Foster-Pride

Mat á hæfni umsækjenda um leyfi sem fósturforeldrar.

Samkvæmt 9. gr. reglugerðar um fóstur nr. 804/2004 ber umsækjanda að sækja námskeið á vegum Barnaverndarstofu áður en leyfi er veitt. Markmið með námskeiði er annars vegar að leggja mat á hæfni umsækjanda og hins vegar að veita umsækjanda nauðsynlega þjálfun og undirbúa hann undir hlutverk sitt. - Pride námskeiðið er bandarískt að uppruna og uppbyggt sem undirbúningsnámskeið fyrir fósturforeldra og matferli á hæfni þeirra. Kennslufyrirkomulag er í fyrirlestrarformi, umræður, hópvinna, æfingar og heimaverkefni. Þar sem stefnan er að þeir sem hafa sótt námskeiðið gangi fyrir við val á fósturforeldrum er þeim boðið að taka þátt sem áður hafa fengið leyfi Barnaverndarstofu. Ef um hjón eða sambýlisfólk er að ræða er skilyrði að báðir sæki námskeiðið. Hámark þátttakenda á námskeiðinu eru 20 og mikilvægt að allir geti mætt alla daga námskeiðsins. Námskeiðið hefur verið haldið í húsnæði Barnaverndarstofu að Borgartúni 21 Reykjavík og er námskeiðið þátttakendum að kostnaðarlausu en þátttakendur standa straum af ferðakostnaði og uppihaldi á meðan námskeið stendur yfir.

Skilyrði til þátttöku er að viðkomandi uppfylli þær almennu kröfur sem fram koma í 6. gr. reglugerðar um fóstur nr. 804/2004 og hafi samþykki barnaverndarnefndar í heimilisumdæmi sínu sem fósturforeldri. Námskeiðið stendur yfir í 10 vikur og er haldið tvær helgar og einn virkan dag. Námskeiðinu er skipt upp í 10 lotur og er hver lota 3 klukkustundir. Á milli tímanna fara leiðbeinendur í heimsóknir á heimili þátttakenda, 3-4 heimsóknir á hvert heimili.

Markmið námskeiðsins er að gera fósturforeldra hæfari í hlutverki sínu. Lagðar eru áherslur á 5 megin hæfniskröfur sem eru að geta annast og alið upp barn, þekkja þroskaferli barns og mætt frávikum í því ferli, stuðla að tengslum barns við fjölskyldu þess, geta unnið í teymi og stuðlað að því að barnið myndi traust og þroskandi tengsl við fjölskyldu sem ætlað er að vara til frambúðar.

Í byrjun námskeiðs fá þátttakendur kennslubók og lífsbók (vinnubók). Í lífsbókinni eru spurningar varðandi þátttakendur og aðstæður þeirra og er bókin notuð sem tæki til að meta hæfni þeirra sem fósturforeldrar.


Yfirlit yfir námskeiðið

Lota 1. Kynning á PRIDE
Í lotu 1 fá þátttakendur innsýn í hvaða markmiðum Pride-námskeiðið er ætlað að þjóna og hvaða vinnuaðferðir eru viðhafðar. Markmið eru kynnt og hvernig námskeiðið og úttektin á hæfni þátttakenda haldast í hendur. Kynnt er hvernig sameiginlegt mat fer fram og hvernig komist er að niðurstöðu um hvort þátttakendur teljist hæfir sem fósturforeldrar.
Skoðuð verða svör við spurningunum: Hvað eru fósturmál og hvers vegna þarf barn að flytja frá sinni fjölskyldu til annarrar? Hvaða hæfniskröfur eru gerðar til fósturheimilis, hverjar eru fórnirnar og hver er ávinningurinn? Sérstakt viðfangsefni á þessum fundi er myndband sem gefur innsýn í barnaverndarstarf og fósturmál. Myndbandið er unnið í Bandaríkjunum og er miðað við bandarískar vinnuaðferðir. Þátttakendur fá kennslubók sem unnið er með í tímum og heima. Önnur viðfangsefni sem eru kynnt eru lífsbókin (vinnubókin) og heimaverkefni.

Lota 2. Að vinna í teymi
Í lotu 2 er lögð áhersla á hve fjölskyldan og tengsl innan hennar eru mikilvæg fyrir barn til þess að það geti þroskað sína sjálfsmynd og öðlast sjálfstraust. Rætt er um hve mikilvægt er og hve mikil ábyrgð fylgir því að skapa stöðugleika og öryggi hjá barni sem barnaverndarnefnd hefur haft afskipti af. Þessi fundur fjallar einnig um hve mikilvæg samvinnan er þegar fósturbarn og kynforeldrar þess eiga í hlut og hið sérstaka hlutverk sem fósturforeldrar gegna í faglegu teymi.

Lota 3. Að mæta þörfum barns fyrir nærveru og tengsl
Í lotu 3 er farið í gegnum grunninn í þroska barns. Mikilvægi nærveru og tengsla er sérstaklega rætt með áherslu á hvað fósturforeldrar geta gert til að skapa eða endurvekja traust hjá barni sem hefur verið vanrækt á einhvern hátt.

Lota 4. Að upplifa missi eða sorg
Í lotu 4 er fjallað um ýmis atriði sem geta skaðað þroska barns. Erfið reynsla barnsins áður en því er komið í fóstur og síðan sorgin þegar það er tekið frá fjölskyldu sinni geta haft mikil áhrif á þroskaferilinn. Þess vegna er mikilvægt að taka á þessu sorgarferli á markvissan hátt. Sorgarferlinu fylgja ákveðnar tilfinningar og viðbrögð. Við rökræðum hvað fósturfjölskyldan getur gert til að hjálpa barni að takast á við sorgina.
Sorg er almenn reynsla og þátttakendur eiga að velta fyrir sér hvernig þeir sjálfir hafa sigrast á sorgum í lífinu og hvernig sú reynsla getur hjálpað þeim sem fósturforeldrum í framtíðinni.

Lota 5. Að styrkja tengsl við fjölskylduna
Í lotu 5 er fjallað um mikilvægi fjölskyldunnar fyrir þroska barnsins, sjálfsmynd, samfélagsaðlögun og sjálfstraust. Í tímabundnu fóstri vinnur félagsþjónustan að því að barnið fari aftur til fjölskyldu sinnar og við munum ræða um hvernig hægt er að létta barninu heimkomuna. Einnig er fjallað um hvernig hægt er að styrkja tengsl barns við kynfjölskyldu sína þrátt fyrir að barni sé komið í varanlegt fóstur og markmiðið að barnið flytji ekki aftur til kynforeldra. Lögð er áhersla á hve mikilvæg umgengni við kynforeldra er á meðan fóstur varir. Sú umgengi krefst skipulags, undirbúnings og einnig viðbúnaðar vegna viðbragða barnsins við henni.

Lota 6. Að ala upp barn
Í lotu 6 er lögð áhersla á hve ögrandi verkefni það er að taka barn í fóstur. Orðið uppeldi er skilgreint og markmiðum með uppeldi eru gerð skil. Þar að auki er rætt um mismuninn á því að ala upp og refsa. Lögin um bann við líkamsrefsingum eru kynnt og vakin er athygli á neikvæðum áhrifum andlegra og líkamlegra refsinga. Dæmi eru gefin um jákvæðar og uppbyggjandi leiðir til að kenna börnum að sýna tilfinningar sínar á viðurkenndan hátt. Þátttakendur fá fræðslu um orsakir sterkra tilfinninga fósturbarna og hvernig þessar tilfinningar hafa áhrif á hegðun þeirra og hvernig fósturfjölskyldur geta komið til móts við börnin á skilvirkan og áhrifaríkan máta.

Lota 7. Að stuðla að því að barn myndi varanleg tengsl

Í lotu 7 er fjallað um á mismunandi hátt hvernig hægt er að efla trygg og þroskandi tengsl hjá börnum eða unglingum sem eiga að vara út lífið. Í tímabundnu fóstri er markvisst unnið að sameiningu barns og kynforeldra þess en stundum gengur það ekki eftir og er þá mikilvægt fyrir fósturforeldra að gera það upp við sig hversu tilbúnir þeir eru til að taka fósturbarnið að sér til frambúðar. Einnig er fjallað um mikilvægi þess að hjálpa unglingum til að standa á eigin fótum þegar fóstri lýkur. Í varanlegu fóstri er markmiðið strax frá upphafi ljóst og rætt er um mikilvægi uppbyggjandi tengsla sem eiga að vara lífið út.

Lota 8. Að lifa með breytingum
Í lotu 8 er fjallað um áhrif fósturbarnsins á líf fósturfjölskyldunnar. Lögð er áhersla á fyrstu tímana, dagana og vikurnar eftir að barnið kemur á fósturheimilið. Á hverju getur maður átt von, hvaða spurninga eiga fósturforeldrar að spyrja og hvernig er hægt að láta barninu líða vel hjá sinni nýju fjölskyldu?
Langtímaáhrif á líf fósturfjölskyldunnar eru einnig rædd. Hugsanlegt er að fósturfjölskyldan verði ásökuð fyrir ofbeldi eða annað misferli og rætt er um ólíkar leiðir til þess að reyna að koma í veg fyrir slíkt.

Lota 9. Að taka yfirvegaða ákvörðun
Í lotu 9 fá þátttakendur tækifæri til að auka þekkingu sína um fósturmál með því að hitta ólíka aðila sem hugsanlega geta verið í teymi í kringum fósturbarn eða hafa þekkingu á málefnum fósturbarna. Þátttakendur geta komið með sínar óskir um umræður þar sem t.d. tækju þátt sérfræðingur um fósturmál frá barnaverndaryfirvöldum, sálfræðingur, fósturbarn, barn fósturforeldra, kynforeldri, stjórnmálamaður o.s.frv. Á þennan fund mega þátttakendur einnig bjóða nákomnum sem koma til með að hafa áhrif á ákvörðun þeirra um að gerast fósturforeldrar.

Lota 10. Að kveðja og halda á braut
Í lotu 10 og síðustu lotunni er ætlað að meta menntunina í heild sinni. Þátttakendum gefst möguleiki á að velta fyrir sér eigin reynslu og þroska og meta sínar eigin forsendur í tengslum við hæfniskröfurnar sem gerðar eru til fósturforeldra til þess að geta tekið ákvörðun um hvort þeir eru tilbúnir til að gerast fósturforeldrar eða ekki.

Til baka


Language