Foster-Pride

Mat á hæfni umsækjenda um leyfi sem fósturforeldrar.

Samkvæmt 9. gr. reglugerðar um fóstur nr. 804/2004 ber umsækjanda að sækja námskeið á vegum Barnaverndarstofu áður en leyfi er veitt. Markmið með námskeiði er annars vegar að leggja mat á hæfni umsækjanda og hins vegar að veita umsækjanda nauðsynlega þjálfun og undirbúa hann undir hlutverk sitt. Námskeiðið er bandarískt að uppruna og uppbyggt sem undirbúningsnámskeið fyrir fósturforeldra og matferli á hæfni þeirra. Kennslufyrirkomulag er í fyrirlestrarformi, umræður, hópvinna, æfingar og heimaverkefni. Þar sem stefnan er að þeir sem hafa sótt námskeiðið gangi fyrir við val á fósturforeldrum er þeim boðið að taka þátt sem áður hafa fengið leyfi Barnaverndarstofu. Ef um hjón eða sambýlisfólk er að ræða er skilyrði að báðir sæki námskeiðið. Námskeiðið þátttakendum að kostnaðarlausu en þátttakendur standa straum af ferðakostnaði og uppihaldi á meðan námskeið stendur yfir.

Skilyrði til þátttöku er að viðkomandi uppfylli þær almennu kröfur sem fram koma í 6. gr. reglugerðar um fóstur nr. 804/2004 og hafi samþykki barnaverndarnefndar í heimilisumdæmi sínu sem fósturforeldri. Námskeiðið stendur yfir í 10 vikur og er skipt upp í 10 lotur. Á milli tímanna fara leiðbeinendur í heimsóknir á heimili þátttakenda, 3-4 heimsóknir á hvert heimili.

Markmið námskeiðsins er að gera fósturforeldra hæfari í hlutverki sínu. Lagðar eru áherslur á fimm megin hæfniskröfur sem eru að geta annast og alið upp barn, þekkja þroskaferli barns og mætt frávikum í því ferli, stuðla að tengslum barns við fjölskyldu þess, geta unnið í teymi og stuðlað að því að barnið myndi traust og þroskandi tengsl við fjölskyldu sem ætlað er að vara til frambúðar.

Í byrjun námskeiðs fá þátttakendur lífsbók (vinnubók). Í lífsbókinni eru spurningar varðandi þátttakendur og aðstæður þeirra og er bókin notuð sem tæki til að meta hæfni þeirra sem fósturforeldrar.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica