Meðferðardeild - Greining og meðferð


  • Barnaverndarstarfsfólk sækir um meðferðarpláss í samráði við forsjáraðila og gerir þeim og barninu grein fyrir starfsemi Stuðla
  • 15 ára og eldri þurfa að samþykkja meðferð
  • Samþykki unglingur eða foreldrar ekki vistun getur barnaverndarnefnd úrskurðað hann í meðferð í allt að tvo mánuði. Heimilt er að bera úrskurð undir héraðsdómara
  • Helstu markmið eru að styrkja sjálfsmynd unglings og gefa honum tækifæri til að takast á við lífið á betri forsendum
  • Rými er fyrir átta unglinga í einstaklingsherbergjum
Hvernig er sótt um meðferð?

Barnaverndarstarfsfólk sækir um greiningu og meðferð, í samvinnu við foreldra og barn og gerir þeim grein fyrir starfsemi Stuðla. Oft hafa foreldrar leitað af fyrra bragði til nefndarinnar. Samkvæmt barnaverndarlögum er gerð sú krafa að nefndin hafi reynt önnur stuðningsúrræði áður en gripið er til vistunar á stofnun. Þessi krafa byggir jafnframt á þeirri vinnureglu að nota þau úrræði sem hafa minnsta röskun í för með sér fyrir barn og fjölskyldu. Starfsmaður barnaverndarnefndar sendir umsókn til Barnaverndarstofu, fylgir foreldrum og unglingi í forviðtal og inntökufund á Stuðlum og síðan á stöðufundi sem haldnir eru á 3 vikna fresti. Þar er farið yfir gang meðferðar, gerðar tillögur um lengd vistunar og framhald eftir útskrift. Starfsmaður barnaverndarnefndar og foreldrar eru viðstödd útskriftarfund á Stuðlum og ber barnaverndarnefnd ábyrgð á því að gera jafnhliða áætlun um frekari stuðning við barnið ef þess er talin þörf.

Skipulögð og fjölbreytt dagskrá
Í meðferðinni er stuðst við reglubundna dagskrá og atferlismótandi þrepakerfi þar sem ábyrgð unglings er afmörkuð. Í upphafi er hann á fyrsta þrepi sem gerir litlar kröfur en getur sótt um hærra þrep eftir tiltekinn tíma og árangur. Unglingar vinna verkefni í tengslum við vanda sinn og sitja fræðslu- og meðferðarfundi. Dagleg útivist, stutt ferðalög, tómstundir og íþróttir eru mikilvægur hluti meðferðarinnar. Forsjáraðilar koma vikulega eða oftar í viðtöl ásamt unglingi hjá sálfræðingi og hafa jafnframt náin samskipti við annað starfsfólk. Einnig eru forsjáraðilar í samskiptum við börn sín á heimsóknartímum og í helgarleyfum þar sem reynir á að yfirfæra meðferðarárangur á heimaslóðir.

Skóli
Kennsla og mat á námsstöðu er á vegum Brúarskóla og fer fram á Stuðlum. Margir unglingar á Stuðlum hafa litla trú á sér í skóla og hafa dregist aftur úr, oft vegna náms- eða samskiptaerfiðleika. Á Stuðlum er reynt að finna nýjar og betri leiðir að námsefni við hæfi hvers og eins. Haft er samráð við foreldra og heimaskóla unglings um fyrirkomulag náms eftir að meðferð líkur.

Áhersla á styrkleika og lausnir
Sterkt einkenni meðferðarinnar er einstaklingsbundin nálgun. Lögð er áhersla á styrkleika hvers og eins og leiðir að ásættanlegum lausnum í samskiptum og gagnvart kröfum umhverfisins. Hver unglingur hefur tengil úr hópi starfsmanna sem vinnur ásamt sálfræðingi að meðferðarmarkmiðum sem eru endurskoðuð reglulega. Greining og meðferð haldast í hendur í einstaklings- og fjölskylduviðtölum, sálfræðiathugunum og úrvinnslu upplýsinga frá skóla eða öðrum meðferðaraðilum. Einnig eru skoðaðar aðferðir unglings í samskiptum við jafningja og fullorðna innan Stuðla og lagt mat á tengslahæfni, daglegar venjur, líðan og viðhorf unglings til eigin stöðu.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica