Algengar spurningar

Hvernær ætti ég að tilkynna til barnaverndar?
Ef þú hefur áhyggjur af barni og telur að foreldrar þess séu ekki færir um góða umönnun þess, ættir þú að tilkynna til barnaverndarnefndar.

Hvernig veit ég hvort það er nægilega alvarlegt?
Ef þú hefur áhyggjur, ættir þú að tilkynna málið. Þín tilkynning getur verið mjög mikilvæg fyrir barnið sem um ræðir. Það er eðlilegt að óttast að maður sé kannski að gera úlfalda úr mýflugu, eða oftúlka aðstæður eða atburð. Margir hafa áhyggjur af því að þetta sé kannski ekki nægilega alvarlegt eða að tilkynning geti búið til óþarfa vandamál. Það er verkefni barnaverndarinnar að meta áhyggjur og hvort að þörf sé á aðstoð. Þitt verkefni er að tryggja að barnaverndarstarfsmenn fái að vita um börn sem hafa það erfitt.

Hér má sjá norskt myndband um Söru sem dæmi um barn sem gæti þurft hjálp barnaverndar.  

Get ég tilkynnt um mál án þess að gefa upp nafn mitt?
Þú verður alltaf að gefa upp nafnið þitt við barnaverndina (svo þeir geti talað betur við þig ef þörf er á) en þú getur óskað nafnleyndar gagnvart öllum öðrum, þannig að sá sem þú ert að tilkynna viti ekki hver þú ert. Mikilvægt er þó að hafa í huga að oft eru engin önnur vitni að atburðinum sem leiða til tilkynningar og þá er auðvelt fyrir hinn aðilann að vita hver tilkynnti. Ef þú ert óviss um hvort þú ættir að segja frá áhyggjum þínum, getur þú hringt og haft samráð við barnaverndarstarfsfólk þar sem þú býrð.

Hvernig næ ég í barnaverndarstarfmann?
Á daginn getur þú hringt í sveitafélagið þar sem barnið býr og beðið um að fá að tala við barnaverndarstarfsmann. Þá færð þú að tala við barnaverndarstarfsmann um áhyggjur þínar eða þá að það eru tekin skilaboð frá þér og haft samband síðar. Þú getur líka skrifað bréf með áhyggjum þínum til barnaverndarinnar. Á kvöldin og um helgar getur þú hringt í 112 en það er neyðarnúmer sem alltaf er opið og starfsmenn þar koma áhyggjum þínum áfram til barnaverndarinnar í sveitafélaginu þar sem barnið býr.

Hvað gerist þegar ég tilkynni til barnaverndaryfirvalda?

  • Þú færð samband við barnaverndarstarfsmann sem skrifar niður það sem þú hefur séð og heyrt. Flestir sem vinna með málin eru félagsráðgjafar með reynslu í barnavernd. Starfsfólk getur einnig haft aðra menntun s.s sálfræði eða félagsfræði.
  • Innan 7 daga frá því að tilkynning berst til barnaverndar taka starfsmenn hennar ákvörðun um hvort hefja skuli könnun á málinu, en könnun er rannsókn á því sem þú hefur greint frá, eða hvort að ákveðið er að hefja ekki könnun sökum þess að málið hafi ekki verið metið nægilega alvarlegt. Þessi sjö daga frestur er samkvæmt barnaverndarlögum. Á þessum tímapunkti mega barnaverndarstarfsmenn aðeins skoða þau gögn um barnið sem mögulega eru til hjá barnavernd og hafa aftur samband við tilkynnanda til að átta sig betur á málinu.
  • Ef tilkynningin er metin sem nógu alvarleg, hefst könnun á málinu og ætti samkvæmt lögum ekki að taka lengri tíma en þrjá mánuði, í undantekningartilvikum má könnun taka 4 mánuði ef um alvarleg og flókin mál er að ræða.
  • Á meðan könnun stendur tala barnaverndarstarfsmenn yfirleitt við báða foreldrana og barnið. Þeir fara oft heim til barnsins til að fá nánari hugmynd um stöðu fjölskyldunnar. Oftast fá þeir upplýsingar frá skóla eða leikskóla barnsins. Einnig er algengt að þeir fái upplýsingar frá lögregluyfirvöldum og frá heilbrigðiskerfinu. Þetta fer þó allt eftir eðli málsins og alvarleika.
  • Þegar könnun er lokið tekur barnaverndarstarfsmaðurinn saman greinargerð um niðurstöðu könnunar og kynnir hana fyrir foreldrum og barni á grundvelli hennar er ákveðið hvað á að gera næst til að hjálpa fjölskyldunni. Í sumum tilvikum er málinu lokað eftir slíka rannsókn. Það gerist annað hvort af því að fjölskyldan fær aðstoð frá annarri stofnun, málið er leyst á annan hátt eða að könnun leiddi í ljós að ekki var þörf fyrir aðstoð.

Hvað geta barnaverndaryfirvöld gert til að hjálpa börnum, unglingum og fjölskyldum?
Í samvinnu við barn og foreldra gerir barnaverndarstarfsmaðurinn áætlun í málinu - áætlun er  einhversskonar samningur um hvaða ráðstafanir þurfi að grípa til og hvaða stuðning fjölskyldan eða barnið þurfi til að bæta ástandið.

Flestar ráðstafanir eiga sér stað meðan barnið er heima hjá foreldrum sínum. Slík aðstoð getur verið:

  • Pláss á leikskóla
  • Pláss á frístundaheimili
  • Persónulegur ráðgjafi fyrir barnið (sem m.a. hjálpar barninu að finna sér áhugamál)
  • Stuðningsfjölskylda (þar sem barn getur dvalið t.d. eina helgi í mánuði)
  • Ráðgjöf og leiðbeiningar fyrir foreldra (s.s. uppeldisráðgjöf, viðtalsmeðferð)
  • Fjölskyldusamráð (er aðferð sem stundum er notum þar sem stórfjölskyldan reynir að leysa málið án íhlutunar barnaverndarnefndar)
  • Fjárhagslegur stuðningur
  • Tilsjón inn á heimili (aðstoð við heimilishald, skipulag, utanumhald osfr. sem varðar heimilið)

Í sumum tilvikum þarf barnið að fara af heimili sínu til að geta fengið hjálp. Í flestum tilvikum býr barnið eða unglingurinn þá á fósturheimili. En einhver geta þurft á því að halda að fara í meðferð vegna neyslu eða hegðunarerfiðleika og búa þá á meðferðarheimilum frá 6 - 8 vikum til 6 - 9 mánuði allt eftir eðli málsins og þörfum barnsins.

Barnavernd reynir einnig að auðvelda samskipti við aðra hjálp fyrir börn s.s. barna- og unglingageðdeild (BUGL), fræðsluþjónustur sveitarfélaga, viðtalsþjónustu hjá ýmsum fagaðilum s.s. félagsráðgjöfum, hjúkrunarfræðingum og sálfræðingum. 

Fæ ég að vita af því ef málið er fellt niður?
Nei. Barnaverndaryfirvöld hafa þagnarskyldu um samskipti sín við einstaklinga eða fjölskyldur, og getur þessvegna ekki gefið upp neinar persónulegar upplýsingar um einstök mál nema við þá sem eru aðilar málsins sem oftast eru barnið og foreldrar þess.

Tíminn líður og ég hef enn áhyggjur: Ætti ég að hringja aftur?
Já, þú ættir að gera það. Það að hafa einu sinni tilkynnt mál á ekki að hindra að tilkynna aftur. Málin geta tekið tíma, geta breyst og stundum er erfitt að fá samvinnu við foreldra og þess vegna getur verið gott að fá sem flestar upplýsingar í málið.

Trúnaðar er gætt við fjölskyldur sem fá hjálp frá barnaverndaryfirvöldum. Þess vegna kemur þú ekki til með að fá að vita hvað barnavernd hefur gert síðan þú hringdir síðast. Engu að síður er mikilvægt að þú hafir samband ef þú hefur áhyggjur, og útskýrir hvers vegna.

Verð ég málsaðili ef ég tilkynni til barnaverndaryfirvalda?
Þú verður ekki málsaðili ef þú tilkynnir. Málsaðilar eru einungis þeir sem málið hefur bein áhrif á, þ.e.a.s. yfirleitt móðir, faðir og barn.

Hvað gerist ef tilkynnt er um barnið mitt?
Tilkynning til barnaverndaryfirvalda er ekki kæra heldur beiðni um aðstoð fyrir viðkomandi barn/fjölskyldu, sem tilkynnandi telur hjálparþurfi. Samkvæmt barnaverndarlögum er foreldrum eða þeim sem barnið dvelst hjá skylt að veita liðsinni sitt til að könnun málsins geti gengið greiðlega fyrir sig, enda skulu starfsmenn nefndarinnar sýna þeim er málið snertir nærgætni. Könnunin skal ekki vera umfangsmeiri en þörf krefur. Sjálfsagt er að spyrja starfsmenn um rétt foreldra og hvernig könnun fer fram enda ber starfsmönnum að leiðbeina foreldrum og barni um rétt þeirra. Um heimildir og skyldur starfsmanna við könnun máls er fjallað í 22. gr. og VIII. kafla grein barnaverndarlaga. Rétt er að hafa í huga að í langflestum barnaverndarmálum eru foreldrar og starfsmenn sammála um að leita þeirra leiða sem bestar eru fyrir barnið.  

Hvað er gert í barnaverndarmálum?
Þegar barnaverndarnefnd fær tilkynningu eða berast upplýsingar með öðrum hætti um að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess geti verið hætta búin, skal hún taka afstöðu til þess án tafar og eigi síðar en innan sjö daga frá því að henni barst tilkynning eða upplýsingar, hvort ástæða sé til að hefja könnun á málinu.

Lögð er áhersla á að fá ítarlegar upplýsingar um tilefni tilkynninga í upphafi. Tilkynning þarf að vera trúverðug og vel rökstudd. Starfsmenn barnaverndarnefndar taka ákvörðun um hvort tilefni sé til að hefja könnun máls.  Foreldrar eru ávallt látnir vita að tilkynning hafi borist og hvaða ákvörðun hafi verið tekin í framhaldinu.

Ef tilefni tilkynningar felur í sér þörf á frekari athugun á aðstæðum barns er gerður samningur við foreldra um könnun máls. Könnun máls skal að öllu jöfnu ekki vara lengur en í þrjá mánuði og er þess gætt að könnunin sé ekki umfangsmeiri en þörf krefur en markmið hennar er að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi og aðstæður barnsins.

Upplýsinga er leitað eftir atvikum hjá ungbarnaeftirliti, á leikskóla, í skóla, hjá ættingjum, barninu sjálfu o.s.frv. Lögð er rík áhersla á viðtöl við börn en slík viðtöl eru að öllu jöfnu háð samþykki foreldra. En í vissum alvarlegum málum s.s. grun um ofbeldi foreldra gegn barni sinu er heimilt að tala við börn án þess að láta foreldra vita fyrst. Svo eru þeir látnir vita þegar búið er að tala við börnin.

Framvinda málsins veltur síðan á því hvað upplýsingaöflun hefur leitt í ljós. Ef ekki þykir ástæða til frekari afskipta á grundvelli barnaverndarlaga er málinu lokað með formlegu bréfi til foreldra/forráðamanns. Þegar þörf er á áframhaldandi aðstoð barnaverndar er í samstarfi við foreldra eða forráðamann gerð meðferðaráætlun með tilheyrandi stuðningsúrræðum eftir því hvernig málum er háttað.

Stuðningur getur m.a. falið í sér viðtöl, eftirlit, umsóknir um stuðningsúrræði og eftirfylgd í málinu.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica