Rannsóknir og skýrslur sem Barnaverndarstofa hefur komið að.

 2014
Tilraunaverkefnið „þjónusta við börn sem búa við heimilisofbeldi“
Lokaskýrsla verkefnisins frá 15. september 2011 til 31. maí 2013.
Höf: Ragna Guðbrandsdóttir  

Tilraunaverkefnið náði til barna 17 ára og yngri. 
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kallaði út sérfræðing BVS í þeim tilvikum sem lögregla fór í útkall vegna heimilisofbeldis og börn voru á staðnum. Starfssvið sérfræðingsins var að ræða við börnin og kanna líðan þeirra, upplifun og viðhorf til þeirra atburðarása sem leiddu til lögregluafskipta. Í þeim tilvikum sem barn var of ungt til að tjá sig var einungis rætt við foreldra og þeim boðin ráðgjöf og stuðningur. Sérfræðingur lagði mat á þörf barnanna fyrir áfallahjálp og veitti þeim meðferðarviðtöl eins fljótt og við varð komið. Mál barnanna voru unnin sem hluti af þjónustu barnaverndar og gerði sérfræðingur áætlun um meðferðarþörf barnanna og kynnti hana viðkomandi barnaverndarnefnd og forsjáraðilum barns. Sérfræðingur vann greinargerð um hvert barn sem þjónustan tók til og sendi hana viðkomandi barnaverndarnefnd og hélt utan um tölulegar upplýsingar í samvinnu við Barnaverndarstofu. 

 2013

Skýrsla nefndar á vegum velferðarráðuneytisins um úrræði fyrir börn sem stríða við alvarlegar þroska- og geðraskanir.

Í nefndinni áttu sæti fulltrúar Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar, Barna- og unglingageðdeildar (BUGL), Geðdeildar Landspítala, Barnaverndarstofu, Sambands íslenskra sveitarfélaga og velferðarráðuneytis. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir tillögur nefndarinnar snúast um mikilvægar úrbætur á þjónustu við börn í þessari stöðu og fjölskyldur þeirra. Nú sé nauðsynlegt að finna tillögunum farveg þannig að unnt verði að hrinda þeim í framkvæmd. Nefndin var sett á fót í kjölfar þess að nokkur sveitarfélög höfðu vakið athygli velferðarráðuneytisins á vanda barna og fjölskyldna þeirra sem eru í mikilli þörf fyrir öflug og samhæfð úrræði vegna alvarlegra geð- og þroskaraskana. Þetta eru að jafnaði á bilinu átta til tólf börn á hverjum tíma. Sum þeirra hafa árum saman þurft að fara á milli tímabundinna úrræða innan barnaverndarkerfisins og aðstæður þeirra reyna mjög á fjölskyldur þeirra og systkini. Vandi barnanna er slíkur að þau geta ekki búið hjá foreldrunum og hafa sveitarfélögin útbúið sérstakar lausnir, meðal annars íbúðir fyrir einstök börn með mikilli og kostnaðarsamri þjónustu.

 

Helstu niðurstöður úr könnun Barnaverndarstofu árið 2012 á stöðu barna í styrktu fóstri
Höf: Halldór Hauksson og Hrönn Smáradóttir.

Könnunin náði til 28 barna sem voru í styrktu fóstri 2011: 17 strákar og 11 stúlkur = 30 ráðstafanir. Könnunin fólst í skoðun gagna og símtölum við fósturforeldra. Börnin voru á aldrinum 10-16 ára; þar af rúmur helmingur eða 16 börn á aldrinum 14-15 ára.  Heimilishagir þeirra fyrir styrkt fóstur: þrettán börn hjá einstæðri móður; níu hjá foreldri og stjúpforeldri, fjögur börn hjá kynforeldrum og tvö forsjárlaus

Börnum rétt hjálparhönd. Rannsókn á aðgerðum barnaverndar vegna barna sem bíða tjón af áfengis eða vímuefnaneyslu foreldra. Höf: Hildigunnur Ólafsdóttir og Kristný Steingrímsdóttir.

Heimilisofbeldi og áfengisdrykkja á heimilum bitnar oft á börnum. Takmarkaðar upplýsingar eru til um umfang og eðli þessa vanda. Frá og með árinu 2009 hóf Barnaverndarstofa þó að birta sérstaklega fjölda- og hlutfallstölur varðandi vanrækslu barna þar sem foreldrar voru í áfengis- eða fíkniefnaneyslu og varðandi tilfinningalegt/sálrænt ofbeldi vegna heimilisofbeldis. Þar með var ljóst að þessar upplýsingar var að finna í málaskrám barnaverndarnefnda. Til þess að kanna þá áhættu sem börn eru í vegna vímuefnaneyslu foreldra var ákveðið að gera rannsókn á því hvaða úrræðum barnaverndin beitir við að aðstoða börn í slíkri áhættu. Rannsóknin hefur það markmið að kanna hversu hátt hlutfall barna sem barnaverndin hefur afskipti af hefur orðið fyrir tjóni af völdum neyslu foreldra á áfengi, ólöglegum vímuefnum eða og lyfjum. Einnig verður kannað hvað einkennir þennan hóp barna og foreldra þeirra. Enn fremur er markmiðið að kanna hverjir tilkynna um neysluvandann til barnaverndarinnar og hver viðbrögð og úrræði hennar eru.


2012

Slektsfosterhjem i Norden - opplæring og oppfölging. Höf: Hege Sundt prosjektleder NOFCA 2012. Soffía Ellertsdóttir fósturforeldri og Foster Pride leiðbeinandi vann íslenska hluta rannsóknarinnar.

This report presents the results from a project about kinship care in the Nordic countries, and the need for training. The project is carried out by NOFCA (Nordic Foster Care Association), which is a network of Nordic foster care organizations, with government and non-government organizations working with foster care (Denmark, Finland, Faroe Islands, Greenland, Iceland, Norway and Sweden). The project is carried out with economic support from the Nordplus adult program. The purpose of this project is to strengthen the possibilities for training, supervision and support offered to kinship carers in the Nordic countries, and thereby improve the quality of foster care.

2011
Úrræði Barnaverndarstofu - Athugun á úrræðum Barnaverndarstofu.
Höf: Halla B. Marteinsdóttir, félagsfæðingur og starfsmaður Barnaverndarstofu.
Barnaverndarstofa

Vorið 2010 hófst vinna við tilraunaverkefni í kynjaðri fjárlagagerð. Hvert og eitt ráðuneyti valdi a.m.k. eitt verkefni og urðu verkefnin alls 19. Markmiðið með tilraunaverkefnunum er að auka vitund um áhrif fjárlaga og stefnumótunar á jafnrétti kynjanna ásamt því að skapa þekkingu.
Markmið tilraunaverkefnis Barnaverndarstofu er að skoða hvort hagsmunum og þörfum beggja kynja sé mætt á jafnréttisgrundvelli þegar kynjaskipting í meðferðarúrræðum Barnaverndarstofu eru skoðuð. Leitast verður við að leggja mat á það hvort kynjaskipting barna í meðferð í úrræðum Barnaverndarstofu endurspegli raunverulega þörf hvors kyns fyrir sig. Í fjárlagafrumvarpi ársins 2011 (Frumvarp til fjárlaga, 2010 ) er tilraunaverkefni Barnaverndarstofu kynnt. Úrræðin eru meðferðarheimili Barnaverndarstofu, meðferðardeild Stuðla og Fjölkerfameðferðin MST (Multisystemic Therapy)


2010

Annarra manna börn. Viðhorf starfsmanna á stofnunum barnaverndaryfirvalda til eigin starfs.
Höf: Bryndís S. Guðmundsdóttir, uppeldis- og kennslufræðingur og starfsmaður Barnaverndarstofu
Menntavísindasvið Háskóla Íslands 2010.

Í þessari rannsókn er könnuð sýn starfsmanna, sem starfa á stofnunum barnaverndaryfirvalda, á eigið starf. Við rannsóknina er beitt aðferðum eigindlegrar rannsóknarhefðar. Fræðilegt sjónarhorn rannsóknarinnar er valið út frá fyrirbærafræðinni. Gagna var aflað með viðtölum við sjö þátttakendur sem höfðu fremur langa starfsreynslu. Markmiðið með rannsókninni var að öðlast skilning á því hvernig þátttakendur skynja hlutverk sitt og starf og að skoða áhrif Breiðavíkurumræðunnar á viðhorf þeirra til starfsins. Tilgangurinn var að öðlast frekari vitneskju um hvernig stuðningur þætti gagnlegur í starfinu sem og að ljá þessum hópi rödd í umræðunni. Niðurstöður benda m.a. til þess að þátttakendur telja starfið vera ólíkt öðrum störfum, þar sem vinnudagurinn er ófyrirsjáanlegur, þeir beri mikla ábyrgð á annarra manna börnum og að þeir séu sjálfir „verkfærin“ í vinnunni. Starfið kallar á mikla nánd við skjólstæðinga og þétt samstarf í starfsmannahópnum.

2005
Barnaverndarmál. Skilgreining hugtaksins og samanburður við nágrannalönd.
Ritstjóri: Guðrún Kristinsdóttir Reykjavík 2004. Félagsþjónustan í Reykjavík.

Þessi álitsgerð fjallar um atriði sem lúta að skilgreiningum á hugtakinu barnavernd. Gerð er grein fyrir helstu forsendum fyrir afmörkun hugtaksins í nágrannalöndum og hérlendis og þetta borið saman og loks er fjallað um leiðir til skilgreiningar. Bakgrunn þeirrar vinnu, sem stofnað var til vegna þessarar álitsgerðar, má rekja til nýrrar skipanar barnaverndar í Reykjavík. Í mars 2003 skilaði sérstakur starfshópur um barnavernd, skipaður af borgarstjóra í desember 2002, skýrslu um skipulag barnaverndar og úrbætur á reglum og málsmeðferð barnaverndarmála á vegum Reykjavíkurborgar. Skýrslan var samþykkt í viðkomandi nefndum borgarinnar og í borgarráði. Sá starfshópur lagði fram tillögur til breytingar og endurskoðunar á starfsháttum og verkaskiptingu milli Barnaverndar Reykjavíkur og Félagsþjónustunnar í nokkrum liðum.
Til baka


Language