Lækjarbakki

Meðferðar- og skólaheimilið Lækjarbakki

LaekjarbakkiPóstfang: 851 Hella
Sími: 487-5163
Forstöðumaður: Yngvi Karl Jónsson
Netfang: yngvi(hjá)bvs.is

Staðsetning: Rangárþing ytra, 105 km frá Reykjavík
Húsrými 591,7 fm auk útihúss 263,8 fm
Fjöldi barna: 6 
Aldur: 14 til 18 ára

Starfsfólk
Á Lækjarbakka sem tók til starfa í ágúst 2010 starfa alls 16 starfsmenn (14,2 stöðugildi) sem ganga vaktir. Þá er sálfræðiþjónusta veitt frá Stuðlum og þrír kennarar (2 stöðugildi) sjá um kennsluna sem er á vegum Laugalandsskóla.

Markhópur 
Meðferðin á Lækjarbakka er ætluð unglingum sem glíma við alvarlegan hegðunarvanda þegar önnur og vægari úrræði á vegum barnaverndaryfirvalda hafa ekki skilað tilætluðum árangri. Að öllu jöfnu er gert ráð fyrir að unglingur hafi áður lokið meðferð á Stuðlum. Hegðunarvandinn getur falist í vímuefnaneyslu, ofbeldi, afbrotum, skóla- og námserfiðleikum og öðrum sálfélagslegum vanda.

Meðferðartími og meðferðarmarkmið
Vistun og meðferð á Lækjarbakka getur varað í allt að sex mánuði en þá tekur við eftirmeðferð í allt að þrjá mánuði. Lengd meðferðar er einstaklingsbundin og tekur mið af stöðu meðferðarmarkmiða hvers og eins og annarra aðstæðna. Áhersla er lögð á þátttöku foreldra í meðferðinni og leitast við að unglingur dvelji í sem skemmstan tíma á sjálfu meðferðarheimilinu enda auðveldi það aðlögun að heimahögum og auki líkur á jákvæðum árangri. Sérfræðingur á vegum Lækjarbakka og tengill unglings sinna eftirmeðferðinni sem er einstaklingsbundin og felst í stuðningi og meðferðarfundum með unglingi og foreldrum.
Meðferðin er einstaklingsbundin en meginmarkmiðin eru að:

- Efla félagsfærni, sjálfstjórn, jákvæða eiginleika og hæfileika unglings
- Draga úr og stöðva vímuefnaneyslu, ofbeldi og afbrot
- Bæta möguleika unglings til að stunda skóla og/eða vinnu við hæfi
- Auka líkur á að unglingur geti búið heima eða í öðrum viðurkenndum heimilisaðstæðum að vistun lokinni
- Auka hæfni og bjargráð foreldra (forsjáraðila) til að takast á við aðsteðjandi vandamál
- Styrkja tengsl og bæta samskipti milli unglings, foreldra, fjölskyldu og í nærumhverfi


Innihald meðferðar og leiðir að markmiðum

Meðferðinni er beint að þekktum áhættuþáttum í hegðunarvanda og vímuefnaneyslu barna og unglinga, svo sem samskiptum og hugsanlegum vanda í fjölskyldu, neikvæðum viðhorfum og fyrirmyndum sem og námserfiðleikum eða öðrum erfiðleikum á sviði hugarstarfs og hæfni. Í meðferðinni er stuðst við viðurkenndar aðferðir sem meðal annars byggja á atferlismótun, hugrænni atferlismeðferð, leiðbeinandi fjölskyldumeðferð og áhugahvetjandi samtalsaðferðum (Motivational Interviewing).

Áhersla er á þjálfun í félagsfærni og sjálfstjórn, meðal annars með ART-þjálfun (Aggression Replacement Training). Þjálfunin og meðferðin miða m.a. að því að auka hæfni og áhuga á að finna betri lausnir í samskiptum, að hugsa um og takast á við aðstæður sem geta leitt til vandræða og átta sig á hvaða tilfinningar fylgja því. Notað er umbunar- og þrepakerfi sem styður við atferlismótun og árangur í að fylgja ákveðnum reglum, standa við samninga og að vanda sig í samskiptum. MI

Foreldrar (forsjáraðilar) eru mjög mikilvægir þátttakendur í meðferðinni og fá stuðning og fræðslu meðan á vistun barnsins stendur sem og í eftirmeðferð. Lögð er áhersla á samvinnu foreldra og barnaverndarstarfsmanna við starfsfólk Lækjarbakka í formi funda, vinnslu meðferðaráætlana, reglulegra heimsókna og gagnkvæmu upplýsingaflæði. Mikilvæg forsenda meðferðar er að fullorðnir standi saman um meðferð barns. Lögð áhersla á jákvæða umbun og styrkleika foreldra og unglings. Reynt er að virkja jákvæðar fyrirmyndir í fjölskyldu, vinahópi og tómstundum og unnið í samstarfi við aðra aðila í nærumhverfi eins og heimaskóla ef þess er kostur. Í samráði við foreldra og í takti við stöðu unglings í meðferðinni er lögð áhersla á reglulegar heimferðir og dvöl unglings þar nokkra daga í senn (oft nefnt helgarleyfi). Þetta er mikilvæg forsenda fyrir yfirfærslu og alhæfingu meðferðarárangurs í heimahögum og til að vinna jafnóðum úr bakslögum.

Skólastarf og tómstundir
Kennsla fer fram á meðferðarheimilinu og eru það kennarar í tveimur stöðugildum sem sinna henni. Skólastarfið tekur mið af einstaklingsþörfum og getur því hvoru tveggja verið hefðbundið grunn- eða framhaldsskólanám eða sérsniðið nám sem miðar oftast að því að gera nemandanum kleift að setjast á skólabekk á nýjan leik. Allir nemendur á Lækjarbakka taka á einhvern hátt þátt í skólastarfinu, hvort sem þeir hafa lokið grunnskólaprófi eða ekki. Skólinn og námið eru samtvinnuð meðferðarstarfinu og taka kennarar fullan þátt í því með öðrum starfsmönnum meðferðarheimilisins. Á Lækjarbakka er til að mynda smíðaverkstæði, aðstaða til tónlistariðkunar, billjardborð, fjárhús með nokkrum kindum og miklir möguleikar á alls kyns útivist svo sem gönguferðum, veiðiferðum, hjólreiðum, hestaferðum, sundi og kajakferðum svo eitthvað sé nefnt.

Ársskýrsla Lækjarbakka 2010 - 2011

Til baka


Language