem veitt var, matinn, tómstundir og ráðgjöf. Líðan barnanna í krakkahópnum virðist einnig almennt hafa verið góð en nokkur munur var á því hverig börnin mátu sinn eigin árangur í meðferinni

 


2011
Þjónusta Barnahúss: reynsla barna og ungmenna af skýrslutöku og meðferð árin 2007-2009. Höf: Anna Kristín Newton og Elín Hjaltadóttir Gefin var út af Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd 2012

Á árinu 2010 var samið við Rannsóknarstofnun í barna- og fjölskylduvernd um framkvæmd árangursmats á þjónustu Barnahúss á árunum 2007–2009. Um var að ræða megindlega rannsókn þar sem notast var við símakönnun sem lauk á árinu 2010. Í rannsókninni kemur m.a. fram þegar spurt var um aðbúnað og umhverfi skýrslutökunnar að Barnahús fékk jákvæðari umsögn (69%) varðandi þessa þætti en dómstólar (23%). Athuganir á upplifun barna á skýrslutökum hafa leitt í ljós ákveðna þætti sem geta skipt sköpum varðandi það hvernig tekst til að vinna úr reynslu barns/ungmennis sem sætt hefur kynferðisofbeldi. Niðurstöður könnunarinnar benda til þess að Barnahús sé mun barnvinsamlegri vettvangur til skýrslutöku á börnum en húsakynni Héraðsdóms Reykjavíkur.

 

Könnun á viðhorfum foreldra og barna til meðferðarheimila Barnaverndarstofu og varðandi stuðning eftir meðferð, Bryndís S. Guðmundsdóttir MA Kennslufræði

Í tengslum við eftirlit Barnaverndarstofu var sú tilraun gerð á árinu 2008 að fá tvö ungmenni til að fara, ásamt eftirlitsmanni Barnaverndarstofu, í heimsókn á meðferðarheimili Barnaverndarstofu. Þar ræddu þau við vistbörn bæði í hóp og einslega. Vel þótti takast til með þessa tilraun þó að hún hafi ekki beinlínis skilað nýrri sýn á starfsemi meðferðarheimilanna. Vistbörnin voru engu að síður ánægð með þessa heimsókn. Til að efla enn frekar eftirlitið ákvað Barnaverndarstofa að gera könnun á viðhorfum foreldra og barna til meðferðarheimilanna og varðandi eftirfylgd. Leitað var eftir þátttöku allra foreldra og barna sem luku meðferð á árinu 2008. Í þessari könnun voru þátttakendur inntir eftir áliti sínu á starfsemi þess meðferðarheimilis sem þeir þekktu til, hvernig útskrift eða brottför barnanna af meðferðarheimilinu var undirbúin og hvernig stuðningi eftir dvölina var háttað.

 

Könnun á vímuefnaneyslu barna sem vistuð voru á meðferðardeild Stuðla frá árinu 2003 og út árið 2010 Höf: Halldór Hauksson sálfræðingur
Svokölluð vímuefnakönnun er skriflegt verkefni sem börn á meðferðardeild Stuðla vinna, eftir atvikum með aðstoð starfsmanns. Verkefnið er fyrst og fremst hugsað sem meðferðartæki fyrir hvern og einn þar sem barn er aðstoðað við að viðurkenna vímuefanotkun og fjalla um hana í samhengi við meðferðina. Niðurstöðum hefur einnig verið safnað saman yfir ákveðin tímabil og þær metnar með tölfræðilegum aðferðum. Metin var þróun vímuefnaneyslu síðastliðin 8 ár hjá 373 börnum á aldrinum 13–18 ára sem voru vistuð til meðferðar á Stuðlum frá árinu 2003 og út árið 2010. Hlutfallslegar breytingar á vímuefnaneyslu en ekki stórvægilegar. Í þeim tilvikum sem neyslan eykst er oftast um að ræða eldri unglinga. Fram kemur kynjamunur þar sem fleiri piltar misnota áfengi og kannabisefni og fleiri stúlkur misnota amfetamín, kókaín og læknislyf. Misnotkun rítalíns, e-pilla og sniffefna minnkar eða stendur nánast í stað. Hlutfallsleg aukning varð á áfengisneyslu pilta á meðan neysla stúlkna minnkaði.  
2010 "Börnum straffað með hendi og vendi". Barnaverndartilkynningar er varða líkamlegt ofbeldi gagnvart börnum. Höf: Steinunn Bergmann félagsráðgjafi

Á árunum 2007 og 2008 var unnið að athugunum á tilkynningum til barnaverndarnefnda vegna meints líkamlegs ofbeldis á börnum á Íslandi. Skoðaðar voru allar þær 329 tilkynningar um líkamlegt ofbeldi gagnvart barni sem bárust barnaverndarnefndum á Íslandi árið 2006. Markmið athugunarinnar var þríþætt eins og hér segir:
·  Að skoða eðli og umfang líkamlegs ofbeldis sem tilkynnt er til bv. yfirvalda
·  Að kanna hvernig barnaverndaryfirvöld bregðast við slíku ofbeldi
·  Að meta þörf á úrræðum fyrir börn sem verða fyrir líkamlegu ofbeldi
 Í rannsókninni var notuð lýsandi megindleg rannsóknaraðferð. Notuð var innihaldsgreining gagna til að greina úr þau mál þar sem grunur var um að foreldrar eða aðrir umönnunaraðilar beittu börn sín líkamlegu ofbeldi. Þau mál voru skoðuð sérstaklega til að kanna hvernig barnaverndaryfirvöld bregðast við slíku ofbeldi og meta þörf á úrræðum

  2009
Rannsókn á viðtölum við börn sem komu til rannsóknar í Barnahús á tímabilinu frá 1. nóvember 1998 til 31. desember 2004. Þorbjörg Sveinsdóttir, Jóhanna Kristín Jónsdóttir, Gísli H. Guðjónsson og Jón Friðrik Sigurðsson.
Í lok árs 2008 var Barnaverndarstofu afhent skýrsla um rannsókn á framburði barna í rannsóknarviðtali í Barnahúsi vegna ætlaðra kynferðisbrota en samið var um framkvæmd hennar árið 2002. Rannsóknin er framhaldsrannsókn á BA-verkefni Jóhönnu Kristínar Jónsdóttur og Þorbjargar Sveinsdóttur sem ber heitið „Börn og kynferðisbrot: Framburður barns í rannsóknarviðtali, orðalag ákæru og lyktir máls“. Sú rannsókn var einnig unnin í samvinnu við Barnaverndarstofu og Barnahús vorið 2001. Rannsóknin var styrkt af Vísindasjóði. Áhugasamir hafi samband við höfunda.
  2007 Afdrifakönnun hjá unglingum á meðferðar- og skólaheimilinu Háholti. Höf: Jón Björnsson sálfræðingur.  
Könnun þessi tók til þeirra 51 unglings sem dvöldu á Háholti á þessu tímabili. Rætt var við þá sjálfa og foreldra þeirra á tímabilinu mars 2005 til feb. 2007. Meðalaldur unglinganna frá Háholti er viðtal var tekið voru 20 ár. Meginrannsóknarspurningarnar voru skilgreindar svo áður en könnunin hófst:
1. Hver er árangur meðferðarinnar eftir dvöl á Háholti gagnvart þeim vandamálum sem leiddu á sínum tíma til vistunarinnar þar?
2. Hvaða þættir hafa áhrif á þennan árangur?
Tvær meginályktanir má draga af niðurstöðum könnunarinnar:
1. Dvöl á Háholti ein og sér varð ekki þess valdandi að unglingarnir snéru frá villu síns vegar, heldur tóku flestir upp fyrri hætti fljótlega eftir útskrift. Hins vegar urðu margir til þess að leita ítrekað eftir frekari meðferð í öðrum úrræðum samfélagsins. Hluti hópsins náði góðum árangri, með annan hluta gat brugðið til beggja vona en þriðji hlutinn var í slæmum málum.
2. Þrátt fyrir þetta voru skjólstæðingar Háholts jákvæðir í garð meðferðarinnar og töldu sig flestir hafa lært af dvölinni og um helmingur þeirra töldu að einstakir starfsmenn eða heimilið hefði hjálpað sér hvað mest í lífinu. Foreldrar voru almennt sama sinnis.
Ofbeldi á börnum. Child Abuse Screening Tool: Rannsókn unnin í samstarfi við ISPCAN og UNICEF.
Alþjóðasamtökin gegn ofbeldi og vanrækslu í garð barna (ISPCAN) og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) fóru þess á leit við Barnaverndarstofu að Ísland, líkt og flest lönd heims, tæki þátt í alþjóðlegri rannsókn á ofbeldi í garð barna. Tilgangur rannsóknarinnar var annars vegar að afla upplýsinga um reynslu barna af ofbeldi og hins vegar að þróa mælitæki sem gefur áreiðanlegar og sambærilegar niðurstöður um reynslu barna af ofbeldi. Mikilvægt þótti að framkvæma slíka rannsókn þar sem sjónarhorni barnanna sjálfra hefur oftast verið gefinn lítill gaumur í rannsóknum á ofbeldi. Tvenns konar spurningalistar voru lagðir fyrir bekkjardeildir 7. og 9. bekk grunnskóla, bæði á höfuðborgarsvæðinu, landsbyggðinni og í dreifbýli. Annars vegar var lagður fyrir spurningalisti varðandi ofbeldi á heimili barnanna eða í grennd við heimilið og hins vegar spurningalisti varðandi ofbeldi við skóla eða vinnustað. Helstu vísbendingar könnunarinnar eru þær að um fimmta hvert barn á grunnskólaaldri hefur sætt líkamlegu ofbeldi á heimili og er hlutfallið svipað á vettvangi skólans. Allt að þriðjungur telur sig hafa sætt andlegu ofbeldi í einhverri mynd og tæplega einn af hverjum tíu greinir frá kynferðislegu ofbeldi í einhverri mynd.

Kynhegðun ungs fólks á Íslandi og kynferðisleg misnotkun á börnum. Samstarfsverkefni Barnavendarstofu og Rannsóknar & greiningar.  
Könnunin tók til nemenda í öllum framhaldsskólum á Ísland og byggir hún á svörum tæplega 10500 nemenda. Aldrei fyrr hefur verið gerð jafn umfangsmikil könnun á þessu viðfangsefni á svo stóru úrtaki á Íslandi. Bragi Guðbrandsson sagði við kynningu á niðurstöðum að niðurstöður sýndu að tíðni kynferðislegrar misnotkunar, um 13.5% stúlkna og 2.% drengja væru mun lægri en þær tölur sem hefðu áður verið í umræðunni. Skýringar á því taldi hann líklegastar að fyrri kannanir hafi ekki einskorðast við upplýsingar um kynferðislegt ofbeldi heldur hefðu jafnframt tekið til kynferðislegrar áreitni. Í öðru lagi væri athyglisvert að fjöldi þeirra ungmenna sem byrjuðu að lifa kynlífi fyrir 15 ára aldurinn væri ekki stór. Ennfremur væri athyglisvert að meirihluti stúlkna á framhaldsskólaaldir teldu að hækka bæri kynferðislegan lögaldur úr 14 í 15 ár, sem túlka mætti sem kröfu um aukna vernd. Í þriðja lagi væri ástæða til að hafa áhyggjur af mikilli klámneyslu drengja á framhaldsskólaaldri, en fram kemur að um 37% þeirra horfðu á klámefni oftar en þrisvar sinnum í viku. Könnunin gefur vísbendingar að þessi notkun á klámi geti haft afgerandi áhrif á viðhorf ungmenna til heilbrigðs kynlífs. Loks taldi Bragi að þær upplýsingar sem fram komu í könnuninni bentu til að líkamlegt ofbeldi á heimilum væri mun útbreiddara en ætla mætti, t.d. af tilkynningum til barnaverndarnefnda.

Niðurstöður rannsóknarinnar teknar saman á glærum.


2006 og eldra 
Nordisk barnevern Terskelen for barneverntiltak og beslutningsprosessen ved bruk av tvang
Turid Vogt Grinde (red) Gefin út af Norsk institutt for forskning om oppvekst, velferd og aldring (NOVA) 2004.

Beiting úrræða í barnaverndarmálum, mörkin milli stuðnings og þvingunar og ákvörðunarferlið. Hlutur Íslands í norrænu samanburðarrannsókninni. Höf: Anni Haugen félagsráðgjafi

Rannsóknin er unnin í samvinnu við Norðmenn og Dani og var styrkt af Norrænu ráðherranefndinni. Stjórnandi rannsóknarinnar var Turid Vogt Grinde, sálfræðingur og rannsakandi hjá NOVA, en hún vann norska hlutann ásamt Vigdisi Bunkholdt, sálfræðingi. Danski hlutinn var unninn af Tine Egelund og Signe Andrén Thomsen hjá Socialforskningsinstituttet og kom þeirra skýrsla út árið 2002. Íslenska hlutann  vann Anni G. Haugen, félagsráðgjafi hjá Barnaverndarstofu.

 

Viðhorfsrannsókn IMG Gallup á fósturbörnum. Útg: 2004

Barnaverndarstofa gerði samning við IMG Gallup og Guðrúnu Kristinsdóttur dósent við Kennaraháskóla Íslands, um að taka að sér rannsókn á högum fósturbarna. Lögð var áhersla að skoða hagi barna sem voru í varanlegu fóstri. Hægt er að nálgast skýrslu Guðrúnar Kristinsdóttur á Barnaverndarstofu og hér er  hægt að sjá niðurstöður IMG Gallup.

 

Til baka


Language