Stuðlar

Meðferðarstöð ríkisins

Studlar
Fossaleyni 17
Póstfang: 112 Reykjavík
Sími:  
Heimasíða www.studlar.is
Forstöðumaður: Funi Sigurðsson, sálfræðingur
Netfang: funi(hjá)bvs.is
Fjöldi rýma: 6 á meðferðardeild og að hámarki 6 á lokaðri deild. 
Húsrými: 960 fm
Fjöldi starfmanna: 34 í tæpum 30 stöðugildum.
Skóli: Kennari í einu stöðugildi sinnir kennslu inni á Stuðlum

Starfsemin á Stuðlum skiptist í tvennt: Meðferðardeild þar sem fram fer greining og meðferð og lokuð deild. 

Á lokaðri deild geta Barnaverndarnefndir bráðavistað börn á aldrinum 13 - 18 ára. Lokaða deildin er ætluð til að barnaverndarstarfsfólk geti tryggt öryggi barna vegna meintra afbrota eða alvarlegra hegðunarerfiðleika meðan önnur úrræði eru undirbúin. Hámarkstími vistunar er 14 dagar. Starfsmenn lokuðu deildarinnar aðstoða barnaverndarstarfsfólk við að meta stöðu barnsins. Forstöðumenn meðferðarheimila sem starfa á vegum Barnaverndarstofu geta vistað á lokaðri deild ef þörf krefur.

Á meðferðardeild
eru rými fyrir sex börn í senn og er meðferðartími að jafnaði 6 - 8 vikur. Á Stuðlum fer fram greining á vanda barns og meðferð. Í meðferðinni er notað atferlismótandi þrepa- og stigakerfi. Byggt er á einstaklings- og fjölskylduviðtölum, sálfræðiathugunum og úrvinnslu upplýsinga t.a.m. frá barnaverndarnefndum, fyrri meðferðaraðilum og skóla. Þá eru samskipti barns, líðan þess og viðhorf mikilvægir þættir í meðferðinni.  Í meðferðinni er reynt að auka félagsfærni, sjálfstjórn og hæfni til að nýta eigin styrkleika. Daglega er farið í útivist, tómstundir eða íþróttir. Skólanám er á vegum Brúarskóla og er þar kennari í einu stöðugildi sem sinnir kennslu á Stuðlum. Foreldrar eru í samskiptum við börn sín í meðferðarviðtölum, á heimsóknartímum og í helgarleyfum í þeim tilgangi að tryggja meðferðarárangur og efla fjölskylduna. Fyrir útskrift fer fram aðlögun barns að sínu fyrra umhverfi í samstarfi við foreldra, barn, skóla og barnaverndarstarfsfólk. Í samráði við barnavernd og foreldra er metið hvort barnið þurfi frekari meðferð t.d. á meðferðarheimili, MST meðferð eða hvort barn þurfi að fara í fóstur. Fjölskyldur eiga kost á eftirmeðferð á vegum Stuðla. Hún felst í fjölskylduviðtölum í tiltekin fjölda skipta hjá sálfræðingi eða öðrum starfsmönnum meðferðardeildar.

Börn sem koma á Stuðla stríða við margvísleg og samsett hegðunar- og tilfinningavandamál. Sum hafa leiðst útí áfengis- eða aðra vímuefnaneyslu, afbrot eða ofbeldishegðun og glíma við náms og aðlögunarvanda. Sum búa við erfiðar heimilisaðstæður, hafa verið þolendur ofbeldis og misnotkunar eða glíma við önnur langvarandi vandamál og hafa fengið þjónustu margra sérfræðinga og stofnana í gegnum árin.

Til baka


Language