Meðferðarheimili

Meðferðarheimili á vegum Barnaverndarstofu eru tvö bæði staðsett á landsbyggðinni, Laugaland er í Eyjafjarðarsveit og Lækjarbakki er á Rangárvöllum. Um er að ræða rými fyrir samtals 12 börn á aldrinum 13 til 18 ára.

Þá er Meðferðarstöð ríkisins, Stuðlar að Fossaleyni 17 í Grafarvogi, þar er greiningar- og meðferðarvistun fyrir 6 börn í einu en að auki eru þar 6 rými fyrir börn á lokaðri deild. Því má segja að Barnaverndarstofa hafi yfir að ráða u.þ.b. 30 rýmum á stofnunum og heimilum á vegum ríkisins.

hus-blattSmelltu á hnappinn til vinstri til að ná í eyðublað fyrir barnaverndarstarfsfólk til að sækja um meðferð fyrir barn.
Einungis starfsfólk barnaverndar getur sótt um meðferð á heimilum sem rekin eru samkvæmt barnaverndarlögum.  Umsóknir skulu berast til Barnaverndarstofu að fengnu samþykki forsjármanna og barns sem náð hefur 15 ára aldri. Vistun án samþykkis forsjármanna og/eða barns eldri en 15 ára kemur eingöngu til álita hafi barnaverndarnefnd og/eða dómstólar úrskurðað þar að lútandi. Barnaverndarstofa leggur mat á umsóknir og tekur ákvörðun um afgreiðslu þeirra. Ákvörðun tekur mið af vanda barnanna, heilsufarssögu, félagslegri stöðu, fjölskylduaðstæðum, námsstöðu og áföllum sem börn kunna að hafa orðið fyrir ásamt afskiptum lögreglu. Einnig er haft til viðmiðunar hvaða úrræðum hefur verið beitt áður. Skilyrði fyrir vistun á meðferðarheimili er að barn hafi lokið meðferð á Stuðlum. Ítarleg og vel rökstudd gögn í máli barnsins sem fengist hafa með öðrum hætti geta á sama hátt legið til grundvallar ákvörðun um vistun á meðferðarheimili.

Stadlar--mynd-minniStaðlar fyrir vistun eða fóstur barna á vegum barnaverndaryfirvalda skilgreina kröfur um verklag og eiga að bæta gæði umönnunar, treysta öryggi og rétt barna sem vistuð eru utan heimilis. Staðall er skilgreining á gæðakröfu eða lýsing á því hvernig vel sé staðið að einstökum verkþætti við vistun barns eða fóstur á vegum barnaverndaryfirvalda.

Til baka


Language