Rannsóknir nema í samstarfi við Barnaverndarstofu

Yfirlit rannsókna

2019

Á árinu lauk Jóhanna Guðgeirsdóttir nemi lokaverkefni til B.A prófs við Háskólann á Akureyri. Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvort breytingar hafi orðið á kynferðisbrotum á börnum sem sótt hafa þjónustu Barnahúss á því 17 ára tímabili sem var til skoðunar. Bornar voru saman vissar grunnbreytur á árunum 2000-2003 og 2015-2017 og kannað hvort tölfræðileg breyting hafi orðið á þeim samkvæmt gagnasafni Barnahuss.

Hér má sjá útdrátt úr rannsókninni:

Rannsókn þessi tekur til 748 barna á aldrinum þriggja og hálfs árs til 18 ára. Börnin komu í Barnahús vegna gruns um kynferðisofbeldi á árunum 2000 – 2003 og 2014 – 2017 og greindu frá kynferðisofbeldi í könnunarviðtali eða skýrslutöku. Rannsóknin var unnin í Barnahúsi með leyfi Barnahúss, Barnaverndarstofu og Persónuverndar. Markmið hennar var að skoða hvort breyting hefðu orðið á kynferðisbrotum gegn börnum sem hafa sótt þjónustu til Barnahúss á síðustu 17 árum.Grunnbreytur um þolendur og gerendur, alvarleikastig, tíðni brota og meðferðir innan Barnahúss voru breytur sem fengnar voru upp úr gagnasafni Barnahúss. Notast var við Kí-kvaðrat próf við úrvinnslu gagnanna. Rannsóknarspurningarnar voru svohljóðandi: Hvernig hefur þolendahópurinn þróast? Hvernig hefur gerandahópurinn þróast? Er breyting á alvarleikastigi brotanna og tíðni þeirra? Tengsl geranda við þolanda, hafa þau breyst á þessum árum? Niðurstöðurnar sýndu að töluverðar breytingar hafa orðið á fjölda þolenda sem hefur tvöfaldast, fjölgun var á eldri þolendum og rúmlega tvöföld aukning var á drengjum. Einnig mátti sjá breytingu á gerendum þar sem mikil fjölgun var í aldurshópi 15 – 29 ára. Alvarleikastig kynferðisofbeldis hefur ekki breyst milli tímabilanna. Þrátt fyrir aukningu tilvika á milli tímabila. Hlutfall þolenda sem kynntust gerendum á internetinu hefur hækkað um 10% og greiningar og meðferðir sem fóru fram í Barnahúsi hafa tæplega tvöfaldast.

2018

Á árinu lauk Helga Theodóra Jónasdóttir meistaranemi lokaverkefni í sálfræði við Háskóla Íslands sem unnið var í samvinnu við Barnahús. Markmið rannsóknarinnar var að skoða að hve miklu leyti stuðningur og viðbrögð foreldra, vegna meints kynferðisofbeldi gegn bari þeirra, spáði fyrir um breytingar sem verða á einkennamynd barnsins í meðferð þess í Barnahúsi. Með einkennamynd er átt við einkenni þunglyndis, kvíða og áfallastreituröskunar. Þátttakendur í rannsókninni voru börn á aldrinum 8 til 18 ára sem fengu meðferð í Barnahúsi vegna gruns um kynferðisofbeldi og foreldrar/forsjáraðilar þeirra. Framkvæmd rannsóknarinnar fólst í því að leggja spurningalista fyrir þátttakendur í rannsókninni.

Hér má sjá útdrátt úr rannsókninni en lokaverkefnið er læst til 1.06.2028.

Several factors have been identified that appear to either ameliorate or exacerbate the repercussions of childhood sexual abuse. Some of these factors, including parental emotional reactions and parental support, need further examination before any firm conclusions regarding their effects on child functioning can be drawn. The purpose of this study was to examine the relationship between parental emotional reactions and children's internalizing symptoms following sexual abuse on one hand and between parental abuse-specific support and children's internalizing symptoms following sexual abuse on the other. Participants included 42 dyads of treatment-referred children and their mothers. Maternal emotional reactions were estimated using the Parent Emotional Reactions Questionnaire (PERQ) and the Parent Support Questionnaire (PSQ) was used to evaluate maternal abuse-specific support. Children's internalizing symptoms were measured using the Multidimensional Anxiety Scale for Children (MASC), the Children's Depression Inventory (CDI) or the Depression Anxiety Stress Scale-21 (DASS-21), and the UCLA-Post-Traumatic Stress Disorder Reaction Index for DSM-IV (UCLA-PTSD RI). The results indicated that maternal emotional reactions were not significantly related to depressive, post-traumatic or anxiety symptoms, which is consistent with some prior studies relying on children's report of their symptomatology. Conversely, positive, albeit weak, relationships were found between maternal support and children's depressive symptoms and post-traumatic stress symptoms, whereas no statistically significant relationship was found between maternal support and children's anxiety symptoms. Overall, these findings are inconsistent with most prior studies that have either found an inverse, albeit weak, or a non-significant relationship between parental support and children's symptoms. Implications of these findings and future suggestions for research and clinical practice are discussed. 

2016

Rannsókn á vægi framburðar barna í Barnahúsi og áhrif þeirra á útgáfu ákæra og sakfellinga

Á árinu 2016 lauk Linzi Trosh nemi lokaverkefni í sálfræði við Háskólann í Reykjavík sem unnið var í samvinnu við Barnahús. Markmið rannsóknarinnar var að skoða framburð barna þar sem grunur var um að börn höfðu sætt kynferðislegu ofbeldi og meta hvort og þá hvaða þættir í framburði þeirra hefðu áhrif á það hvort ákæra var gefin út og hvort meintur gerandi var sakfelldur.   Smellið hér til að skoða verkefnið 

Einkenni kvíða, þunglyndis og áfallastreituröskunar meðal barna sem hlutu meðferð í Barnahúsi

Á árinu 2016 lauk Bergný Ármannsdóttir nemi lokaverkefni í sálfræði við Háskóla Íslands í samvinnu við Barnahús. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tíðni þunglyndis, kvíða og áfallastreituröskunar meðal þjónustuþega Barnahúss. Einnig var kannað hvort börn væru líklegri til að fá þunglyndi, kvíða eða áfallastreituröskun í kjölfar kynferðisofbeldis ef vissir áhættuþættir væru til staðar. Þeir áhættuþættir sem voru kannaðir voru tengsl við gerenda, alvarleikastig brots, aldur, kyn, tími og tímalengd brota. Einnig var kannað hvort ofantaldar raskanir hefðu áhrif á fjölda meðferðarviðtala.  Smellið hér til að skoða verkefnið

2014

Börn sem búa við heimilisofbeldi á Íslandi: Mat á sameiginlegum þáttum, hegðun og sálfélagslegri líðan barna sem hafa orðið fyrir og/eða orðið vitni að sálrænu og/eða líkamlegu ofbeldi á heimili.

Á árinu 2014 lauk lauk Lucinda Árnadóttir nemi lokaverkefni við sálfræði við Háksóla Íslands í samvinnu við Barnaverndarstofu. Markmið þessarar rannsóknar var að meta sameiginlega þætti, hegðun og sálfélagslega líðan hjá börnum sem hafa orðið fyrir og/eða orðið vitni að sálrænu og/eða líkamlegu ofbeldi á heimili sínu.  Smellið hér til að skoða verkefnið

Að segja frá: Upplifun þolenda kynferðisofbeldis og foreldra þeirra af frásögn af ofbeldinu og af meðferðarúrræðum.

Á árinu 2014 lauk Kristín Berta Guðnadóttir nemi lokaverkefni í fjölskyldumeðferð við Háskóla Íslands í samvinnu við Barnaverndarstofu. Tilgangur þessarar rannsóknar var að auka þekkingu á málefnum barna sem hafa sætt kynferðisofbeldi og þeim áhrifum sem ofbeldið hefur á barnið og fjölskyldu þess. Þannig er hægt að gera betur þegar kemur að úrræðum og stuðningi sem börn og fjölskyldur þeirra fá þegar ofbeldið kemst upp. Í fyrsta lagi var sjónum beint að upplifun barna sem hafa sætt kynferðisofbeldi, annars vegar hvernig þau upplifðu viðbrögð foreldra við frásögn þeirra af ofbeldinu og hins vegar upplifun þeirra af stuðnings- og meðferðarúrræðum á vegum barnaverndarnefnda. Í öðru lagi að upplifun og viðbrögðum foreldra við frásögn barns þeirra af kynferðisofbeldi og upplifun þeirra af meðferðar- og stuðningsúrræðum á vegum barnaverndarnefnda. Rannsóknin er unnin í samvinnu við Barnaverndarstofu sem jafnframt er ábyrgðaraðili rannsóknarinnar. Tekin voru viðtöl við 5 einstaklinga eldri en 18 ára sem urðu fyrir kynferðisofbeldi á barns- eða unglingsaldri og fengu vegna þess meðferðarviðtöl í Barnahúsi og 5 foreldra þessara einstaklinga eða alls 10 viðtöl. Niðurstöður gefa vísbendingar um að gagnlegt sé á að meta þörf á stuðningi við aðstandendur þegar verið er að veita þolendum kynferðisofbeldis meðferð. Þá koma fram vísbendingar um að ekki virðist í öllum tilvikum vera nóg að veita þolendum einstaklingsmeðferð, heldur getur í sumum tilfellum verið þörf á að bjóða upp á stuðning fyrir foreldra og fjölskyldumeðferð.

Þróun áhrifaþátta í málum barna í Barnahúsi Samanburðarrannsókn á gögnum Barnahúss frá '98 - '03 og '06 - '10 og þáttum sem tengjast útgáfu ákæru og sakfellingum
Á árinu 2014 luku Bjarki Þór Sigvarðsson og Linzi Trosh nemar lokaverkefni við sálfræði við Háskóla Íslands sem unnið var í samvinnu við Barnahús. Rannsókn þessi skoðaði framburð 263 barna sem mættu í skýrslutöku í Barnahús á árunum 2006 til 2010 vegna gruns um að hafa sætt kynferðislegu ofbeldi. Rannsóknin var unnin í Barnahúsi með leyfi Þorbjargar Sveinsdóttur, Barnaverndarstofu og Persónuverndar. Markmið rannsóknarinnar, líkt og rannsóknar Þorbjargar Sveinsdóttur (2011) var að skoða hvort eðli brota og framburður barna tengdust útgáfu ákæru og dómsniðurstöðum. Þorbjörg skoðaði lyktir mála 285 barna sem mættu í skýrslutöku í Barnahús á árunum 1998 til 2003. Niðurstöður þessa rannsóknar voru síðan bornar saman við niðurstöður rannsóknar Þorbjargar. Upplýsingum var bætt við gagnagrunn Barnahús og hann notaður í rannsókninni. Notast var við lýsandi tölfræði og Kí-kvaðrat próf við úrvinnslu gagnanna. Hlutfall mála sem ákært var í var svipað í báðum rannsóknum en breytingar höfðu orðið á sakfellingum. Við samanburð á niðurstöðum rannsóknanna kom í ljós að dregið hefur úr kröfum til framburðar barna og getu þeirra til að bera vitni. Sjá nánar á http://skemman.is/item/view/1946/16434

2013

Áhrif bakgrunnsbreyta á frásögn barna af kynferðisofbeldi. Hvað tefur frásögn barna af kynferðisofbeldi

Á árinu 2013 lauk Gunnhildur Gunnarsdóttir nemi lokaverkefni í sálfræði við Háskóla Íslands sem unnið var í samvinnu við Barnahús. Í rannsókninni voru skoðaðar einstaklingsbreytur sem skráðar eru í gagnagrunn Barnahúss hjá þeim börnum sem komu í viðtal í Barnahús á árunum 2006 til 2011 vegna gruns um að hafa sætt kynferðislegu ofbeldi. Skoðaðar voru mögulegar áhrifsbreytur á töf á frásögn barns af kynferðisofbeldi. Notast var við lýsandi tölfræði, Kí-kvaðrat próf og einhliða dreifigreiningu til að komast að því hvort munur væri á breytunum; aldri, kyni, þjóðerni, geð/þroskagreiningu, tengsl við geranda og alvarleikastig útfrá því hversu lengi barn var að greina frá kynferðisofbeldi. Af öllum þeim börnum sem komu í Barnahús á þessu tímabili (n=1683) þá greindu 51% barnanna frá kynferðisofbeldi. Um 57,5 % barna sem greina frá kynferðisofbeldi höfðu ekki greint frá ofbeldinu þegar að ár var liðið frá broti. Flest börn sem orðið höfðu fyrir kynferðisofbeldi greindu fyrst frá því við einhvern innan fjölskyldu sinnar. Um 22% barna drógu framburð sinn um kynferðisofbeldi til baka. Því tengdara sem barn var geranda því lengri varð töfin á frásögn barns af kynferðisofbeldi. Börn sem höfðu verið á aldrinum 8-12 ára við fyrsta kynferðisbrot greindu síðar frá kynferðisofbeldinu en börn sem höfðu verið á aldrinum 13-19 ára við fyrsta brot. Alvarleikastig brots virtist ekki hafa áhrif á lengd tafar á frásögn af kynferðisofbeldi. Stelpur, börn af íslenskum uppruna og börn með geð/þroskagreiningu voru almennt lengur að greina frá kynferðisofbeldi en drengir, börn af erlendum uppruna og börn án geð/þroskagreiningar. Mikilvægt er að reyna að bera kennsl á þá þætti sem geta haft áhrif á töf á frásögn barns af kynferðisofbeldi. Þegar barn greinir ekki strax frá því kynferðisofbeldi sem það var beitt á það á hættu að verða fyrir auknu ofbeldi og önnur börn eru einnig í hættu. Sjá nánar á http://skemman.is/item/view/1946/15348

2012
The examination of debriefings of alleged child sexual abuse in Iceland against children between the ages of 3½-11 years./Rannsókn á skýrslum vegna gruns um kynferðisofbeldi á Íslandi gagnvart börnum á aldrinum 3 1/2-11 ára.
Á árinu 2012 lauk Hulda Jóndóttir Tölgyes nemi lokaverkefni í sálfræði við Háskóla Reykjavíkur sem unnið var í samvinnu við Barnahús. Markmið rannsóknarinnar var að athuga hugsanleg innbyrðis tengsl milli kyns barna annars vegar og aldurs þeirra hins vegar við þætti eins og fjölskyldustöðu, búsetu, hver tilkynnti um meint kynferðislegt ofbeldi, kyn meints geranda, samband barns við meintan geranda og alvarleikastig meints brots. Í rannsókninni var unnið með upplýsingar úr öllum skýrslutökum sem fóru fram í Barnahúsi á árunum 1998-2011. Niðurstöður rannsóknarinnar studdu við niðurstöður annarra rannsókna varðandi það að stúlkur væru í meirihluta sem meintir þolendur, flestar skýrslutökur væru vegna mála barna 6 ára og eldri og að fjölskyldumeðlimir væru oftar gerendur en vinir, félagar, aðrir ábyrðaraðilar eða ókunnugir. Þar að auki sýndu niðurstöður að börn sem bjuggu með einstæri móður eða móður og stjúpforeldri voru í miklum meirihluta.

Læknisskoðanir í Barnahúsi vegna gruns um kynferðisofbeldi gegn stúlkum 2001-2010
Í desember 2012 lauk Margrét Edda Örnólfsdóttir nemi lokaverkefni í læknisfræði sem unnið var í samvinnu við Barnahús. Rannsóknin var afturskyggn og lýsandi fyrir árin 2001-2010 og tók til fjölda læknisskoðana í Barnahúsi og gagna á Landspítala. Upplýsingum var safnað úr læknabréfum og matsblöðum, þ.m.t. um aldur skoðaðra barna og kyn, biðtíma frá tilvísun að skoðun og skráðar niðurstöður skoðunar. Fjöldi læknisskoðana var 245 hjá 237 börnum (220 stúlkum og 17 drengjum). Skoðanir voru flestar eðlilegar (85%) en 12% stúlkna báru ummerki sem hugsanlega tengdust kynferðisofbeldi en þýðing 4% lýstra frábrigða var óljós/umdeild. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að samræmi skorti milli skráninga læknisskoðana í Barnahúsi og á Landspítala. Þörf sé á endurmati á aðferðum og verkferlum sem beitt er við læknisskoðanir vegna gruns um kynferðisofbeldi, bæði fyrir valkvæmar og bráðar skoðanir. Sjá nánar á http://skemman.is/item/view/1946/13308;jsessionid=F4FD84E94AAFD07AB95B9EA9D07F1A31

2011
Skilgreiningar-og flokkunarkerfi í barnavernd. Mat á flokkun tilkynninga hjá Barnavernd Reykjavíkur
Í desember 2011 lauk Kristný Steingrímsdóttur nemi lokaverkefni í félagsráðgjöf sem unnið var í samvinnu við Barnaverndarstofu. Ritgerðin fjallar um skilgreiningar- og flokkunarkerfi í barnavernd (SOF), uppruna þess, þróun, notkun og mikilvægi. Rannsóknin miðaði að því að meta hvernig skilgreiningar- og flokkunarkerfið hentar daglegri vinnslu. Rannsóknin felur í sér að meta flokkun barnaverndartilkynninga og greina hvort efni séu til endurskoðunar á skilgreiningar- og flokkunarkerfinu. Gerð var eigindleg innihaldsgreining á tilkynningum sem bárust á mánaðartímabili til Barnaverndar Reykjavíkur. Greindar voru 448 tilkynningar sem vörðuðu 355 börn. Í ljós kom að um 82% tilkynninga töldust rétt flokkaðar en aðrar tilkynningar voru skráðar í ranga flokka eða lentu á gráu svæði. Rætt er í rannsókninni um helstu þætti sem mætti taka til umhugsunar varðandi skilgreiningar- og flokkunarkerfið í barnavernd. Sjá nánar á http://skemman.is/item/view/1946/10360

Tilsjón, tilgangur og markmið í barnaverndarstarfi
Í desember 2011 lauk Margrét Þórarinsdóttir nemi við lokaverkefni í félagsráðgjöf sem unnið var í samvinnu við Barnaverndarstofu. Rannsóknin byggir á eigindlegri og megindlegri rannsóknaraðferð. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á upplifun tilsjónarmanna í barnavernd af starfi sínu og starfsumhverfi. Hlutverk tilsjónarmanna er, eins og fram kemur í handbók barnaverndar útgefinni af Barnaverndarstofu, að veita foreldrum aðstoð við að sinna forsjár- og uppeldisskyldum sínum svo sem best hentar hag og þörfum barnsins. Rannsóknin er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi og varpar því nýju ljósi á viðfangsefnið. Megindlega rannsóknin var í formi spurningalistakönnunar á vefnum. Um var að ræða 48 spurningar þar sem spurt var um bakgrunn tilsjónarmanna, svo sem menntun og reynslu, ásamt ráðningarformi, tilhögun tilsjónar, mati á tilsjón, samstarfi við yfirmenn og upplifun tilsjónarmanna af starfi sínu. Í eigindlega þættinum var rætt við fimm af þeim 20 tilsjónarmönnum sem svöruðu spurningalistakönnuninni til að fá fram dýpri skilning á viðfangsefninu. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að félagsráðgjafar geri ekki skýran greinarmunur á störfum persónulegs ráðgjafa og tilsjónarmanns þar sem tilsjónarmenn sinni í sumum tilfellum báðum þessum störfum. Enn fremur sinna tilsjónarmenn í flestum tilfellum bæði stuðningi og eftirliti þó ekki sé um eftirlitshlutverk að ræða heldur stuðningsúrræði samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002. Ekki virðast gerðar þær kröfur til tilsjónarmanna að þeir uppfylli þau skilyrði sem gerð eru til starfsins samkvæmt reglugerð nr. 652/2004 um úrræði á ábyrgð sveitarfélaga samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga nr. 80/2002. Flestir tilsjónarmenn eru ánægðir í starfi sínu og telja sig ná árangri. Sjá nánar á http://skemman.is/item/view/1946/10359

2010
Samanburður á neyslu unglinga á Stuðlum og unglinga innan grunnskólakerfisins og afleiðingar neyslu unglinganna á Stuðlum
Í desember 2010 lauk Inga Lára Helgadóttir nemi lokaverkefni í félagsráðgjöf sem unnið var í samvinnu við Barnaverndarstofu. Markmið verkefnisins er að skoða mun á neyslu unglinga á Stuðlum og unglinga í grunnskólakerfinu árið 2009. Með neyslu er átt við tóbaksreykingar, notkun á munn- og neftóbaki, áfengisnotkun, hvort unglingar hafi orðið ölvaðir og hvort þeir hafi einhvern tíma notað kannabisefni. Bornar voru saman kannanir sem lagðar voru fyrir unglingana á Stuðlum annars vegar og unglingana í öllum grunnskólunum landsins hins vegar til að sjá hver munurinn væri milli hópanna. Í úrtakinu voru allir unglingar í áttunda til tíunda bekk í grunnskólunum, alls 11.430 og allir unglingar sem voru á Stuðlum í sömu aldurshópum, 39 talsins. Stofnunin Rannsóknir og greining útvegaði upplýsingar um neyslu unglinga í grunnskólunum og útveguðu Stuðlar upplýsingar um neyslu unglinga á Stuðlum. Athuguð var þróun á neyslu hvors hópsins milli áranna 2007 og 2009 og að lokum skoðaðar afleiðingar neyslunnar hjá unglingunum á Stuðlum árið 2009 samkvæmt ESPAD-rannsókn. Unglingar á meðferðarheimilinu Stuðlum voru í mun meiri neyslu en unglingar í grunnskólakerfinu í öllum þeim þáttum sem spurt var um. Ekki verður sagt að niðurstöður komi á óvart enda eru unglingar vistaðir á Stuðlum vegna áhættuhegðunar á borð við neysluvanda. Sjá nánar á http://skemman.is/item/view/1946/7123

2008
Mat á hegðun og líðan barna við umsókn um meðferðarúrræði
Á vormisseri 2008 skrifaði Baldvin Örn Einarsson B.A. ritgerð sína í sálfræði í samvinnu við Barnaverndarstofu. Markmið rannsóknarinnar var að skoða niðurstöður ASEBA matslistanna (The Achenbach System of Empirically Based Assessment) um hegðun og líðan þeirra barna sem sótt var um meðferð fyrir árið 2006. Á árinu var skilað inn ASEBA listum fyrir 144 börn á aldrinum 10 til 17 ára. Drengir voru aðeins fleiri en stúlkur (58% á móti 42%). Langflest börnin, um og yfir 90%, töldust í vanda tengdum heildarfærni, samkvæmt öllum tegundum lista. Hegðun og líðan barnanna kom almennt frekar illa út (um 87% töldust hugsanlega eða örugglega í vanda með hegðun og líðan í heild), sérstaklega á sviðum tengdum athygli, andfélagslegri- og árásartengdri hegðun. Almennt mátu börnin vandann minnstan, foreldrar mátu vandan mestan og mat kennara féll þarna á milli. Meðalfylgni svara foreldra, barna og kennara var lág (z´ = 0,12 - 0,18) líkt og fyrri rannsóknir hafa gefið til kynna.

Upplifun kynforeldar sem áttu börn í styrktu fóstri árið 2006 Jóhanna Vilborg Ingvarsdóttir félagsráðgjafarnemi á Barnaverndarstofu vormisserið 2008 vann rannsókn samhliða starfsnámi sem ber heitið “Upplifun kynforeldra sem áttu börn í styrktu fóstri árið 2006”. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa vísbendingar um að kynforeldrar höfðu almennt upplifað styrkt fóstur barna sinna á jákvæðan hátt. Meðal annars kom fram í svörum kynforeldra að börnunum hefði vegnað illa áður en þau fóru í styrkt fóstur en við lok fósturráðstöfunar hefði þeim almennt séð liðið vel. Einnig kom fram að samskipti kynforeldra við barn á fósturtímanum voru góð. Þess ber að geta að úrtakið var mjög lítið í rannsókninni og er því alhæfingargildi hennar takmarkað.

2007
Kynferðislegt ofbeldi gegn börnum og ferli slíkra mála á Íslandi
Í október 2007 skrifaði Sigrún Jónatansdóttir B.A. ritgerð í sálfræði í samvinnu við Barnahús. Í þessari rannsókn var lögð áhersla á að skoða mál þar sem skýrsla var tekin af brotaþola og hafin var lögreglurannsókn. Unnið var úr gögnum 179 mála Barnahúss frá árunum 2004 og 2005. Um er að ræða skýrslutökur í Barnahúsi auk mála þar sem skýrsla var tekin í héraðsdómi og barn kom síðar í meðferð í Barnahús. Helstu niðurstöður voru að meðalaldur þolenda er 12 ár og gerenda 32 ár, sem eru sjaldnast ókunnugir börnunum. Sá tími sem tekur mál að fara í gegnum það ferli sem við á er mjög misjafn en álykta mætti að hann væri almennt of langur. Samanburður á afköstum Barnahúss og héraðsdóma leiddi í ljós að munur er á og hlutfallslega fleiri sektardómar falla í kjölfar skýrslutöku í Barnahúsi. Jákvætt samband er milli alvarleika brota og þyngdar refsingar sem gerandi er dæmdur til, þ.e. því alvarlegra sem brot er, því þyngri refsing er dæmd.

Viðhorf til skólagöngu fósturbarna
Katrín Þórdís Jacobsen, 4. árs nemi í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands 2007
Í þessari rannsókn var leitast við að kanna hver viðhorf til skólagöngu fósturbarna í tímabundnu fóstri voru. Gerð var símakönnun, þar sem annars vegar var talað við fósturforeldra sem höfðu verið með barn/börn í tímabundnu fóstri á árinu 2006 og hins vegar skólastjóra þeirra skóla sem eru í skólaumdæmum viðkomandi fósturforeldra. Helstu niðurstöður voru þær að viðhorf til skólagöngu fósturbarna eru almennt jákvæð. Þó ber á neikvæðum viðhorfum sem jafnvel hafa orðið til þess að barni sé synjað um skólavist í skólaumdæmi fósturforeldranna.

2006 og eldra

Tilkynningar til barnaverndarnefnda sem ekki eru kannaðar
Guðrún Ottersted 4. árs nemi í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands 2006
Markmið rannsóknarinnar var að skoða þær tilkynningar sem ekki fóru í könnun hjá tveimur barnaverndarnefndum. Skoðað var hvert innihald tilkynninganna var og hvaðan þær komu. Tilkynningar voru skoðaðar hjá Barnavernd Reykjavíkur og Barnavernd Hafnarfjarðar yfir þriggja mánaða tímabil, september, október og nóvember 2005. Í ljós kom að flestar ókannaðar tilkynningar komu frá lögreglu. Ástæður flestra tilkynninga voru vegna áhættuhegðunar barns. Mun fleiri tilkynningar bárust til nefndanna vegna afskipta af drengjum. Meðalaldur barnanna í þessum málum var í kringum 14 ár. Hlutfall þeirra tilkynninga sem ekki fór í könnun hjá Barnavernd Reykjavíkur var 35,2% en hjá barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar 38%.

Upplifun unglinga og forsjáraðila þeirra á eftirfylgni eftir meðferð á langtímameðferðarheimili
Í október 2004 skrifaði Kristín Berta Guðnadóttir BA-ritgerð í félagsráðgjöf sem unnin var í samvinnu við Barnaverndarstofu. Í ritgerðinni var leitast við að varpa ljósi á upplifun unglinga og forsjáraðila þeirra á eftirfylgni eftir meðferð á langtímameðferðarheimili á vegum Barnaverndarstofu. Bornar voru saman tillögur sem meðferðaraðilar gera fyrir þá unglinga sem útskrifast og áætlanir sem barnaverndarstarfsmenn gera af sama tilefni. Þá var skoðað í hverju þessar tillögur fólust. Helstu niðurstöður sýndu að bæði unglingar og forsjáraðilar þeirra vilja fá meira og betra aðhald en var í raun. Fram kemur einnig nauðsyn þess að vinna með allri fjölskyldunni svo árangur meðferðar nýtist sem best. Lögð er áhersla á mikilvægi þess að koma upp markvissri eftirmeðferð hér á landi og tryggja að allir sem hverfa úr umsjá barnaverndar sitji við sama borð. Niðurstöður erlendra rannsókna styðja þetta og sýna að börn sem hafa verið í umsjá barnaverndaryfirvalda eiga fremur á hættu að lenda undir fátæktarmörkum síðar en einnig að þessi hópur er í meiri hættu hvað varðar tilraunir til sjálfsvíga.
Hver er reynslan af styrktu fóstri?
Þóra Helgadóttir, 4. árs nemi í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands 2004
Í rannsóknarverkefninu var leitast við að kanna mat starfsmanna barnaverndarnefnda og fósturforeldra á samskiptum og árangri af styrktu fóstri. Spurningalistar voru notaðir til að leita svara við hvort að munur sé á mati fósturforeldra og starfsmanna barnaverndarnefnda á samskiptum á milli þeirra hópa sem koma að styrktu fóstri. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar sýndu ekki fram á mun á mati hópanna tveggja á samskiptum sínum við kynforeldra og barn, en munur var á mati hópanna á samskiptum sín á milli. Starfsmenn voru mun ánægðari með samskipti sín við fósturforeldra en öfugt. Einnig var leitast við að svara hvort að hafi orðið árangur af styrktu fóstri að mati fósturforeldra og starfsmanna barnaverndarnefnda. Í ljós kom að börnum vegnaði betur eftir að þau komu úr fóstri heldur en áður en þau fóru í fóstur en þó taldi stór hópur að markmiðum með fóstrinu hafi ekki verið náð og að breytingu á hegðun barns mætti ekki endilega rekja til fósturráðstöfunarinnar.

Börn og kynferðisbrot - Framburður barns í rannsóknarviðtali, orðalag ákæru og lyktir máls. Rannsóknin var unnin í Barnahúsi fyrir Barnaverndarstofu, vorið 2001. Rannsóknin var lokaverkefni Jóhönnu Kristínar Jónsdóttur og Þorbjargar Sveinsdóttur til BA-prófs í sálfræði frá Háskóla Íslands. Leiðbeinendur voru dr. Jón Friðrik Sigurðsson, yfirsálfræðingur á Fangelsismálastofnun ríkisins og dr. Jakob Smári prófessor við Háskóla Íslands. Um er að ræða rannsókn á framburði 60 barna sem komu í Barnahús vegna lögreglurannsóknar á árinu 1999 þar sem grunur lék á að þau hefðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Viðtöl við börnin voru greind samkvæmt gátlista sem rannsakendur útbjuggu sérstaklega vegna rannsóknarinnar. Framburður barnanna var kannaður, eðli málanna og lyktir þeirra. Í málum sem hlutu ákærumeðferð var kannað hvort framburður barns skilaði sér inn í orðalag ákæru og dómsniðurstöðu. Í inngangi er gott yfirlit yfir skilgreiningar og flokkun á kynferðislegu ofbeldi gegn börnum, áreiðanleika vitnisburðar barna, rannsóknarviðtalið (forensic interview) sem notað er í Barnahúsi, sögu og starfsemi Barnahúss sem og refsivörslukerfið eins og það snýr að kynferðislegu ofbeldi gegn börnum. Í ritgerðinni er fjallað ítarlega um framkvæmd rannsóknarinnar og í niðurstöðukafla er gefin skýr mynd af niðurstöðum. Hægt er að nálgast eintak gegn greiðslu í Barnahúsi.


Umgengni barna í fóstri við kynforeldra

Steinhildur Sigurðardóttir, 4. árs nemi í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands 2002

Hvað eru barnaverndarnefndir að gera fyrir unga gerendur í kynferðisbrotamálum?
Bryndís Ósk Gestsdóttir, 4. árs nemi í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands 2000


Þetta vefsvæði byggir á Eplica