Barnahús

Barnaverndarnefndir geta vísað hingað málum barna sem grunur er um að hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.

Barnahús hóf starfsemi í nóvember 1998. Rekstur þess er á vegum Barnaverndarstofu sem fer með stjórn barnaverndarmála í umboði velferðarráðuneytisins.

Baeklingur um barnahusHér til vinstri getur þú skoðað bækling um Barnahús
Barnahús sinnir málefnum barna sem grunur leikur á að hafi sætt kynferðislegri áreitni eða ofbeldi. Barnaverndarnefndir bera ábyrgð á vinnslu slíkra mála og geta óskað eftir þjónustu Barnahúss. Börn og foreldrar þeirra geta með tilvísun barnaverndarnefnda fengið alla þjónustu á einum stað sér að kostnaðarlausu. Sæti mál lögreglurannsókn fer staðsetning skýrslutöku eftir ákvörðun dómara en barnaverndarnefndir geta óskað eftir annarri þjónustu Barnahúss. Barnaverndarnefndir geta leitað til Barnahúss vegna gruns um annars konar ofbeldi gegn börnum.

 

 

Helstu markmið Barnahúss er að;

skapa vettvang fyrir samstarf og samhæfingu stofnana sem bera ábyrgð á rannsókn og meðferð mála er varða kynferðisofbeldi gegn börnum: Dómara, ákæruvalds, lögreglu, barnaverndaryfirvalda og lækna.

koma í veg fyrir áföll vegna endurtekinna viðtala við börn á ólíkum stöðum og við mismunandi aðila.

tryggja faglega hæfni, reynslu og þekkingu til að framkvæma rannsóknarviðtöl við börn.

koma á faglegum verklagsreglum við vinnslu mála er varða kynferðisofbeldi.

efla sérþekkingu um kynferðisofbeldi gegn börnum og miðla þeirri þekkingu jafnt til fagfólks sem almennings.

tryggja barni viðeigandi greiningu og meðferð.

tryggja jákvætt umhverfi sem uppfyllir þarfir barna, fyrir rannsóknarviðtöl, læknisskoðun og meðferð.

Hér að neðan getur þú skoðað bæklinginn "Kynferðisleg hegðun barna, hvað er viðeigandi?" Hér getur þú fengið bæklinginn í PDF formi

Hvað á að gera?
Ef þú telur að barn sæti kynferðisofbeldi skalt þú tilkynna það barnaverndarnefnd þar sem barnið á heima. Leyfðu barninu að njóta vafans og láttu fagfólk meta þörf á aðgerðum.

Samkvæmt 16. gr. barnaverndarlaga er fjallað um tilkynningaskyldu almennings þar segir að öllum sé skylt að tilkynna til barnaverndarnefndar ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn: 
a. búi við óviðunandi uppeldisaðstæður,
b verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða
c stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu. 
Í 17. gr. sömu laga er sérstök áhersla lögð á tilkynningarskyldu þeirra sem starfa sinna vegna hafa afskipti af málefnum barna. Tilkynningarskyldan gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfstétta.

Þegar barn segir frá ofbeldi
Það er aldrei auðvelt fyrir barn að greina frá kynferðisofbeldi eða öðru ofbeldi. Oft hefur barnið þurft að telja í sig kjark í langan tíma og stundum segir barnið frá slíku án þess að ætla sér það. Ef barn tekur það skref að segja frá slíkri reynslu er mikilvægt að bregðast rétt við.

Trúðu barninu
Tilkynntu málið til barnaverndarnefndar
Láttu barnið vita að það var rétt að segja frá
Fullvissaðu barnið um að ofbeldið sé ekki því að kenna
Hlustaðu á barnið en ekki yfirheyra það
Tryggðu öryggi barnsins
Mundu að þín viðbrögð skipta máli fyrir horfur barnsins og hvernig það tekst á við afleiðingar ofbeldisins


Nánari upplýsingar um vinnslu mála í BarnahúsiÞetta vefsvæði byggir á Eplica