Viltu vita um úrræði í barnavernd?

Stuðningsúrræði í barnavernd


Stuðningsúrræði geta verið margvísleg og er úrræði valið í samráði við foreldra eða forsjáraðila barns og barnið sjálft og gerður samningur, svo kölluð áætlun um meðferð máls. Staða barnsins/fjölskyldunnar er höfð að leiðarljósi við val á stuðningsúrræðum og lögð á það áhersla að stuðningur sé markviss og falli að þörfum hvers og eins. Sveitarfélög eru með fjölbreitt stuðningsúrræði eftir aðstæðum á hverjum stað en einnig eru sérhæfð meðferðarúrræði á vegum Barnaverndarstofu.

Stuðningsúrræði á vegum Barnaverndarstofu:

  • Stuðlar                                                                                                                                                            Stuðlar skiptast í tvær deildir þ.e. meðferðardeild og lokaða deild (almennt kölluð neyðarvistun). Stuðlum er ætlað að þjóna börnum á aldrinum 12 – 18 ára. Á meðferðardeild fer fram greining á vanda barna og meðferð sem að jafnaði stendur yfir í 6 - 8 vikur. Einungis starfsfólk barnaverndarnefnda getur sótt um vistun fyrir börn á meðferðardeild. Á neyðarvistun getur starfsfólk barnaverndarnefnda eða lögregla í samráði við barnaverndina vistað börn á lokaðri deild. Ástæður vistunar geta verið óupplýst afbrot unglings, ofbeldi, vímuefnaneysla eða önnur stjórnlaus. Á neyðarvistun fer fram gæsla og mat á stöðu barns. Hámarkstími vistunar eru 14 dagar í senn fyrir mest 6 börn í einu.
  • Meðferðarheimili
    Meðferðarheimili Barnaverndarstofu eru tvö og bæði staðsett á landsbyggðinni, Laugaland er í Eyjafjarðarsveit og Lækjarbakki er á Rangárvöllum. Um er að ræða rými fyrir samtals 12 börn á aldrinum 13 – 18 ára. Meðferðin tekur að jafnaði 6 -12 mánuði. Ástæður vistunar eru hegðunarröskun, afbrotahegðun, ofbeldi og vímuefnaneysla. Einungis starfsfólk barnaverndar getur sótt um vistun fyrir börn á meðferðarheimilum og verða börnin að hafa áður fengið meðferð og greiningu á Stuðlum.
  • Barnahús
    Börnum sem grunur er um að vera þolendum kynferðisofbeldis er vísað í Barnahús í viðtöl vegna könnunar eða skýrslutöku fyrir dómstóla. Þegar niðurstaðan er sú að börnin þurfi meðferð veita sérfræðingar Barnahúss þá meðferð. Þegar við á er málum einnig vísað til rannsóknar lögreglu. Einnig taka starfmenn Barnahúss könnunarviðtöl við börn sem grunur er um að hafa orðið fyrir öðru líkamlegu ofbeldi.  
  • Fjölkerfameðferð (MST)
    MST er meðferðarúrræði á vegum Barnaverndarstofu fyrir fjölskyldur barna á aldrinum 12-18 ára sem glíma við alvarlegan hegðunarvanda á mörgum sviðum.
  • Sálfræðiþjónusta vegna óviðeigandi kynhegðunar barna
    Þjónustan er í höndum sálfræðinga sem sérhæfa sig á þessu sviði og hafa náið samstarf sín á milli. Þjónustan fer að meginhluta fram á sálfræðistofu þjónustuaðila en hver sálfræðingur vinnur þar sjálfstætt að hverju máli og sér um að boða barn og foreldra (forsjáraðila) til viðtals. 
  • PMTO - FORELDRAFÆRNI!
    PMTO stendur fyrir Parent Management Training – Oregon aðferð, og er sannprófað meðferðarprógramm ætlað foreldrum barna með hegðunarerfiðleika.
    PMTO-FORELDRAFÆRNI er miðstöð PMTO á Íslandi og hefur það hlutverk að innleiða aðferðina hér á landi.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica