Fjölkerfameðferð - MST

Fjölkerfameðferð (Multisystemic Therapy, MST)

Hvað er MST?

Fyrir hverja?

MST er meðferðarúrræði á vegum Barnaverndarstofu fyrir fjölskyldur barna á aldrinum 12-18 ára sem glíma við alvarlegan hegðunarvanda og að óbreyttu kæmi til vistunar barns utan heimilis.  
 
Hegðunarvandinn þarf að koma fram á flestum eða öllum eftirtöldum sviðum:
 • Afskiptum lögreglu, afbrotum eða refsiverðri hegðun
 • Skrópum í skóla eða verulegum skólaerfiðleikum
 • Líkamlegu ofbeldi gegn öðrum á heimili, nærumhverfi eða í skóla
 • Munnlegu ofbeldi eða hótunum um að skaða aðra
 • Vímuefnanotkun eða misnotkun áfengis

Fyrir hverja er MST ekki?

Ekki er hægt að sækja um MST fyrir börn sem búa annars staðar en hjá foreldrum eða aðilum sem foreldrar hafa falið umsjá barnsins né fyrir börn sem eru í tímabundnu fóstri eða styrktu fóstri.

Ákveðnir þættir geta komið í veg fyrir að umsókn um MST sé samþykkt. Ræðst það m.a. af því að meðferðarúrræðið hefur verið rannsakað á ákveðnum hópum barna en öðrum ekki. Rannsóknir á hópum barna þar sem hegðunarvandi og afbrotahegðun eru ekki ríkjandi hegðun eru enn of stutt á veg komnar til að hægt sé að álykta að hefðbundin MST meðferð skili árangri.  

 Eftirfarandi þættir geta því útilokað umsókn í MST:

 • Börn sem sýna alvarlega sjálfskaðandi hegðun, eru í sjálfsvígshættu, sýna geðrofseinkenni eða eru talin hættuleg öðrum.
 • Börn sem beita kynferðislegu ofbeldi og annar hegðunarvandi eða afbrotahegðun er ekki til staðar.
 • Börn með gagntæka þroskaröskun (raskanir á einhverfurófi) 


Hvernig er sótt um MST?
Einungis barnaverndarnefndir geta sótt um MST meðferð til Barnaverndarstofu og nær þjónustusvæði MST til alls landsins.

hus-blattSmelltu á hnappinn hér til vinstri til að nálgast umsóknareyðublað fyrir starfsfólk barnaverndarnefnda til að sækja um MST meðferð fyrir barn.

Teymisstjórar MST og inntökuteymi Barnaverndarstofu taka ákvarðanir um umsóknir. Hafi starfsmaður barnaverndarnefndar hug á að sækja um MST en er ekki viss hvort úrræðið henti viðkomandi skjólstæðingi getur hann haft samband við teymisstjóra MST og fengið ráðgjöf þar að lútandi. Eftir að umsókn um MST berst til Barnaverndarstofu fara teymisstjórar ásamt barnaverndarstarfsmanni á heimili viðkomandi barns. Í heimsókninni er úrræðið kynnt nánar fyrir foreldrum, farið yfir skilyrði fyrir þátttöku og hegðun barns metin nánar með tilliti til umsóknarskilyrða. Viðkomandi barnaverndarnefnd fær að vita svo fljótt sem auðið er hvort umsókn er samþykkt eða ekki og hvenær meðferð getur hafist.

Meðferð á heimaslóðum
MST fer fram á heimili fjölskyldunnar og gerir þá kröfu að barnið búi á heimilinu. MST snýr að öllu nærumhverfi barnsins: foreldrum, fjölskyldu, félagahópi, skóla og tómstundum. Reynt er að bæta samheldni innan fjölskyldunnar, tengsl og samráð foreldra og skóla og annarra lykilaðila í umhverfi barnsins. Meðferðin felst í að draga úr eða yfirvinna vandamál barns miðað við skilgreind meðferðarmarkmið og almennt að efla hæfni og bjargráð foreldra til að takast á við aðsteðjandi vandamál.

 MST
MST meðferðin þykir fullreynd eftir 3-5 mánuði sem er að öllu jöfnu hámarkslengd. Áhersla er lögð á það að halda meðferðinni áfram innan þessa tímaramma svo fremi sem meðferðaraðilar telja sig sjá tækifæri til að hreyfa við þeim áhrifavöldum sem skilgreindir hafa verið. Því reynir meðferðin á samvinnu, úthald og ábyrgð þeirra kerfa sem unnið er með, s.s. meðferðaraðila, tilvísunaraðila (barnaverndin), foreldra og skóla. Aftur á móti getur meðferðinni einnig lokið fyrr ef í ljós kemur að vandi fjölskyldu og barns er þess eðlis að ekki ræðst við hann með MST meðferð og að vista þarf barnið í stofnanameðferð. 

 
Meðferðarmarkmið og landsmarkmið
Í MST er unnið með skýr og skilgreind meðferðarmarkmið sem brotin eru niður í undirmarkmið. Metið er frá einni viku til annarrar hvaða leiðir (meðferðarinngrip) eru að markmiðum og að hve miklu leyti þeim er náð. Meðferðarmarkmið í hverju einstaklingsmáli taka mið af vanda barnsins og þurfa einnig að vera þess eðlis að þau endurspeglist í heildarmarkmiðum MST prógrammsins (landsmarkmiðum fyrir MST á Íslandi sjá Markmið og leiðbeiningar fyrir Fjölkerfameðferð). 

Heildarmarkmið MST eru:

 • að barn búi heima hjá sér
 • stundi skóla eða vinnu
 • komist ekki í kast við lögin
 • noti ekki vímuefni
 • beiti ekki ofbeldi eða hótunum


Hér má sjá markmið og leiðbeiningar fyrir MST á Íslandi

Meðferðarteymi
MST meðferðarteymin samanstanda af 3-4 þerapistum og einum handleiðara sem jafnframt er teymisstjóri. Hver þerapisti sinnir 8-10 fjölskyldum á ári. Þerapisti hittir foreldra (og eftir aðstæðum barn) á heimili þeirra eftir samkomulagi og foreldrar hafa jafnframt aðgengi að þerapista í síma allan sólarhringinn. Ekki er þó ætlast til þess að þerapisti fari á staðinn eins og um útkall eða bráðaþjónustu sé að ræða.

Eftirlit með gæðum í meðferðinni
Eftirlit er haft með gæðum í meðferðinni, teymisstjóri veitir þerapistum vikulega faghandleiðslu í samræmi við aðferðafræði MST þar sem fram fer greining á framgangi meðferðar og mat á meðferðarinngripum. Í framhaldi er símafundur um sama efni með MST sérfræðingi. Reglulega er kannað með aðstoð matslista hvort þerapistar og teymisstjóri halda sig við aðferðir MST. Árangur af meðferðinni er metinn útfrá skilgreindum landsmarkmiðum (sjá hér að framan) þegar henni lýkur og einnig eftir 6, 12 og 18 mánuði.

Verkferli í MST meðferðinni
Í MST er unnið eftir ákveðnu verkferli og meðferðarreglum sem sjá má hér að neðan:       Teymisstjórar í MST eru ávallt reiðubúnir að heimsækja starfsmenn barnaverndarnefnda og kynna úrræðið og framkvæmd þess nánar.

greining-minni-mynd

 

Meginreglur í framkvæmd MST

1. Að finna samhengið
Greining og mat miðar fyrst og fremst að því að finna út hvernig umrædd vandamál tengjast í stærra samhengi mismunandi kerfa (barn, fjölskylda, vinir, skóli o.s.frv).
2. Áhersla á hið jákvæða og á styrkleika
Meðferðaraðilar skulu leggja áherslu á hið jákvæða og styrkleika hvers kerfis sem hreyfiafl til breytinga.
3. Auka ábyrgð
Meðferðarinngrip skulu gerð með það fyrir augum að efla ábyrga hegðun og draga úr óábyrgri hegðun fjölskyldumeðlima.
4. Áhersla á nútíð, aðgerðir og skýrar skilgreiningar
Meðferðarinngrip skulu beina sjónum að stöðunni eins og hún er í dag, vera aðgerðatengd og beinast að afmörkuðum og vel skilgreindum vandamálum.
5. Koma auga á endurtekningar
Meðferðarinngrip skulu beinast að endurteknum hegðunarmynstrum sem viðhalda umræddum vanda innan og á milli mismunandi kerfa.
6. Í takt við þroska
Meðferðarinngrip skulu vera í takt við og tengjast þroska unglings.
7. Stöðugt framlag
Meðferðarinngrip skulu gera ráð fyrir daglegu eða vikulegu framlagi fjölskyldumeðlima.
8. Mat og ábyrgð
Árangur meðferðarinngripa er stöðugt metinn útfrá mismunandi sjónarhornum og meðferðaraðilar taka ábyrgð á því að yfirvinna hindranir á leið til árangurs.
9. Alhæfing
Meðferðarinngrip skulu gerð með það fyrir augum að þau leiði til alhæfingar meðferðarárangurs og breytinga til lengri tíma, með því að efla hæfni foreldra til að takast á við þarfir fjölskyldumeðlima í mismunandi aðstæðum.

 

 

Til baka


Language